Tillaga
04

Tillaga T.Ark, Verkís, Studio Egret West
og Integrated Transport Planning+

Við leggjum til að umferðarkerfið verði þriggja hæða. Neðst Miklabraut, þá Bústaðavegur undir yfirborði og á yfirborði verður Borgarlínan. Auk Miklubrautar í stokk verður því Bústaðavegur tengdur Snorrabraut í stokki og að- og afreinar sömuleiðis undir hinu nýja yfirborði. 

Þannig nást bæði þau markmið að opna svæðið fyrir nýrri uppbyggingu og flæði gangandi, hjólandi og Borgarlínu og tryggja umferðarflæði til og frá svæðinu.

Miklabraut, yfirlitsmynd.

Hugmyndin

Tillaga okkar byggir á að öll umferð sem nú fer um reitinn en á ekki leið inn í hverfin verði undir yfirborðinu. Með því að færa þessa gjá undir yfirborðið skapast tækifæri til að móta nýtt landslag sem tengir hverfin saman og myndar þannig eina heild.

Þegar gegnumakstur og umferð til og frá Landspítala hefur verið færð frá hverfisumferð skapast enn meiri möguleikar á að tengja hverfin saman og tryggja öruggar leiðir fyrir hjólandi og gangandi. Í stað þungrar umferðar á Miklubraut er nú landslag og byggð sem fellur að umhverfinu beggja vegna hennar. Svæðið ofanjarðar verður heilsteypt.

Það verður til nýtt hverfi sem einkennist af þorpsbrag, rólegri umferð og lífi milli húsa sem dregur hverfin nær hvoru öðru. Dýrmætt tækifæri skapast fyrir mannlíf og uppbyggingu á sama tíma og mikilvægum umferðaræðum og tengingum er viðhaldið í stokkum.

Útfærsla á stokki

Við leggjum til að umferðarkerfið verði þriggja hæða. Neðst Miklabraut, þá Bústaðavegur undir yfirborði og á yfirborði verður Borgarlínan. Auk Miklubrautar í stokk verður því Bústaðavegur tengdur Snorrabraut í stokki og að- og afreinar sömuleiðis.
Myndband sem sýnir Miklubraut í stokk – Tillaga T.Ark, Verkís, Studio Egret West og Integrated Transport Planning+

Að vestanverðu hefst lækkun Miklubrautar móts við núverandi göngubrú.
Að austan hefst lækkun Miklubrautar nálægt gatnamótum við Lönguhlíð þannig að auðvelt aðgengi frá Hlíðum að Klambratúni er á loki stokks. Tvær akreinar verða í hvora átt. Planlega stokksins mun að miklu leyti fylgja núverandi legu Miklubrautar en þó með mýkri boga móts við Rauðarárstíg og því færist legan til suðurs að hluta. Þurfa því hús við Miklubraut 18-20 að víkja.

Að sunnanverðu lækkar Bústaðavegur við Skógarhlíð 8. Að vestanverðu hefst lækkun Bústaðavegar móts við Snorrabraut 81 og gatnamót við Eiríksgötu haldast opin. Í plani mun Bústaðavegur fylgja núverandi legu. Ein akrein verður í hvora átt að Snorrabraut en að- og fráreinar verða á sérakreinum .

Tengingar milli Bústaðavegar og Miklubrautar verða eftirfarandi: Úr suðri af Bústaðavegi og til vesturs á Miklubraut verður tengingin sambærileg við núverandi rampa. Rampinn mun verða á sama stað en liggja dýpra og undir þaki. Af Miklubraut úr vestri að Bústaðavegi til suðurs verður rampi í boga undir yfirborði. Ekki verða aðrar tengingar milli Bústaðavegar og Miklubrautar.

Yfirborð

Borgarlína/strætó mun aka milli suðurs og norðurs í sérrými frá Arnarhlíð að Snorrabraut.

Á Snorrabraut, á kaflanum milli Burknagötu og Eiríksgötu, verður umferðin talsvert ólík því sem er í dag. Í miðju götunnar verður ein akrein í hvora átt og liggja akreinarnar niður í Bústaðavegsstokk. Beggja vegna við verða götur í núverandi hæð með almennri umferð og Borgarlínu/strætó í bland. Almenn umferð fer í vestur að Burknagötu en ekki eru tengingar fyrir almenna umferð til austurs að Miklubraut, sú gata er einungis fyrir Borgarlínu/strætó.

