Þróunarsvæði í Breiðholti
Í Breiðholti hafa sjö svæði verið afmörkuð sem þróunarsvæði. Þar er fyrirhuguð þónokkur ný uppbygging sem hentar betur að þróa og skilgreina í hefðbundnum deiliskipulögum sem verða síðar sameinuð hverfisskipulaginu
Af þessum sjö þróunarsvæðum skera svæðin við Arnarbakka og Eddufell/Völvufell sig úr þar sem deiliskipulag þessara svæða hefur verið unnið samhliða hverfisskipulagi og fer nú samtímis í formlegt kynningar- og samþykktarferli. Önnur þróunarsvæði eru Jórufell-Norðurfell, Suðurfell, Mjódd, Suðurhólar-Hólagarður og Rangársel-Hólmasel.


Jórufell – Norðurfell
Þróunarsvæðið nær yfir byggðina við Jórufell og Iðufell ásamt aðliggjandi bílastæðum og borgarlandi. Í samráðsferli við gerð hverfisskipulags komu upp hugmyndir um að þróa nýja byggð á þessu svæði í samvinnu við Félagsbústaði sem eiga allar íbúðir í fjölbýlishúsinu við Jórufell. Einnig stendur til að leggja niður leikskólann Ösp við Iðufell og sameina hann öðrum leikskóla í hverfinu. Á þessu svæði er því kjörið tækifæri til að endurskoða landnýtingu og þróa byggðina.
Í hverfisskipulagi er gerð grein fyrir helstu áherslum sem leggja skal til grundvallar í vinnu við nýtt deiliskipulag þróunarsvæðisins. Þar segir að byggingarmagn innan svæðisins verði aukið með nýbyggingum og/eða viðbyggingum og ofanábygginum á núverandi hús. Gera skal ráð fyrir að húsnæði leikskólans Aspar verði fjarlægt en að í deiliskipulagi skuli skoða hvort haldið verði í önnur hús eða þau rifin. Hæðafjöldi húsa skal ekki vera meira en fimm hæðir. Eingöngu skal gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði á svæðinu, allt að 200 íbúðum. Leggja skal áherslu á að útbúa skjólgott dvalar/leiksvæði sunnanvert á svæðinu.
Ósk um stærri fjölskylduíbúðir
Í samráðsferli hverfisskipulagsins hefur komið fram eindregin ósk um að stærri fjölskylduíbúðum (4+ herbergi) verði fjölgað í Efra Breiðholti þar sem hlutfall þeirra er frekar lágt miðað við meðaltal borgarinnar. Með því má auðvelda fólki að stækka við sig innan hverfisins þegar fjölskyldan stækkar og með því nýta betur aðstöðu leik- og grunnskóla og styrkja grundvöll fjölbreytts íþrótta- og tómstundastarfs og verslunar og þjónustu. Á þróunarsvæðinu við Jórufell-Norðurfell verður því lögð sérstök áhersla á hagkvæmar fjölskylduíbúðir.
Í samráðsferli hverfisskipulags komu upp hugmyndir um að þróa nýja byggð á þessu svæði í samvinnu við Félagsbústaði

Fellin í Efra Breiðholti
Eignir Félagsbústaða í Fellum (bláu reitirnir) og þróunarsvæðin við Eddufell-Völvufell og við Suðurfell. Mynd: Reykjavíkurborg

Þróunarsvæði við Norðurfell – Jórufell
Afmarkaða svæðið er alls 21.366 m² og nær yfir lóðirnar Iðufell 14 og 16, Jórufell 2-12 og aðliggjandi bíalstæði og borgarland.
Mynd: Reykjavíkurborg.
Arkitektasamkeppni
Í samstarfi við Arkitektafélag Íslans hafa verið lögð drög að samkeppni um deiliskipulag þróunarsvæðisins til að fá fram fjölbreyttar hugmyndir um þróun byggðarinnar. Áhersla verður lögð á að íbúar hverfisins verði upplýstir um fyrirhugaða samkeppni og jafnframt tryggt að íbúar geti komið á framfæri hugmyndum fyrir samkeppnislýsinguna.


