Tillaga

01

Tillaga Arkís, Landslags og Mannvits

Vogatorg er lykillinn að því að tengja Elliðaárdal og Laugardal með samfelldum grænum innviðum. Enn fremur er Vogatorg mikilvægur tengipunktur í samgöngukerfi borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins alls, enda tengjast þar samgönguásar sem liggja annars vegar frá austri til vesturs og hins vegar frá norðri til suðurs.

Þróun Vogatorgs er möguleg með tilkomu Sæbrautarstokks sem tengir ofangreind hverfi í samfellt byggðamynstur þar sem öruggar samgöngur vistvænna samgöngumáta eru í forgangi.

Byggðamynstur

Vogatorg er nýtt og fjölbreytt miðsvæði sem býður upp á verslun, þjónustu og atvinnuhúsnæði í bland við fjölbreyttar íbúðagerðir. Lega Borgarlínu fellur vel að þessari nýju, þéttu borgarbyggð, enda er Borgarlínan ein af lykilstefnum í þróun byggðamynstursins.

Almennt er gert ráð fyrir 2 til 5 hæða byggð sem sækir formtungumál og yfirbragð til þeirra hverfa sem umfaðma Vogatorg. Við sjálft Vogatorg er gert ráð fyrir nokkuð hærri kennileitisbyggingu sem sýnileg verður frá nálægum hverfum og þeim fjölförnu umferðaræðum sem eru í nánasta umhverfi. 

Byggðamynstur er nokkuð fjölbreytt, en lögð er áhersla á að ný byggð falli vel að fyrirliggjandi byggð. Vesturjaðar svæðisins einkennist af stakstæðum, smágerðum byggingum sem vísa til byggðamynsturs Vogahverfis. Til austurs er gert ráð fyrir stærri byggingum og er meiri áhersla á randbyggð á þeim hluta svæðisins, rétt eins og í skipulagi Vogabyggðar.

Byggingar eru almennt stærri og þéttleiki meiri við sjálft Vogatorg, í suðurenda svæðisins. Þar er jafnframt gert ráð fyrir að atvinnuhúsnæði myndi hljóðskerm gagnvart Sæbraut og Vesturlandsvegi. Að öðru leyti er að mestu gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði og blandaðri notkun á svæðinu.

Myndband sem sýnir Sæbraut í stokk – Tillaga Arkís, Landslags og Mannvits

Útfærsla stokks

Gegnumumferð er beint neðanjarðar um stokk meðan almenningssamgöngur og róleg innanhverfisumferð ferðast í sátt við aðra ferðamáta á yfirborði. Suðurendi stokks er áður en komið er að Dugguvogi en norðanmegin er stokkendinn áður en komið er að Skeiðarvogi, þar verða ljósastýrð gatnamót.

Suðurlandsbraut tengist Dugguvogi yfir suðurenda stokks og Snekkjuvogur verður framlengdur yfir stokk og tengdur Tranavogi. Umferð einkabíla verður leyfð á báðum stöðum.

Syðri gangamunni og Vogatorg.

Borgarlína á Vogatorgi

Mitt ofan á suðurenda Sæbrautarstokks er vegleg kjarnastöð Borgarlínu sem býður upp á fumlaus skipti milli ólíkra leiða Borgarlínu og strætisvagna. Vogatorg er kennileiti í borgarmyndinni. Veglegt, en þó hæfilega stórt, skjólsælt og sólríkt torg þar sem aðgengismál eru eins og best verður á kosið. Torgið er umlukið verslunar-, þjónustu- og veitingarýmum sem tryggja gott þjónustustig og stuðla að ánægjulegri, fljótlegri og skjólgóðri för farþega um svæðið. Torgið er þó jafnframt ákjósanlegur áfangastaður þeirra sem dvelja vilja lengur og njóta þess sem Vogatorg hefur upp á að bjóða auk þess að vera þróttmikill nýr hverfiskjarni bæði Vogabyggðar og Vogahverfis.

Biðstöðvar Borgarlínu eru yfirbyggðar með samfelldu skyggni og hljóðskermur sem samofinn er landslagsmótun suðurmunna Sæbrautarstokks tryggir að Vogatorg er bæði vistlegt og skjólsælt.

Komið að Vogatorgi úr suðri

Stígakerfi

Lögð verður áhersla á þétt net göngu- og hjólastíga innan hverfisins og þess gætt að tengja Vogatorg vel við aðliggjandi hverfi og stíga. Þá verður einnig lögð áhersla á góða samgönguhjólastíga í gegnum hverfið meðfram helstu samgönguásum og þess gætt að góð og örugg blöndun sé milli allra óvarinna vegfarenda.

Götutré, áningar- og dvalarstaðir og innviðir fyrir vistvænar samgöngur undirstrika þessar áherslur.

Græn svæði

Vogatorg mun tryggja samfellda græna tengingu milli Elliðaárdals og Laugardals. Göngu-, hlaupa og hjólaleiðir tengjast þar með áreynslulaust um stóran hluta borgarinnar. Torgið og aðliggjandi Borgarlínugötur verða með grænu og nútímalegu yfirbragði þar sem starfsemi og líf í aðliggjandi byggingum getur flætt út á torg og stéttir og stuðlað að blómlegu borgarlífi. 

Horft til suðurs eftir Sæbrautarstokki.
Ný byggð.