Vistvænni
samgöngur

Í hverfisskipulaginu verða skilgreindar helstu samgöngutengingar milli íbúðahverfanna sem eru í borgarhlutanum, en þau eru Tún, Teigar, Lækir, Laugarás, Sund, Heimar og Vogar, ásamt tengingum þeirra við aðliggjandi borgarhluta.

Miklar umferðargötur skera hluta íbúðahverfanna og eru umhverfis þau. Í þessu samráðsferli með íbúum og hagsmunaaðilum verður lögð áhersla á að útfæra leiðir til að bæta tengingar milli hverfishluta og auka öryggi fyrir alla samgöngumáta.
Leiðarljós hverfisskipulagsins er að finna lausnir sem auka lífsgæði íbúanna og draga úr umferðarmengun og hávaða. Styrking nærþjónustu í hverfum borgarinnar, í þægilegu göngufæri fyrir flesta íbúa, minnkar álagið á gatnakerfið og stuðlar að heilsueflingu.

Þessar áherslur eru í takt við stefnu Reykjavíkurborgar og samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að styrkja almenningssamgöngur og göngu- og hjólainnviði til að gera íbúum kleift að nota vistvæna samgöngumáta.

Styrking nærþjónustu í hverfum borgarinnar, í þægilegu göngufæri fyrir flesta íbúa, minnkar álag á gatnakerfið og stuðlar samhliða að heilsueflingu.

Leiðarval fyrir Sundabraut

Myndin sýnir mögulegar útfærslum á Sundabraut. Lega Sundabrúar er sýnd með appelsínugulri línu liggur en Sundagöng með bláu línunni.
Mynd: Vegagerðin

Eitt af stóru verkefnum framundan er að ákveða legu og útfærslu Sundabrautar.
Sundagöng og Sundabrú eru megin valkostirnir.
Umhverfismatið og samráð við íbúa og hagsmunaaðila beggja vegna Kleppsvíkur verður lykilatriði við endanlegt leiðarval á Sundabraut.
Skoða þarf vel alla allir umhverfisþætti og mögulegar mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa af umferð fyrir nærliggjandi hverfi.
Hagsmunir almenningssamgangna, gangandi og hjólandi eru grundvallatatriði í þeirri útfærslu sem mun verða fyrir valinu. Þá þarf að tryggja greiða hafnarstarfsemi á svæðinu.

Almenningssamgöngur

Áhersla er lögð á gott almenningssamgöngukerfi. Lykilstöðvar og leiðir almenningssamgangna verða sýndar á stefnukorti hverfisskipulags um samgöngur fyrir borgarhlutann sem er nú í vinnslu. Athugið að útfærsla leiðakerfis Strætó fellur þó ekki undir verkefni hverfisskipulagsins.
Til framtíðar munu Strætó og Borgarlínan mynda heildstætt leiðanet almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Sjá nánar hér.
Gert er ráð fyrir að ein af kjarnastöðvum Borgarlínu verði við nýtt Vogatorg við suðururenda Sæbrautarstokksins. Kjarnastöð Borgarlínu við Vogatorg verður lykiltengipunktur í samgöngukerfi borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins alls, enda tengjast þar samgönguásar sem liggja annars vegar frá austri til vesturs og hins vegar frá norðri til suðurs.

Til framtíðar munu Strætó og Borgarlínan mynda heildstætt leiðanet almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Sæbraut í stokk

Myndband af tillögu Arkís, Landslags og Mannvits

Aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir að Sæbraut verði sett í stokk við Vogahverfi. Stokkurinn mun skapa sterka tengingu við Elliðaárnar og mynda samfelld byggð frá Laugardal að Elliðaárdal. 

Lagðar hafa verið fram tillögur fimm þverfaglegra hópa um hvernig hægt er að útfæra uppbyggingu á og við stokkinn. Hér er hægt að skoða tillögurnar.

Tillögurnar sýna fyrirkomulag og útfærslu uppbyggingar íbúða- og þjónustubyggðar á og við stokkinn ásamt tengingum yfir Sæbraut við Vogahverfi, milli Miklubrautar/Vesturlandsvegar og norður fyrir Skeiðarvog. Þær sýna líka legu Borgarlínu, bæði meðfram Sæbraut og yfir Elliðavog frá Sævarhöfða að Suðurlandsbraut.

Vogatorg er nýtt og fjölbreytt miðsvæði sem býður upp á verslun, þjónustu og atvinnuhúsnæði í bland við fjölbreyttar íbúðagerðir. Myndin sýnir tillögu Arkís, Landslags og Mannvits.

