Þróunarsvæði og stærri uppbyggingarreitir

Gert er ráð fyrir töluverðri fjölgun lítilla og meðalstórra íbúða en einnig stærri fjölskylduíbúða í Laugarneshverfi, Langholtshverfi og Vogahverfi. Hér er yfirlit yfir helstu uppbyggingarreiti. Þessi svæði og reitir eru samkvæmt aðalskipulagi eða þegar samþykktu deiliskipulagi. Í vinnu við hverfisskipulag verður skoðað hvort ástæða er til að skilgreina ný þróunar- og uppbyggingarsvæði.

Lögreglustöðvarreitur
Gert er ráð fyrir blandaðri byggð, íbúðir, verslun og þjónusta. Hæð bygginga er samkvæmt aðalskipulagi fimm til átta hæðir.
Guðrúnartúnsreitur
Samþykkt deiliskipulag er vegna byggingar 100 íbúða við Guðrúnartún, áður Sætún, ásamt skrifstofu-, verslunar- og þjónustuhúsnæði. Gert er ráð fyrir um 100 íbúðum sem eru um 100 fermetrar að meðalstærð.
Höfðatorg
Lokahnykkurinn er hafinn við uppbyggingu á svæðinu. Gert er ráð fyrir íbúðum, skrifstofum og þjónustu.
Borgartún 24
Framkvæmdir eru í gangi við 64 íbúða fjölbýlishús með verslunum og þjónustu við Borgartún 24. Gert er ráð fyrir að verkefninu í heild verði lokið sumarið 2023. Undir húsinu verður kjallari með bílastæðum og geymslum og góð hjólageymsla á jarðhæðinni. Verslunar- og þjónusturými snúa út að Nóatúni og Borgartúni. Íbúðirnar eru fyrir almennan markað, á stærðarbilinu 50–150 m2. Fylgja 39 bílastæði í bílakjallara hluta íbúðanna þar sem gert er ráð fyrir hleðslu rafbíla. Auk þess verða 30 stæði á lóð sem samnýtast milli annarra íbúða og verslunar- og þjónusturýmanna.
Hátún
Nýr íbúðareitur er kominn samkvæmt aðalskipulagi.
Sóltún 2–4
Á svæðinu er gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði.

Fjölgun íbúa verður mætt með stækkun grunn- og leikskóla í samræmi við þörf

Vogabyggð

Voga­byggð er skipt upp í fimm uppbygg­ing­ar­reiti sem eru komnir mislangt í uppbygg­ingu. Í gild­andi aðal­skipu­lagi eru 1.300 íbúðir en með uppbygg­ing­ar­mögu­leikum syðst í hverfinu, næst fyrir­hug­aðri Borg­ar­línu­stöð ofan á Sæbrautarstokknum, og vegna nýs svæðis sem myndast með stokknum, verður hægt að byggja fleiri íbúðir á svæðinu.
Mynd: ÞG Verk

Vogabyggð hefur byggst hratt upp að undanförnu. Hún byggir á verðlaunatillögum sem gerðar eru af Teiknistofunni Tröð og hollensku teiknistofunum jvantspijker og Felixx. Þetta fyrrum iðnaðarsvæði er að breytast í íbúðabyggð og miðsvæði með verslun, þjónustu og atvinnurekstri. Yfirbragð hverfisins einkennist ag þriggja til fimm hæða randbyggð húsum með fjölbreyttum íbúðum.

Kirkjusandsreitur

Vinningstillaga arkitektastofunnar Kurt og pí gerir ráð fyrir að fimm byggingar verði á lóðinni þar sem gamla frystihúsið stendur enn, hver fær sitt einkenni og hlutverk.
Mynd: Kurt og pí

Atvinnuhúsnæði og fjölbreytt íbúðabyggð er að rísa þar sem áður voru verkstæði og geymslustæði fyrir strætó. Rúmlega 350 íbúðir verða á svæðinu samkvæmt deiliskipulagi.
Sú tala mun hækka því gamla frystihúsið sem síðar hýsti Íslandsbankahúsið hefur verið dæmt ónýtt og verður endurbyggt sem fjölbýlishús. Arkitektastofan Kurt og pí sigraði í samkeppni um útfærslu á húsinu og nágrenni þess. Tillaga stofunnar felur í sér endurbyggingu gamla frystihússins sem fjölbýlishúss framar á lóðinni auk fjögurra annarra bygginga á reitnum, sem hver fái sitt einkenni og hlutverk. Mun stór hluti íbúða og atvinnuhúsnæðis njóta sjávarútsýnis.
Húsnæðisfélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða eru með fjölmargar íbúðir á Kirkjusandi. Bjarg íbúðafélag hefur þegar úthlutað nokkrum íbúðum og Brynja – Hússjóður ÖBÍ er einnig á svæðinu.
Nýr leikskóli verður byggður í hverfinu.