Við gatnamót Snorrabrautar og Burknagötu hefur Borgarlínan/strætó möguleika á að aka inn á Snorrabraut, Burknagötu/biðstöð og ofan á stokk inn á/af Miklubraut til austurs.

Skógarhlíð verður framlengd að Gunnarsbraut auk þess sem af henni verða tengingar inn að nýjum byggingum vestan hennar. Allar þessar tengingar eru hugsaðar sem deiligötur þar sem hjólandi, gangandi og akandi deila rýminu.

Byggðamynstur

Byggðamynstrið miðast við að þróast frá uppbrotinni randbyggð við Skógarhlíðina, kallast jafnframt á við skala Eskihlíðablokkanna og færast yfir í 2-3 hæða fjölbýlishúsin í Norðurmýrinni, með stiglækkun húshæða þar á milli. Við Skógarhlíðina verður íbúðarhúsnæði með fjölbreyttum inngörðum og uppbroti bygginga sem undirstrika sjónræna upplifun og göngutengingar um svæðið.

Nýja hverfið einkennist af þorpsbrag, rólegri umferð og lífi milli húsa.

Miklubrautarstöð

Við suðurenda Snorrabrautar mætast margar af leiðum Borgarlínunnar og á þessum skurðpunkti veljum við að setja Miklubrautarstöð. Stöðin hefur lykilstaðsetningu, á svæði þar sem miðborg og íbúðarhverfi mætast og kjörið tækifæri skapast til að auka líf og leik við jaðar miðborgarinnar.

Borgarlína keyrir í gegnum yfirbyggða stöðina og skipting milli leiða verður undir þaki. Akstursleiðin liggur austur-vestur þannig að skjól myndast fyrir köldum vindum af hafi. Stöðin verður ekki einungis miðstöð almenningssamgangna, heldur er þar einnig gert ráð fyrir þjónustukjarna með verslunum, kaffihúsum og annarri starfsemi.

Nýr kjarni verður til við hverfistorg sem er rammað inn af fjölbreyttum byggingum og Borgarlínustöðinni. Lífleg borgarrými og iðandi mannlíf einkenna svæðið.

Miklatorg

Sunnan við Borgarlínustöðina og í framhaldi af henni er nýtt torg. Umhverfis torgið eru 2-3 hæða hús með verslunum á neðri hæðum og starfsemi eða íbúðum á efri hæðum. Torgið verður helsti samverustaðurinn sem sameinar þjónustu, verslun og Borgarlínustöð.

Við sjáum fyrir okkur torg með afmörkuðum gróðursvæðum, en þó með hellulögðu yfirborði og að mestu á forsendum deilirýmis, þar sem Borgarlínan keyrir yfir torgið inn að stöðinni og hvort tveggja renna saman í eitt, hliðstætt t.d. Gustav Adolfs torginu í Gautaborg, eða Nörreport-svæðinu í Kaupmannahöfn. Á þann hátt flæðir starfsemi torgsins saman með sjónlínum suður að Nauthólsvegi og norður Snorrabraut.

Miklatorg verður samverustaðurinn sem sameinar þjónustu, verslun og Borgarlínustöð.

Grænn tengiás

Sunnan við húsin sem afmarka suðurhlið torgsins er náttúrusvæði; garðurinn Hvammur. Þar er áhersla lögð á afþreyingu og umferð sem tengir saman leiðir að og milli útivistarsvæða; Klambratún, Öskjuhlíð niður í Nauthólsvík, Valssvæðið og Vatnsmýri. Sýn okkar er að þessi hvammur brúi og tengi hverfin og önnur græn svæði og tryggi öruggt aðgengi úr hverfunum að Valssvæðinu og öðrum útivistarsvæðum.

Austast á svæðinu sameinast gönguleiðin og torgið ásamt deiligötu sem tengir Skógarhlíð við Gunnarsbraut. Þannig er aðkoma þjónustubíla og hreyfihamlaðra að torginu ásamt beinum aksturstengingum á milli hverfanna tryggð, en þó á forsendum deiligatna á gönguhraða.