Samráð við íbúa

Ýmsum aðferðum hefur verið beitt til að fá fram sjónarmið sem flestra íbúa

Skapandi samráð
Ýmsum aðferðum hefur verið beitt til að fá fram sjónarmið sem flestra íbúa. Í samstarfi við alla hverfisskóla í Breiðholti voru nemendur í 6. bekk fengnir til að smíða módel af sínu hverfi og tóku fleiri hundruð börn þátt í þessari vinnu sem nefnd er Skapandi samráð. Þessi módel voru notuð á opnum íbúafundum í Breiðholti til að ræða stöðuna. Á íbúafundunum voru kynnt drög að tillögum um hverfið þeirra og íbúum gefinn kostur á að koma með eigin hugmyndir.
Saman mynduðu hugmyndir íbúa ásamt tillögum skipulagssérfræðinga drög að framtíðarsýn sem var rædd í sérstökum rýnihópafundum sem Gallup hélt utan um. Til rýnifundanna var boðað með slembiúrtaki íbúa Breiðholts sem tryggði jafna dreifingu þátttakenda eftir aldri og kyni. Niðurstöður rýnihópa voru síðan notaðar til að móta vinnutillögur að nýju hverfisskipulagi. Í þessu ferli var ýmsum hugmyndum skipulagssérfæðinga um nýtingu ákveðinna svæða hafnað í rýnihópum og því ekki teknar með í áframhaldandi tillögugerð.
Miðasjá
Allar hugmyndir hafa verið skráðar í stafrænan kortagrunn sem er birtur á heimasíðu hverfisskipulagsins og er aðgengilegur öllum sem vilja skoða hann.
Kynning á vinnutillögum sumarið 2020
Í ágúst 2020 var efnt til kynningar á vinnutillögum á hverfisskipulagi Breiðholts á vef hverfisskipulags, auk þess sem sett var upp kynning á tillögunum, bæði í Gerðubergi og Mjódd, þar sem starfsfólk
umhverfis- og skipulagssviðs var á svæðinu til að ræða hugmyndirnar og taka á móti athugasemdum íbúa. Samhliða þessu var efnt til gönguferða um Breiðholtið með íbúum þar sem einnig var tekið á móti ábendingum og tillögur ræddar. Þessum kafla samráðsferilsins lauk með opnum íbúafundi sem var streymt á netinu.
Ýmsar athugasemdir sem komu fram í þessu viðamikla og opna samráðsferli leiddu til þess að gerðar hafa verið breytingar á hverfisskipulagstillögunum. Ákveðið var m.a. að gera nýtt deiliskipulag fyrir Jórufell, brugðist var við ábendingum um útlit nýrra húsa við Arnarbakka og fallist var á tillögur um að halda stórbýlastæðum í Breiðholti nema við Kríuhóla, þar sem koma íbúðabyggingar, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Hér má lesa meira um aðferðarfræðina við samráðsferlið.