Tillaga

01

Tillaga Arkís, Landslags og Mannvits

Miklatorg er nýtt og fjölbreytt miðsvæði sem býður upp á verslun, þjónustu og atvinnuhúsnæði í bland við fjölbreyttar íbúðagerðir. Lega Borgarlínu fellur vel að þessari nýju, þéttu borgarbyggð, enda er Borgarlínan ein af lykilstefnum í þróun byggðamynstursins.

Gert er ráð fyrir 3-5 hæða byggð sem sækir formtungumál og yfirbragð til þeirra rótgrónu hverfa sem umfaðma Miklatorg. Randbyggðarmynstur er því mest áberandi við suður- og vesturhluta svæðisins, næst Hlíðarenda, en stakstæðar byggingar verða algengari eftir því sem nær dregur Hlíðum og Norðurmýri.

Horft yfir Miklatorg úr vestri.

Púslið sem vantaði

Svæðið sunnan Norðurmýrar á sér margar birtingarmyndir í stuttri rúmlega 100 ára sögu þéttbýlismyndunar í Reykjavík. Nú er þar gjá með þungum straumi umferðar sem sker byggðina  í sundur og torveldar aðgengi að grænum svæðum.

Miklatorg er púslið sem vantaði til að tengja byggðamynstur Norðurmýrar, Hlíðarenda, Hlíða og Þingholta/Nýs Landspítala.

Myndband sem sýnir Miklubraut í stokk – Tillaga Arkís, Landslags og Mannvits

Miklatorg verður nýr hverfiskjarni sem tengir saman Norðurmýri, Hlíðarenda, Hlíðar og Þingholt, meðal annars um lóð Nýs Landspítala. Enn fremur er Miklatorg mikilvægur tengipunktur þessara hverfa við önnur hverfi borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins alls.

Þróun þessa nýja miðsvæðis er möguleg með tilkomu Miklubrautarstokks sem tengir ofangreind hverfi í samfellt byggðamynstur þar sem öruggar og aðlaðandi leiðir vistvænna samgöngumáta eru í forgangi. Miklatorg er púslið sem vantaði til að tengja byggðamynstur Norðurmýrar, Hlíðarenda, Hlíða og Þingholta/Nýs Landspítala.

Útfærsla á stokki

Upphaf Arnarhlíðar verður sunnan við gatnamót Bústaðavegar, Snorrabrautar og Arnarhlíðar.

Stokkurinn er á einni hæð, liggur þar sem Miklabraut/Hringbraut liggur í dag. Tvær akreinar í hvora átt. Snorrabraut liggur á yfirborði ofan á stokknum (þvert á stokkinn) og tengist Bústaðavegi á gatnamótum á yfirborði. Snorrabraut er fjórar akreinar, tvær akreinar fyrir Borgarlínu og tvær fyrir bílaumferð. Snorrabraut tengist Bústaðavegi og Arnarhlíð á gatnamótum á yfirborði norðan við Hlíðarenda.

Bústaðavegur liggur norðan við Hlíðarenda og tengist Snorrabraut og Arnarhlíð á ljósastýrðum gatnamótum. Bústaðavegur tengist Hringbraut um að- og fráreinar sem liggja við hliðar gangamunna til vesturs.

Miklubrautarstokkur

Í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir að Miklabraut fari í stokk. Gegnumumferð í gegnum svæðið er þannig beint neðanjarðar meðan almenningssamgöngur og róleg innanhverfisumferð ferðast í sátt við aðra ferðamáta á yfirborði. Þetta mun bæta loftgæði og draga úr hávaðamengun, bæði innan hverfis og í nærliggjandi hverfum. Með þessu verður flæði fólks á yfirborði betra sem stuðlar að notkun vistvænni ferðamáta og bætir bæjarbrag.

Byggðamynstur

Miklatorg er nýtt og fjölbreytt miðsvæði sem býður upp á verslun, þjónustu og atvinnuhúsnæði í bland við fjölbreyttar íbúðagerðir. Lega Borgarlínu fellur vel að þessari nýju, þéttu borgarbyggð, enda er Borgarlínan ein af lykilstefnum í þróun byggðamynstursins.

Gert er ráð fyrir 3-5 hæða byggð sem sækir formtungumál og yfirbragð til þeirra rótgrónu hverfa sem umfaðma Miklatorg. Randbyggðarmynstur er því mest áberandi við suður- og vesturhluta svæðisins, næst Hlíðarenda, en stakstæðar byggingar verða algengari eftir því sem nær dregur Hlíðum og Norðurmýri. Þetta mynstur helst í hendur við notkun, enda er gert ráð fyrir að atvinnuhúsnæði geti verið staðsett við suður- og vesturjaðar svæðisins. Íbúðabyggð er þar fyrir innan í skjóli frá umferðarhávaða frá Bústaðavegi og gangamuna Miklubrautarstokks til vesturs. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð næst sjálfu Miklatorgi, við gatnamót Snorrabrautar og Hringbrautar.

