Vetrargarður
í Breiðholti

Vetrargarðinum er ætlað að auka fjölbreytta afþreyingu og stuðla að aukinni útivist og hreyfingu allan ársins hring í höfuðborginni. Skilmálar um garðinn, sem byggja á lóðarskipulagsdrögunum, verða settir í hverfisskipulag Breiðholts

Hugmyndir um vetrargarð efst í Seljahverfi, sem kynntar voru sumarið 2020, féllu í góðan jarðveg og er verkefnið komið á fullan skrið. Drög að lóðarskipulagi liggja nú fyrir eftir að ríkið, Reykjavíkurborg og Kópavogur kynntu samkomulag um legu Arnarnesvegar undir lok árs 2020.

Í vetrargarðinum verða fjölbreyttar brekkur og ævintýrabrautir, sérstaklega formaðar á svæðinu

Fyrir alla borgarbúa

Til að geta haft svæðið opið allt árið verður ýmist notast við náttúrlegan snjó, snjóframleiðslu, eða svokallaða þurrskíðun (e. dry slope skying) í fjölbreyttum brekkum og ævintýrabrautum, sem verða formaðar sérstaklega á svæðinu. Má þar t.d. nefna gönguskíðabraut sem mun teygja sig til suðurs meðfram Seljahverfinu.

Gert er ráð fyrir útsýnispalli efst í brekkunni með verönd, bekkjum og borðum og veitinga- og þjónustukjarna. Þar er einnig ráðgerð skíða- og snjóbrettaleiga, útleiga á sleðum og hjólum, skíðaskóli með skíða- og brettakennslu, miðasala og veitingasala.

Vetrargarðurinn er hugsaður fyrir alla; leikskóla, grunnskóla, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, skíðafélög, fyrirtæki og stofnanir, félagasamtök, einstaklinga og fjölskyldur. Þar verður hægt að að standa fyrir allskyns mótum og viðburðum.

Skíðabrekkan í Seljahverfi
Myndin sýnir núverandi aðstæður við Jafnasel, milli Seljahverfis og Fellahverfis, þar sem ÍTR starfrækir skíðalyftu sem ætluð er börnum og byrjendum.
Mynd: ÍTR .
Fyrirhugaður vetrargarður í Seljahverfi
Vinna hefur staðið yfir frá haustinu 2020 við gerð skipulagsskilmála fyrir Vetrargarðinn, sem verða hluti af skipulagsskilmálum hverfisskipulags í Seljahverfi. Forvinna við hönnun svæðisins er einnig hafin.

Skíðasvæðið liggur vel við samgöngum, veðurfar er almennt hagstætt efst í Seljahverfinu og útsýnið yfir borgina frábært

Stuðlar að aukinni útivist og hreyfingu

Kostir vetragarðsins eru margir. Hann styður við uppbyggingu skíðasvæðanna í Bláfjöllum og Skálafelli og stuðlar að aukinni útivist og hreyfingu og er því lýðheilsumál. Starfsemi verður tryggð allt árið og staðsetningin er góð. Svæðið liggur vel við samgöngum, veðurfar er almennt hagstætt efst í Seljahverfinu og útsýnið yfir borgina frábært.

Fyrirhuguð lega Arnarnesvegar lá fyrir í október 2020, samkvæmt samkomulagi Vegagerðarinnar, Reykjavíkur og Kópavogs. Vegurinn mun að mestu liggja í landi Kópavogs. Lega Arnarnesvegarins er hagkvæm fyrir Vetrargarðinn og þá fjölbreyttu starfsemi sem verður þar allan ársins hring. Arnarnesvegur hefur verið merktur inn á hverfisskipulagsuppdrætti Seljahverfis og Efra Breiðholts, sem nálgast má hér á síðunni.