Tillaga

03

Tillaga Teiknistofunnar Traðar, Kanon arkitekta
og VSÓ ráðgjafar

Meginhugmyndin er að tengja saman eldri byggð í Vogunum við hina nýju Vogabyggð og Elliðaárvog. Áherslan er á fjölbreytt almenningsrými, vistvænar samgöngur og blandaða byggð í mannlegum mælikvarða án truflunar frá stofnbrautarumferð Sæbrautar, sem fer í stokk. Til verður nýtt almenningsrými, „Ramblan“, ofan á stokknum, sem sameinar gróið hverfi Voganna og nýja hverfið í Vogabyggð.

Fyrsta lota Borgarlínu þverar svæðið og ofan á stokknum við suðurenda hans verður ný kjarnastöð. Umhverfis hana verður bróðurpartur nýrrar byggðar sem gert er ráð fyrir að geti risið vegna lagningar Sæbrautar í stokk. Kjarnastöðin er við Súðarvog á mörkum frumbyggðar og nýbygginga í suðri. Suðurlandsbraut er framlengd inn í Vogabyggð til að hægt verði að aka úr Vogabyggð til vesturs.

Leiðarljós

Sæbraut í stokk við Vogahverfi og Vogabyggð gerir hverfin að samfelldri heild með fleiri góðum tengingum við Elliðaárvog og Elliðaárdal. Svæðið ofan á Sæbrautarstokki er einstakt, meðal annars vegna nálægðar við gróin íbúðahverfi og öflug atvinnusvæði og uppbyggingarmöguleika samkvæmt skipulagi. Þarna ríkir einstök veðursæld. Öruggt, fallegt aðgengi eykur á gæðin og er til þess fallið að þróa nútímalegt og lífvænlegt borgarumhverfi í samhljómi við hverfin í kring. Uppbygging íbúðar-, verslunar- og atvinnuhúsnæðis í tengslum við stokkinn og kjarnastöðina styrkir byggðina beggja vegna Sæbrautar og gerir hverfin tvö að samfelldri heild, með skemmtilegum götum, borgarrýmum og grænum svæðum.

Á yfirborði stokksins verður skipulag samgangna og hreyfanleiki fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur í forgrunni en í stokknum verður óheft flæði fyrir bílaumferð.

Eitt af meginmarkmiðum hugmyndarinnar er að hin nýja aðstaða og uppbygging lagi sig að svæðinu og fyrirliggjandi byggð, styrki það og endurheimti aðgengi almennings að margbreytilegu strandsvæðinu við Elliðaárvog. Borgarmyndin er styrkt og einkenni hvers hverfis fær notið sín. Nýtt öflugt bæjarhverfi með gróskumikilli starfsemi og þjónustu á grunni stefnumörkunar.

Myndband sem sýnir Sæbraut í stokk – Tillaga Teiknistofunnar Tröð, Kanon arkitekta og VSÓ ráðgjafar
Suðurlandsbraut tengist Dugguvogi yfir syðri hluta stokksins.

Útfærsla stokks

Þegar ekið er eftir Sæbraut til norðurs byrjar stokkurinn þegar komið er norður fyrir slaufugatnamótin í Ártúnsbrekku, áður en komið er að Dugguvogi. Stokkurinn endar þegar komið er norður fyrir gatnamót Skeiðarvogs og Kleppsmýrarvegar. Rampar verða fyrir bílaumferð til að komast niður í og upp úr stokknum inn á gatnamót Skeiðarvogs og Kleppsmýrarvegar. Suðurlandsbraut sveigir til norðurs og mun liggja yfir stokkinn og mun tengjast Súðarvogi í Vogabyggð.

Einkabílaumferð yfir stokkinn er við Skeiðarvog, framlengdan Barðavog, Snekkjuvog og Suðurlandsbraut. Gert ráð fyrir hjóla- og göngustígum ofan á stokknum. Lengd stokksins er um 750 m.

Ramblan, garður milli hverfa

Til suðurs verður Ramblan hluti af landi Steinahlíðar sem er helgað starfsemi leikskóla, matjurtagörðum og trjárækt.

Vogahverfi og Vogabyggð sameinast í eitt, heilsteypt hverfi, með nýju almenningsrými sem verður til ofan á stokknum. Almenningsrýmið hefur yfirbragð Römblu, um 600 metra að lengd og 40 metra breitt, fjölbreytileg útisvæði og veðursæl. Ramblan er miðpunktur hverfanna, virkjar mannlíf og er vettvangur margvíslegrar notkunar fyrir íbúa og gesti eftir árstíðum.
,,Ramblan” er garður sem kemur ofan á stokkinn milli hverfa

Yfirbragð byggðar

Gert er ráð fyrir að á reitnum verði blönduð byggð þriggja til fimm hæða íbúða- og atvinnuhúsnæðis. Miðað er við að íbúðir verið 1.000 til 1.300 auk atvinnuhúsnæðis í hlutföllunum 30% á móti 70% íbúðarbyggðar.

Suðurhluti svæðisins, austan og vestan gangamunna, hefur yfirbragð þéttrar, þriggja til fimm hæða randbyggðar, sem rís hæst að stofnbrautum. Þar er gert ráð fyrir blandaðri starfsemi atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Austast við bakka Elliðaár eru sýnd punkthús, þar yrðu einkum íbúðir. Núverandi byggingar við Knarrarvog víkja fyrir fimm hæða nýbyggingum.

Í öndvegi til norðurs við Skeiðarvog er kennileiti, bygging sem ætlunin er að hylji að mestu munna vegna rampa fyrir aðreinar og fráreinar gatnamótanna við Skeiðarvog og Kleppsmýrarveg. Byggingin muni einnig veita skjól fyrir ríkjandi norðanáttum á góðviðrisdögum.

Mannvirki eru staðsett þannig að þau myndi skjól frá veðri og hávaðamengun.