Mótun byggðarmynsturs tekur mið af skjólmyndun, sólargangi og möguleikum til mótunar vistlegra garða og almenningsrýma þar sem íbúar sem og aðrir borgarbúar geta notið útiveru í heilnæmu, fallegu og öruggu umhverfi. 

Gangamunni til vesturs.

Borgarlína

Á Miklatorgi verður hnútpunktur Borgarlínu sem gerir það að verkum að ferðum með almenningssamgöngum til og frá hverfinu verður tryggð hröð leið óháð umferðarþunga. Til vesturs verður Borgarlínuleið alla leið að Hörpu og Háskóla Íslands í sérrými og til austurs verður Borgarlínuleið til Grafarvogs og Mosfellsbæjar.

Til suðurs verður Borgarlínuleið yfir Kársnesbrú til Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Þetta mun gera Miklatorg að líflegum hnútpunkti þar sem fólk mun grípa tækifærið í daglegum ferðum sínum og sinna erindum, versla eða hittast.

Stígakerfi

Lögð verður áhersla á þétt net göngu- og hjólastíga innan hverfisins og þess gætt að tengja Miklatorg vel við aðliggjandi hverfi og stíga. Þá verður einnig lögð áhersla á góða samgönguhjólastíga í gegnum hverfið meðfram helstu samgönguásum og þess gætt að góð og örugg blöndun sé milli allra óvarinna vegfarenda.
Horft til vesturs yfir Miklatorg

Torgið er þó jafnframt ákjósanlegur áfangastaður þeirra sem dvelja vilja lengur og njóta þess sem Miklatorg hefur upp á að bjóða. Mannlífsmiðstöð sem Hlíðahverfi og Norðurmýri hefur skort.

Torgið og kjarnastöðin

Við gatnamót Snorrabrautar og Hringbrautar er vegleg kjarnastöð Borgarlínu sem býður upp á fumlaus skipti milli ólíkra leiða Borgarlínu og strætisvagna. Sjálft Miklatorg er skjólsælt og sólríkt torg þar sem aðgengismál eru eins og best verður á kosið.

Torgið er umlukið verslunar-, þjónustu- og veitingarýmum sem tryggja gott þjónustustig og stuðla að ánægjulegri, fljótlegri og skjólgóðri för farþega um svæðið.

 

Græn svæði og vistkerfi

Miklatorg er eins konar grænn hlemmur yfir umferðarþunga stofnbraut og myndar samfellda græna tengingu milli Vatnsmýrar, Klambratúns og Öskjuhlíðar. Þar með aukast til muna fjölbreyttir möguleikar til útivistar í þessum hluta borgarinnar. Göngu-, hlaupa- og hjólaleiðir tengjast áreynslulaust auk þess sem börn og aðrir iðkendur geta með öruggum hætti komist til og frá íþróttasvæðinu að Hlíðarenda. Lögð er áhersla á grænan ás sem tengir saman Klambratún og íþróttasvæðið á Hlíðarenda með skýrum hætti.

Græni ásinn hefur sökum landhalla mikilvægu hlutverki að gegna við meðhöndlun ofanvatns með blágrænum lausnum. Við ásinn verða áningar- og upplifunarstaðir og bent er á þann möguleika að gefa fyrrum Hagkaupsbyggingu hlutverk við ásinn í endurbyggðri og betrumbættri mynd með t.d. kaffihúsi og menningar- og félagsstarfsemi.

Þróunarmöguleikar

Miklatorg tengir saman rótgróin hverfi og hverfi sem eru í uppbyggingu. Tilkoma Miklatorgs og Miklubrautarstokks skapar aðliggjandi hverfum rólegra og vistlegra umhverfi. Umhverfisgæði aukast til muna með því að fjarlægja umferðarþunga Miklubrautar. Þjónusta innan hverfis eykst og öll umgjörð verður öruggari og vistlegri. Gera má ráð fyrir að þetta geti aukið verðmæti eigna á svæðinu og stuðlað þar með að bættu viðhaldi og umhirðu.

Enn fremur eykur tilkoma Miklatorgs möguleika til þróunar á jaðarsvæðum aðliggjandi hverfa. Til að mynda sýnir tillagan fram á möguleika til bættrar nýtingar lóða milli Bústaðavegar og Skógarhlíðar sem og á jaðarsvæði Nýs Landspítala við Snorrabraut.

      Skipting byggðar
  • Blandað
  • Atvinna
  • Íbúðir