SS lóð

Á svæðinu er gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði.

Fjölbýlishúsin á Blómavalsreitnum rísa umhverfis inngarð.
Mynd: Atelier

Blómavalsreitur

Þar sem Blómaval stóð um árabil, nú líka kallað Sigtúnsreitur, á að byggja 109 íbúðir í sex fjölbýlishúsum auk viðbyggingar við Grand Hótel. Íbúðirnar verða fjölbreyttar að stærð, frá 50 til 350 fermetrum en meðalstærð þeirra er 120 fermetrar. Hótelherbergi eftir stækkun Grand hótels verða 145, auk aðstöðu fyrir fundi og ráðstefnur. Áætlað byggingarmagn í heildina er um 40.000 fermetrar.

Kassagerðarreitur

Heimilt að byggja allt að 49 íbúðir

Suðurlandsbraut-Glæsibær

Gert ráð fyrir lágreistri grænni byggð á opnu svæði við gatnamót Engjavegar og Suðurlandsbrautar í tengslum við Borgarlínustöð sem er áætluð þar.

Álfheimar 49 (Olís)

Þjónustustöð Olís verður lokað innan fjögurra ára. Í stað hennar er kominn nýr íbúðareitur samkvæmt aðalskipulagi.

Grensásvegur 1

Framkvæmdum við byggingu fyrstu 50 íbúðanna á lóðinni við Grensásveg 1 miðar vel. Sala fyrstu íbúða er nýhafin og er stefnt að afhendingu þeirra á vormánuðum 2022. Íbúðirnar eru að langstærstum hluta tveggja til þriggja herbergja íbúðir, 40 til 120 fermetrar að stærð. Alls á að reisa 181 íbúð við Grensásveg 1 í fjórum fjölbýlishúsum, fjögurra til sjö hæða háum. Félagsbústaðir eru með kauprétt á 5 prósent íbúða á lóðinni og 15 prósent íbúða til viðbótar eru með kvöð um leiguíbúðir, samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg. Verslun og þjónusta verður á jarðhæðum og sjö hæða skrifstofubygging við gatnamót Grensásvegar og Suðurlandsbrautar. Sameiginlegur bílakjallari á þremur hæðum verður undir húsunum. Þá verður inngarður á milli húsanna.
Alls á að reisa 181 íbúð við Grensásveg 1 í fjórum fjölbýlishúsum sem verða fjórar til sjö hæðir.
Mynd: Fasteignafélagið G1

Skeifan og Mörkin

Gert ráð fyrir verslun og þjónustu, skrifstofum, stofnunum og íbúðum á þessu svæði. Léttur iðnaður er heimill, en iðnaðarstarfsemi skal almennt vera víkjandi. Heimilt að byggja hjúkrunaríbúðir og íbúðir fyrir aldraða.

Metró reitur

Fasteignafélagið Reitir hefur lagt fram tillögu um byggingu íbúðabygginga á lóðinni við Suðurlandsbraut 56 sem nú stendur veitingahúsið Metró en það mun hverfa. Tillagan gerir ráð fyrir tengingu við biðstöð Borgarlínu á svæðinu og að hringtorg við gatnamót Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs verði aflagt einsog fyrirmæli eru um í rammaskipulagi svæðisins.
Samkvæmt tillögunni verða 87 íbúðir í tveimur samtengdum fimm til sjö hæða byggingum. Stærð íbúðanna verður á bilinu 45 til 135 fermetrar. Auk íbúða verða í byggingunum 1.300 fm af verslunar- og þjónustuhúsnæði. Utanhúss verður torgrými og borgargarður.
Athugið að þetta eru frumdrög. Eftir er að deiliskipulagsbreytingu fyrir reitinn svo gera má ráð fyrir að tillögurnar taki einhverjum breytingum.

Myndir/Trípólí arkitektar

Byggð ofan á Sæbrautarstokk

Byggð við Sæbrautarstokk séð úr suðaustri.
Tillaga Arkís, Landslag og Mannvit

Með Sæbrautarstokk skapast forsendur fyrir spennandi borgarbyggð ofan á stokknum og umhverfis hann á sama tíma og tengsl gamla Vogahverfis eru efld við Elliðaárnar og Elliðaárdal. 
Borgin hefur ýmsa útfærslur til skoðuna á þessari uppbyggingu. Til grundvallar í þeim er nýtt Vogatorg þar verður meginstoppistöð Borgarlínu á milli Ártúnshöfða og miðbæjar Reykjavíkur. Við torgið verða íbúðabyggingar, verslun og þjónusta, og útfrá því teygja sig götur með fjölbreyttu íbúða- og þjónustuhúsnæði. Hér er hægt að skoða sérstaka kynningarsíðu um Sæbrautarstokk.