Tillaga
02

Tillaga Yrki arkitekta, Dagný Land
Design og Hnit verkfræðistofu

Ný byggð ofan á stokknum tengir saman íbúabyggð í Hlíðum við Norðurmýri og Hlíðarenda, bindur saman hverfin og gerir ráð fyrir nýjum hverfiskjarna – kjarnastöð Borgarlínu. Kjarnastöðin býður upp á þjónustu fyrir íbúa og skapar nýjan segul á svæðið.

Stóru útivistarsvæðin Klambratún og Öskjuhlíð eru tengd saman gegnum Hlíðarenda með minni almenningsgörðum og torgum þar sem stígur leiðir fólk áfram. Eitt meginmarkmið er að ný byggð falli sem best að nærliggjandi hverfum og tengi þau saman á rökréttan hátt. Þannig tekur nýja byggðin mið af aðliggjandi hverfum svo hæðir og umfang húsa falli vel að núverandi byggð

Herdísartorg við kjarnastöð Borgarlínunnar

Hugmyndafræðin

Hugmyndin er að skapa hágæða byggð sem tengir saman aðliggjandi hverfi og skapar sameiginlegan kjarna fyrir þau. Ný byggð er saumuð inn í núverandi hverfi og byggð við Landspítala, Norðurmýri, Hlíðarenda og Skógarhlíð. Þessi nýja byggð býður upp á þjónustu sem bæði nýir og núverandi íbúar á svæðinu njóta góðs af. Með auknum íbúafjölda og betri tengingum verða til forsendur fyrir rekstri.

Með auknum íbúafjölda og betri tengingum verða til forsendur fyrir rekstri

Myndband sem sýnir Miklubraut í stokk – Tillaga Yrki arkitekta, Dagný Land Design og Hnit verkfræðistofu
Hægt er að bjóða upp á hágæða byggð með því að miða skipulagi og hönnun þannig að grunnþjónusta sem svarar daglegum þörfum er innan 10-20 mínútna göngufjarlægðar frá heimilinu.

Útfærsla á stokki

Gert er ráð fyrir bílastæðahúsi á austurenda lóðar Landspítalans, undir kjarnastöð Borgarlínu. Hægt verður að aka beint úr stokknum inn í bílastæðahúsið og út aftur.

Meginumferð Miklabrautar, í austur- og vesturátt, fer í stokk undir Snorrabraut. Snorrabraut er síðan framlengd ofan á stokknum yfir á Arnarhlíð og Nauthólsveg.

Umferð í vestur eftir Bústaðavegi fer ofan á stokkinn og yfir Miklubraut þar sem umferðin tengist síðan vesturstraumi brautarinnar. Umferð um Bústaðaveg í austurátt fer í stokk með Miklubraut undir Snorrabraut og síðan í sérakrein sem tengist inn á núverandi legu Bústaðavegar við Flugvallarveg.

Ný byggð á stokknum

Ný byggð ofan á stokknum tengir saman íbúabyggð í Hlíðum við Norðurmýri og Hlíðarenda, bindur saman hverfin og gerir ráð fyrir nýjum hverfiskjarna – kjarnastöð Borgarlínu. Kjarnastöðin býður upp á þjónustu fyrir íbúa og skapar nýjan segul á svæðið.

Stóru útivistarsvæðin Klambratún og Öskjuhlíð eru tengd saman gegnum Hlíðarenda með minni almenningsgörðum og torgum þar sem stígur leiðir fólk áfram.
Skipting byggðar
  • Íbúðir
  • Þjónusta
  • Nýjar íbúðir
  • Kjarnastöð

Yfirbragð byggðar

Eitt meginmarkmið er að ný byggð falli sem best að nærliggjandi hverfum og tengi þau saman á rökréttan hátt. Þannig tekur nýja byggðin mið af aðliggjandi hverfum svo hæðir og umfang húsa falli vel að núverandi byggð. Byggingarnar móta síðan áhugavert samspil inngarða, leiksvæða og torga sem eru tengd saman með stígum og götum.

Garðar og almenningsrými

Áhersla er lögð á að nota rýmin milli húsa undir sameiginlega garða fyrir íbúa, leiksvæði og almenningstorg fyrir íbúa og gesti. Staðsetning húsa og uppröðun byggir á því að skapa spennandi, ólík og sólrík rými milli húsanna.

Nýrri byggð fylgir líka minni torg og garðar (t.d. róló) sem nýtist íbúum í nágrenninu.

Sameiginlegir inngarðar, leiksvæði og torg eru tengd saman svo stígar leiði fólk áfram milli ólíkra almenningsrýma. Allt frá minni dvalarrýmum við íbúðir að stóru útivistarperlum hverfisins; Klambratúni, Öskjuhlíð og Nauthólsvík.

Nýr hverfiskjarni

Kjarnastöðvar Borgarlínu eru samgöngumiðstöðar þar sem gera má ráð fyrir mikilli umferð gangandi vegfarenda.

Með tilkomu Borgarlínu í hverfið verður til enn sterkari tenging fyrir íbúa við aðra hluta borgarinnar og höfuðborgarsvæðið.