Suðurfell
Þróunarsvæðið er í brekkunni austan við Suðurfell. Svæðið er óbyggt og myndar jaðar syðsta hluta hverfisins að Elliðaárdal. Einkennandi í Efra Breiðholti er gisin sérbýlishúsabyggð sem mótar jaðar byggðarinnar að dalnum og útivistarsvæðum alls staðar nema við Suðurfell. Gisin og lágreist byggð sérstæðra húsa á þróunarsvæði við Suðurfell er því rökrétt framhald og lokar kransinum um hverfið.
Hverfisskipulag leggur línurnar fyrir deiliskipulagsgerðina í grófum dráttum. Þar kemur fram að gera megi ráð fyrir allt að 50 íbúðum á svæðinu í tveggja til þriggja hæða húsum sem lagi sig að brekkunni. Í hverju húsi verði ein til fjórar íbúðir og lögð áhersla á stærri fjölskylduíbúðir, eins og kallað var eftir af íbúum í samráðsferli hverfisskipulagsins. Sérstaklega verður hugað að því hvort lóðir innan þróunarsvæðisins uppfylli skilyrði til úthlutunar sem grænar þróunarlóðir sbr. markmið Græna plansins, sóknaráætlunar Reykjavíkur til 2030.

Suðurfell
Svæðið, sem er óbyggt, er í brekkunni austan við Suðurfell og myndar jaðar syðsta hluta byggðarinnar að Elliðaárdal.
Mynd: Bragi Þór Jósefsson
Óbyggða svæðið við Suðurfell er syðsti hluti Efra Breiðholts að Elliðaárdal en alls staðar nema þarna mótar sérbýlishúsabyggð jaðar byggðarinnar að dalnum og útivistarsvæðum

Þróunarsvæðið við Suðurfell
Til vinstri sést hvernig reiturinn er óbyggður en með fyrirhugaðri vegtengingu Arnarnessvegar. Teikningin hægra megin sýnir hvernig koma má fyrir 21 húsi með 50 íbúðum á reitnum.
Myndir: Reykjavíkurborg.
Mjódd
Skipulag og framtíðaruppbygging í Mjódd er utan ramma hverfisskipulags. Um er að ræða tvö þróunarsvæði í hverfisskipulagi, Norður og Suður Mjódd, og stendur deiliskipulagsvinna yfir fyrir bæði svæðin. Eftir að uppbyggingu á svæðunum er lokið í samræmi við nýtt deiliskipulag verða þau sameinuð hverfisskipulagi.
Norður Mjódd
Svæðið er skilgreint sem miðsvæði og borgarhlutakjarni í aðalskipulagi. Þar er fyrst og fremst gert ráð fyrir starfsemi sem þjónar heilum borgarhluta, s.s. verslun og þjónusta, skrifstofur og stofnanir ásamt afþreyingu og íbúðum, einkum á efri hæðum bygginga. Rýmri heimildir eru til rekstur veitinga- og skemmtistaða á miðsvæðum en annarsstaðar.
Í aðalskipulagi er svæðið einnig skilgreint sem sérstakur uppbyggingareitur fyrir þéttingu og blöndun byggðar. Gera má ráð fyrir nokkurri aukningu í atvinnuhúsnæði, 100-200 íbúðum innan svæðisins og að bílastæðaþörf verði leyst neðanjarðar eða með bílastæðahús.
Suður Mjódd
Þróunarsvæðinu má skipta í þrennt eftir skilgreindri landnotkun í aðalskipulagi. Norðaustast á svæðinu, meðfram Breiðholtsbraut og við Árskóga og Skógarsel, er skilgreint svæði fyrir íbúðarbyggð. Hluti svæðisins er sérstakur uppbyggingarreitur í aðalskipulagi og er uppbygging á þeim reit vel á veg komin. Norðvestan við íbúðarbyggðina, meðfram Reykjanesbraut, er svo skilgreint miðsvæði í aðalskipulagi. Svæðið er ennþá alveg óbyggt en þar eru heimildir til starfsemi, eins og þær eru skilgreindar í aðalskipulagi, sambærilegar og á miðsvæði í Norður Mjódd. Þriðji hluti svæðisins er íþróttasvæði ÍR.

