Vistvænni
samgöngur

Helstu samgöngutengingar innan Breiðholtsins eru skilgreindar í hverfisskipulaginu ásamt tengingum við aðliggjandi borgarhluta, verslun og þjónustu. Þar eru enn fremur tillögur um að bæta hjólastíga

Bílastæðamál, almenningssamgöngur og borgargötur með aðstöðu fyrir rafbílahleðslustæði og deilibíla voru í brennidepli þegar vinnutillögur hverfisskipulags Breiðholts voru kynntar sumarið 2020 en samkvæmt aðalskipulagi og samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er unnið að því að bæta almenningssamgöngur og göngu- og hjólainnviði til að gera fleirum kleift að nota vistvæna samgöngumáta.

Þetta er í takt við stefnu Reykjavíkurborgar um eflingu vistvænna ferðamáta, til að fá fleiri til að hjóla, ganga og ferðast með almenningssamgöngum. Styrking nærþjónustu í hverfum borgarinnar, í þægilegu göngufæri fyrir flesta íbúa, getur einnig minnkað álag á gatnakerfið og stuðlað samhliða að heilsueflingu.

Unnið er að því að bæta almenningssamgöngur og göngu- og hjólainnviði til að gera fleirum kleift að nota vistvæna samgöngumáta

Stefnukort um samgöngur
Yfirlitskort yfir helstu samgönguleiðir í Breiðholtinu, bæði göngu- og hjólastíga, tengingar við borgarhlutann, borgargötur og lykilstöðvar og leiðir almenningssamgangna.

Kort: Reykjavíkurborg.

Almenningssamgöngur

 

Áhersla er lögð á gott almenningssamgöngukerfi. Lykilstöðvar og leiðir almenningssamgangna eru sýndar á samgöngukorti hverfisskipulags borgarhlutans en jafnframt áréttað að útfærsla leiðarkerfis Strætó fellur ekki undir verkefni hverfisskipulagsins.

Breiðholtið, sérstaklega Neðra Breiðholt, býr að því að ein stærsta skiptistöð Strætó er í Mjódd. Þar verða gerðar umfangsmiklar breytingar með sérstöku deiliskipulagi utan hverfisskipulagsins. Þær munu m.a. fela í sér umbætur á umhverfi skiptistöðvarinnar þar sem er einnig áætlað að verði skiptistöð fyrir Borgarlínu í framtíðinni, á leið upp í gegnum Neðra og Efra Breiðholt.

Jafnframt hefur verið ákveðið, í kjölfar ábendinga í hverfisskipulagssamráðinu sumarið 2020, að kanna með byggingu bílastæðahúss í Mjódd í tengslum við Borgarlínulegg upp í Efra Breiðholt. Bílastæðahúsið verður sérstaklega ætlað fólki sem sækir vinnu og skóla í Breiðholti.

Gatnamót Höfðabakka og Hóla verða enn fremur tekin til sérstakrar skoðunar samfara hönnun á leið Borgarlínu um svæðið. Hugmynd um leið fyrir almenningssamgöngur úr Jaðarseli í Seljahverfi yfir í Kópavog verður skoðuð með Strætó.

 

Kanna á byggingu bílastæðahúss í Mjódd tengt Borgarlínulegg upp í Efra Breiðholt. Bílastæðahúsið verður sérstaklega ætlað fólki sem sækir vinnu og skóla í Breiðholti

Borgarlína í Breiðholti 2029
Uppbygging Borgar­línunnar er langtímaverkefni og mun borgar­línu­leiðum fjölga jafnt og þétt á tímabili samgöngusátt­mála höfuðborgarsvæðisins. Áætlanir gera ráð fyrir því að árið 2029 verði tenging við Breiðholt orðin að veruleika.
Kort: borgarlinan.is

Borgargötur eru lykilgötur

Borgargötur eru lykilgötur innan hvers hverfis, ekki síst með tilliti til tenginga við helstu verslunar- og þjónustusvæði innan hverfis og tenginga við önnur hverfi.

Orðið borgargata í hverfisskipulagi vísar til göturýmis þar sem hús, gata og opin rými mynda órofa heild en aðstæður geta þó verið mjög ólíkar á milli hverfa. Borgargötur skulu njóta forgangs þegar kemur að endurhönnun og fegrun hverfa. Áhersla er lögð á að gera vistvænum ferðamátum hátt undir höfði við borgargötur og að aðgengi allra sé tryggt, óháð hreyfigetu. Við þær eru oft hverfiskjarnar með fjölbreyttri nærþjónustu og hverfistorg og almenningsrými eru jafnan hönnuð í tengslum við borgargötur. Tímabundin starfsemi, líkt og matarvagnar og/eða torgsala, verður heimiluð við borgargötur.

Hleðslustæði, deilibílar og grenndarstöðvar

Við borgargötur verða byggðir upp ýmsir innviðir sem styrkt geta vistvæna ferðamáta. Grenndarstöðvum með djúpgámum verður komið fyrir við borgargötur, nærri hverfiskjörnum, svo þær séu í þægilegri göngufjarlægð og á svæðum sem margir eiga erindi um reglulega. Einnig verður lögð áhersla á að koma fyrir hleðslustöðvum og stæðum fyrir deilibíla við borgargöturnar.

