Uppbygging á og við vegstokk á Sæbraut við Vogahverfi

Hér er hægt að skoða tillögur fimm þverfaglegra hópa um hvernig hægt er að útfæra uppbyggingu á og við vegstokk á Sæbraut við Vogahverfi. Tillögurnar eru afrakstur
hugmyndaleitar sem Reykjavíkurborg auglýsti 2020.

Tillögurnar sýna fyrirkomulag og útfærslu uppbyggingar íbúða- og þjónustubyggðar ásamt tengingum vegna stokks yfir Sæbraut við Vogahverfi, milli Miklubrautar/Vesturlandsvegar og norður fyrir Skeiðarvog ásamt legu Borgarlínu, bæði meðfram Sæbraut og yfir Elliðavog frá Sævarhöfða að Suðurlandsbraut. Á svæðinu er gert ráð fyrir kjarnastöð Borgarlínu.

Reykjavíkurborg hefur heimild til að vinna með tillögurnar áfram, breyta þeim og/eða fela öðrum útfærslu þeirra. Hér er sem sagt kominn nokkurs konar hugmyndabanki að mögulegri útfærslu í næstu umferð við þróun þessa stóra verkefnis.

01

Horft til norðvesturs, suðurendi stokks. Vogatorg er fyrir miðri mynd.

Tillaga Arkís, Landslags og Mannvits

Vogatorg er lykillinn að því að tengja Elliðaárdal og Laugardal með samfelldum grænum innviðum. Enn fremur er Vogatorg mikilvægur tengipunktur í samgöngukerfi borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins alls, enda tengjast þar samgönguásar sem liggja annars vegar frá austri til vesturs og hins vegar frá norðri til suðurs.

Þróun Vogatorgs er möguleg með tilkomu Sæbrautarstokks sem tengir ofangreind hverfi í samfellt byggðamynstur þar sem öruggar samgöngur vistvænna samgöngumáta eru í forgangi.

Tillaga Yrki arkitekta, Dagný Land Design og Hnit verkfræðistofu

Ný byggð ofan á Sæbrautarstokk tengir saman hið rótgróna Vogahverfi við nýja hverfi Vogabyggðar. Stokkurinn skapar einnig nýja og sterkari tengingu Vogahverfis við Elliðaárnar og Elliðaárdal. Við þetta verður til samfelld byggð frá Laugardal að Elliðaárdal.

Nýjar byggingar á stokknum eru framlengdar frá lóðum austan við Sæbraut. Þannig brúa nýjar byggingar Vogabyggð við Vogahverfi.

02

Afstöðumynd Sæbrautarstokkur.

03

Tillaga Teiknistofunnar Traðar, Kanon arkitekta og VSÓ ráðgjafar

Meginhugmyndin er að tengja saman eldri byggð í Vogunum við hina nýju Vogabyggð og Elliðaárvog. Áherslan er á fjölbreytt almenningsrými, vistvænar samgöngur og blandaða byggð í mannlegum mælikvarða án truflunar frá stofnbrautarumferð Sæbrautar, sem fer í stokk. Til verður nýtt almenningsrými, „Ramblan“, ofan á stokknum, sem sameinar gróið hverfi Voganna og nýja hverfið í Vogabyggð.

Fyrsta lota Borgarlínu þverar svæðið og ofan á stokknum við suðurenda hans verður ný kjarnastöð.

Tillaga T.Ark, Verkís, Studio Egret West  og Integrated Transport Planning+

Ofan á stokknum yfir Sæbraut verður til ílangt svæði milli Voga og Vogabyggðar og er í tillögunni lögð áhersla á að það verði nýtt til að mynda tengsl milli hverfanna. Það er meðal annars gert með því að byggja upp garð, Langagarð, meðfram vesturhlið húsa við Dugguvog.

Fyrirhugað er að garðurinn þjóni hverfunum beggja vegna hans og sérstök áhersla er lögð á net göngu- og hjólaleiða sem tengjast hverfunum, útivistarsvæðum og náttúru.

04

Tengsl milli hverfanna verða meðal annars um Langagarð, sem kemur meðfram vesturhlið húsa við Dugguvog.

05

Yfirlitsmynd horft úr austri. Vogatorg er ofan á syðri enda á stokki.

Tillaga Ask arkitekta, Eflu og Gagarín

Vogarnir eru í hugum okkar gróið hverfi. Vogabyggðin sem nú rís er viðbót við hina grónu Voga og ný uppbygging við Sæbraut verður til þess að Vogarnir verða með heilsteyptari og fjölbreyttari hverfum borgarinnar. Vogatorg verður ein af mikilvægari skiptistöðvum Borgarlínu og er áfangastaður í sjálfu sér.

Þrátt fyrir þétta borgarbyggð eru sterk tengsl við Elliðaárnar og dalinn. Hér er staður fyrir menningarstarfsemi, veitingastaði, afþreyingu og útivist.