Kjarnastöðvar Borgarlínu eru samgöngumiðstöðar þar sem gera má ráð fyrir mikilli umferð gangandi vegfarenda. Stöðvarnar eru mikilvægir tengipunktar í leiðakerfi Strætó og Borgarlínu. Slíkt skapar nýjar forsendur fyrir verslanir og þjónustu sem reiða sig á mikla umferð fólks. Þannig verður til hvati til að reka verslun og þjónustu í og við kjarnastöðvar.

Því er lagt upp með að staðsetja meirihluta verslana og þjónustu í og við kjarnastöðina þannig að nýr hverfiskjarni verður til.

Kjarnastöðin

Kjarnastöð Borgarlínu er staðsett á austurenda Landspítalalóðarinnar þar sem í dag er gert ráð fyrir bílastæðahúsi. Gera má ráð fyrir mikilli umferð fólks til og frá spítalanum þar sem hann er einn stærsti vinnustaður landsins og þangað leitar fjöldi fólks þjónustu á hverjum degi. Það er því mikilvægt að öflugar almenningssamgöngur tengist spítalanum.

Stöðin stendur við byggingu með verslunum og þjónustu á jarðhæð en skrifstofum spítalans þar fyrir ofan. Undir kjarnastöðinni er bílakjallari svo að stöðin verður meginumferðarpunktur á svæðinu fyrir Landspítalann, starfsfólk, gesti og íbúa, óháð ferðamáta.

Ný samgöngumiðstöð, BSÍ

Með tilfærslu á BSÍ losnar landrými þar sem starfsemi þess er í dag. Þar verður hægt að stækka starfsemi Landspítala enn frekar eftir þörfum.

Við kjarnastöð Borgarlínu er gert ráð fyrir nýrri samgöngumiðstöð, BSÍ, þaðan sem ganga rútur til og frá Keflavíkurflugvelli (flugrútan) og aðrar áætlunarferðir út fyrir höfuðborgarsvæðið.

Gert er ráð fyrir biðsvæði undir rútur og langferðabíla á jarðhæð byggingar norðan við kjarnastöðina. Jarðhæðin er opin út á Burknagötu, eins konar opið bílastæðahús, eingöngu fyrir rútur og langferðabíla. Ofan á biðsvæðinu er síðan skrifstofubygging Landspítalans.

Þarna verður allsherjar samgöngumiðstöð með miklum fjölda farþega vegna nálægðar við Landspítalann, kjarnastöð Borgarlínu, BSÍ og þéttbyggð hverfi miðborgarinnar.

Kjarnastöð Borgarlínu í samfloti við BSÍ auðveldar allar tengingar milli rútuferða frá Keflavíkurflugvelli og skipulagðra langferða utan af landi við samgöngukerfi Strætó og Borgarlínu. Þannig verður mögulegt að heimsækja borgina, eða skreppa út úr borginni, án þess að þurfa á bíl að halda.

Herdísartorg

Við kjarnastöð Borgarlínu er Herdísartorg þar sem aðliggjandi kaffihús og veitingastaðir geta opnað starfsemi sína út á torgið. Herdís Bersadóttir var fyrsta eiginkona Snorra Sturlusonar sem Snorrabraut er kennd við. Torgið er einkar sólríkt þar sem það opnar sig til suðurs og vesturs. Þá mynda aðliggjandi hús gott skjól fyrir norðanáttum.

Snorrabraut, verslunargata, horft til norðurs.

Verslunargatan Snorrabraut

Framlenging Snorrabrautar verður lífæð nýju byggðarinnar með verslunum, þjónustu og íbúðum.

Kjarnastöðin liggur við götuna og sérakreinar Borgarlínu ganga eftir miðri götunni ásamt bílaakreinum. Hjólastígar liggja eftir allri Snorrabrautinni sem tengir strandstíginn við Sæbraut við Nauthólsvík og Fossvog.

Gangandi og hjólandi
vegfarendur

Eins og komið hefur fram er tillagan byggð fyrst á forsendum gangandi vegfarenda. Gangandi fara hægar yfir og hafa því tækifæri til að upplifa og skynja umhverfi sitt betur. Þannig er vel gætt að þéttu neti gönguleiða eftir götum og stígum milli almenningsgarða svo að svæðið bjóði bæði upp á skilvirkar gönguleiðir til að ferðast eftir en líka góða og fjölbreytta upplifun ef löngun verður til að taka lengri leiðina heim.

Afstöðumynd Miklubrautarstokkur
Gert er ráð fyrir í tillögunni að hjólastígar fylgi legu Borgarlínu. Þannig verða til stofnstígar meðfram efri Miklubraut (ofan á stokki), Burknagötu, Snorrabraut og Nauthólsvegi.

Hjólastígar eftir Snorrabraut frá Sæbraut að Nauthólsvík tengja strandstíginn við Sæbraut við Nauthólsvík og Fossvog. Þaðan verður síðan hægt að hjóla yfir á Kársnes um nýja Fossvogsbrú.