Borgargötur eru lykilgötur

Borgargötur
Við borgargötur er iðandi mannlíf og fólk ferðast gangandi, hjólandi, í bílum og með almenningssamgöngum.
Mynd: DLD – Dagný Land Design ehf

Hverfisskipulag gerir ráð fyrir að helstu götur borgarhlutans verði útfærðar með áherslu á vistvæna samgöngumáta. Þessi umbreyting helstu umferðargatna í svokallaðar borgargötur mun gerbreyta ásýnd hverfanna sem liggja að Laugardal. Gatnahönnunin mun draga úr umferðarhraða, auka umferðaröryggi, minnka umferðarhávaða og mengun og auka þannig lífsgæði íbúa en aðstæður geta verið mjög ólíkar á milli hverfa.

Við hönnunina verður tekið mið af samhengi götu og aðliggjandi byggðar og hlutverki gatna sem almenningsrýma. Áhersla er lögð á opin svæði, hverfisgarða og hverfistorg. Þar verða til staðir þar sem fólk hittist. Aukinn trjágróður í hverfinu mun skapa skjól og hafa jákvæð áhrif.

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi skulu borgargötur njóta forgangs þegar kemur að endurhönnun og fegrun. Við þær er oft ýmiss konar verslun og þjónusta auk annarrar stoðþjónustu, til dæmis grenndarstöðvar og rafhleðslustöðvar og stöðvar fyrir deilibíla og deilihjól.

 

Gatnahönnunin mun draga úr umferðarhraða, auka umferðaröryggi, minnka umferðarhávaða og mengun

Í borgarhlutanum eru samkvæmt aðalskipulagi þessar borgargötur.
Í vinnu við hverfisskipulag verður skoðað hvort eigi að fjölga borgargötum.

Borgartún

Sundlaugavegur
Áherslusvæði milli Reykjavegar og Laugarásvegar.

Reykjavegur

Laugalækur

Langholtsvegur
Áherslusvæði milli Laugarásvegar og Skeiðarvogar.

Álfheimar
Áherslusvæði við verslunarkjarna við Grímsbæ og Álfheima 2-6.

Skeiðarvogur
Áherslusvæði við verslunarkjarna og grunn- og framhaldsskóla.

Tengingar milli hverfa

Markmið hverfisskipulags er að draga úr neikvæðum áhrifum stofnbrauta og auka öryggi vegfarenda. Með Sæbrautarstokki verður gegnumakstursumferð færð undir yfirborðið sem gerbreytir tengingu milli Vogabyggðar og Vogahverfis. Ýmsar útfærslur eru til skoðunnar á stokknum og er hægt að skoða þær hér.

Ein helsta slagæð Borgarlínu liggur um Suðurlandsbraut og við nýtt Vogatorg verður lykiltengipunktur í samgöngukerfi borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Almennar leiðir Borgarlínu fara um hverfin og tengjast stofnleiðum Borgarlínu.

Núverandi gönguleiðir í borgarhlutanum eru festar í sessi og stofnstígar eru forsendur fyrir samgönguhjólreiðum. Dregið verði úr hámarkshraða akandi umferðar.

Hjóla- og göngustígar

Við endurhönnun gatna sem borgargatna er tekið tillit til hjólandi umferðar. Sérstakar hjólabrautir eru við stofn- og tengibrautir þar sem hámarkshraði á götum er 50km/klst. eða hærri en í íbúðargötum með 30 km/klst. hámarkshraða eða lægri eru ekki gerðar sérstakar ráðstafanir vegna hjólandi umferðar.
Bæta á merkingu hjólreiðaleiða og tengingu hverfanna í borgarhlutanum. Staðsetningar núverandi þverana verða skoðaðar og þær bættar eða þeim breytt eftir atvikum.
Borgargötuvæðing stofnbrauta mun bæta öryggi með auknu rými fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og lægri umferðarhraða.
Í bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkur er gert ráð fyrir 30 til 60 hjólastæðum fyrir hverja 100 nemendur og starfsmenn grunnskóla og framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að 80% hjólastæða eiga að vera sem næst inngangi og helmingur þeirra skal vera yfirbyggður.

Samkvæmt reglum bíla- og hjólastæðastefnu borgarinnar skal hjólastæðum skipt í tvo flokka:
– Langtímastæði eru hjólastæði þar sem gert er ráð fyrir að hjólum sé lagt lengur en fjórar klukkustundir. Við útfærslu langtímastæða skal leggja áherslu á öryggi og traust og skal vera hægt að læsa stelli hjóls tryggilega. Hjólastæðið skal vera í læstu eða vöktuðu rými, til dæmis í sérstakri hjólageymslu. Slíkar hjólageymslur geta hvort heldur sem er verið innan húsnæðis eða utan þess.
– Skammtímastæði eru hjólastæði þar sem gert er ráð fyrir að hjólum sé lagt í skemmri tíma en fjórar klukkustundir. Við útfærslu skammtímastæða er áhersla lögð á að þau séu aðgengileg og þægileg í notkun. Þau skulu staðsett sem næst inngangi húsnæðis.

Borgargötuvæðing stofnbrauta mun bæta öryggi með auknu rými fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og lægri umferðarhraða.