Ný íþróttamannvirki í Mjódd
Fjölnotahúsið, sem búið er að reisa ásamt hliðarbyggingu, er efst á teikningunni og fyrir neðan það, hægra megin á myndinni, er parkethúsið svokallaða. Gert er ráð fyrir að eldri borgarar í nærliggjandi íbúabyggð geti nýtt sér aðstöðuna í báðum byggingum til íþróttaiðkunar, hreyfingar og sótt sér félagsskap.
Teikning: Landhönnun langdslagsarkitektar
Í Suður Mjódd er skilgreint ríflega 10 hektara íþróttasvæði fyrir ÍR með íþróttahúsum, -völlum og æfingsvæðum
Íþróttasvæði ÍR
Í Suður Mjódd er skilgreint ríflega 10 hektara íþróttasvæði fyrir ÍR með íþróttahúsum, -völlum og æfingsvæðum. Nýlega var tekið í notkun ríflega 4.200 m² fjölnotahús með hálfum knattspyrnuvelli og æfingaðstöðu fyrir frjálsar íþróttir, ásamt rúmlega 1.100 m² hliðarbyggingu með áhorfenda og búningsaðstöðu, tækni og áhaldageymslu og glæsilegum lyftingasal. Framkvæmdir hófust árið 2019 og þeim lauk vorið 2020. Kostnaður var rúmur milljarður króna.
Þá stendur nú yfir á svæði ÍR bygging um 4.220 m² íþróttahúss við hlið fjölnotahússins. Þetta er svonefnt parkethús þar sem verður hægt að æfa og keppa í ýmsum íþróttum. Íþróttasalurinn verður um 2.400 m² á einni hæð og þar verður pláss fyrir um 800 áhorfendur. Hann mun uppfylla kröfum um keppni í bæði handbolta og körfubolta. Framkvæmdir hófust árið 2020 og verklok eru áætluðu sumarið 2022. Kostnaður við verkið er áætlaður 1.250 milljónir króna.

Íþróttasvæði ÍR
Hér má sjá staðsetningu helstu íþróttamannvirki á ÍR svæðinu í Mjódd:
1. Fjölnotahúsið, 2. Parkethúsið, 3. Gervigrasvöllur, 4. Knattspyrnuæfingavöllur, 5. Æfingavöllur fyrir frjálsar.
Teikning: Landhönnun langdslagsarkitektar
Suðurhólar – Hólagarður
Meðfram Suðurhólum er óbyggt svæði austan við lóðir leikskólanna Hólaborgar og Suðurborgar sem í aðalskipulagi hefur verið skilgreint sem þróunarsvæði fyrir nýja íbúðarbyggð. Tekin var ákvörðun um að útvíkka þróunarsvæðið í hverfisskipulagi og tekur það nú einnig yfir leikskólalóðirnar og verslunarkjarnann Hólagarð, ásamt aðliggjandi bílastæðum.
Hverfisskipulag leggur helstu áherslur fyrir þróun og uppbyggingu verslunarkjarnans eins og kemur fram í umfjöllun um styrkingu hverfiskjarna. Fyrir aðra hluta þróunarsvæðisins er gert ráð fyrir að lóð Suðurborgar verði stækkuð til austurs svo afmörkun hennar í skipulagi verði til samræmis við raunverulega notkun og afmörkun hennar nú þegar. Á óbyggða svæðinu austan við leikskólana má auk þess gera ráð fyrir að afmarkaðar verði nýjar byggingarlóðir fyrir íbúðarhúsnæði í sambyggingum á tveimur til þremur hæðum, samtals um 40 íbúðir. Fótboltavöllur er þessu svæði í dag og er ráðgert að flytja hann á opið svæði sem tengist megingöngustíg hverfisins sem liggur fyrir ofan lóðirnar.

Efra Breiðholt
Myndin sýnir núverandi stöðu við Hólagarð þar sem hugmyndir eru um að fara í endurnýjun og uppbyggingu. Mynd: Reykjavíkurborg.
Ákveðið hefur verið að gera allt svæðið við Suðurhóla – Hólagarð að þróunarsvæði og vinna fyrir það deiliskipulag með endurnýtingu í huga


Hólagarður – Suðurhólar
Blái reiturinn á myndinni til vinstri afmarkar þróunarsvæðið sem er alls ríflega 35.000 m². Myndin til hægri sýnir mögulegar viðbyggingar og ofánábyggingar með íbúðum á efri hæðum hjá verslunar- og þjónustukjarnanum við Hólagarð.
Myndir: Reykjavíkurborg og Trípólí
Rangársel – Hólmasel
Í kynningu á vinnutillögum hverfisskipulags sumarið 2020 voru kynntar hugmyndir um uppbyggingu meðfram Rangárseli og Hólmaseli með áherslu á verslun og þjónustu á jarðhæðum, íbúðir á efri hæðum og góð tengsl við opin svæði í kring.
Í kjölfar kynningarinnar bárust nokkrar athugasemdir varðandi hugmyndirnar og í framhaldinu hefur verið ákveðið að gera umrætt svæði að þróunarsvæði. Þannig má þróa hugmyndirnar betur í sérstöku deiliskipulagi í samráði við hagsmunaaðila og íbúa og í takt við áherslur aðalskipulags Reykjavíkur. Undir umfjöllun um styrkingu hverfiskjarna, hér á síðunni, er nánari umfjöllun um þær áherslur sem hverfisskipulag skilgreinir fyrir svæðið og fyrirhuguð deiliskipulagsgerð mun taka mið af.

Rangársel