Áhersla er lögð á að gera vistvænum ferðamátum hátt undir höfði við borgargötur og að aðgengi allra sé tryggt óháð hreyfigetu

Neðra Breiðholt: Arnarbakki, milli hverfiskjarnans og Álfabakka, verður endurnýjaður sem borgargata. Gatan verður endurhönnuð fyrir alla samgöngumáta og nýtt hverfistorg við hverfiskjarnann mun tengjast borgargötunni.

Seljahverfi: Rangársel og Hólmasel verða skilgreind og endurhönnuð sem borgargötur. Gert er ráð fyrir nýju hverfistorgi við Rangársel sem tengjast mun fyrirhugaðri uppbyggingu hverfiskjarna á svæðinu. Við götuna eru skilgreindar lykilstöðvar almenningssamgangna í hverfinu.

Efra Breiðholt: Austurberg, milli Fellaskóla og Hólabrekkuskóla, ásamt Norðurfelli og Suðurhólum verða endurhannaðar sem borgargötur. Við hverfiskjarna við Eddufell, Hólagarð og Austurberg er gert ráð fyrir hverfistorgum sem tengjast munu borgargötunni. Borgargatan er einnig lykilleið almenningssamgangna í hverfinu.

Borgargötur
Við borgargötur er iðandi mannlíf og fólk ferðast gangandi, hjólandi, í bílum og með almenningssamgöngum.
Mynd: DLD – Dagný Land Design ehf.
Þjónusta við borgargötur
Myndin sýnir þjónstu sem mætti byggja upp við Austurberg sem borgargötu, s.s. með deilibýlum og hjólaleigum, djúpgámum og biðskýlum.
Mynd: DLD – Dagný Land Design ehf.

Bílastæði

Flestar athugasemdir sem bárust á kynningartíma vinnutillagna að hverfisskipulagi í Breiðholti sumarið 2020 voru vegna bílastæðamála. Flestar þeirra snúa að áhyggjum um að bílastæðum muni fækka með hverfisskipulagi. Talning sýnir að í heild eru heimildir fyrir 12.465 bílastæðum í Breiðholti samkvæmt gildandi deiliskipulagi og loftmyndatalning sýnir að þau eru í reynd enn fleiri, eða 15.566 að frátöldum stæðum í Mjódd.

Öll bílastæði sem skilgreind eru í eldra deiliskipulagi munu yfirfærast í heimildir hverfisskipulags. Bílastæðum verður því ekki fækkað frá því sem nú er.

Markmið hverfisskipulagsins er að bílastæðum í hverfunum þremur fjölgi einungis lítillega, þrátt fyrir uppbyggingu og fjölgun íbúða, svo hlutfall bílastæða á íbúð verði ekki hærra en það er nú. Ekki verður heimilt að fjölga bílastæðum vegna aukaíbúða í sérbýlishúsum og við nýja uppbyggingu, s.s. á þróunarsvæðum eða þegar heimildir til viðbygginga og ofanábygginga á fjölbýlishús og atvinnuhúsnæði eru nýttar, þarf að fylgja gildandi bíla- og hjólastæðareglum Reykjavíkur.

Stórbílastæðin áfram

Áform voru um að afleggja stórbílastæði í öllum hverfum Breiðholts, m.a. til að fegra ásýnd hverfanna, minnka ónæði frá vöru- og flutningabílum og auka öryggi. Töluverð andstaða við þessi áform kom fram þegar vinnutillögur hverfisskipulagsins voru kynntar sumarið 2020, ekki síst frá einyrkjum.

Að lokinni efnislegri skoðun ráðgjafa og samgöngustjóra borgarinnar er nú lagt til að öll stórbílastæðin fái að halda sér, nema stæði við Kríuhóla, þar sem verður gerð ný lóð fyrir 15-20 íbúðir. Jafnframt er í skilmálum heimilað að afmarka stæðin með girðingu eða hliði og setja reglur um nýtingu þeirra, m.a. um gjaldtöku.

Í Neðra Breiðholti eru fjögur stæði, eitt stæði er í Seljahverfi og þrjú stæði verða í Efra Breiðholti, þegar stæði við Kríuhóla hefur verið aflagt.

Stórbílasæði
Hér má sjá þau stórbílastæði sem hugmyndir eru um að afleggja.
Mynd: Reykjavíkurborg.

Göngu- og hjólastígar

Á undanförnum árum hefur hlutur hjólreiða farið mjög vaxandi í Reykjavík samhliða markvissri uppbyggingu innviða fyrir ferðamátann.

Í hverfisskipulagi kemur lega helstu göngu- og hjólastíga fram á hverfisskipulagsuppdrætti og á stefnukorti um samgöngur fyrir hvert hverfi. Byggt er að mestu á Hjólareiðaáætlun Reykjavíkurborgar og horfti til þess að stígarnir tengist stígum aðliggjandi borgarhluta. Í skilmálum hverfisskipulags kemur einnig fram að við skóla, verslun og þjónustu og annað atvinnuhúsnæði skuli fjöldi og fyrirkomulag hjólastæða vera samkvæmt ákvæðum gildandi bíla- og hjólastæðareglum Reykjavíkur.

Þannig er áfram hugað að því að efla samgönguhjólreiðar og tryggja greiðar og öruggar leiðir innan hverfis og á milli hverfa, borgarhluta og byggðarlaga.