Þróun íbúðabyggðar

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er gert ráð fyrir að allt að 4.400 íbúðir geti bæst við í borgarhluta 4. Þar munar mestu um fjölda nýrra íbúða í Vogabyggð eða um 2.000. Fjölgunin getur þó orðið eitthvað meiri ef gefnar verða heimildir um aukaíbúðir og heimildir fyrir ofanábyggingar samhliða því sem settar eru lyftur í lyftulaus fjölbýlishús, líkt og í Árbæ og Breiðholti. Þær heimildir verða alfarið í höndum eigenda viðkomandi fasteigna.

Stefnt er að uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á Lögreglustöðvarreit, Guðrúnartúnsreit, við Höfðatorg, Borgartún, Hátún og Sóltún 2–4, á Kirkjusandi, SS-lóð og á Blómavalsreit. Þetta mun auka framboð verslunar og þjónustu í hverfinu. Hvatt er til að endurvekja verslunarrekstur á jarðhæð í þegar byggðu verslunarhúsnæði sem hefur verið tekið til annarra nota.
Stefnt er að uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á Kassagerðarreit.

Stefnt er að uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á uppbyggingarreitum við Suðurlandsbraut, Álfheima 49 (Olís), í Skeifunni, við Hólmasund/Holtaveg og á og við Sæbrautarstokk. Mikil uppbygging er í gangi á fjölmörgum reitum í Vogabyggð. Öllum þessum framkvæmdum fylgir aukið framboð verslunar og þjónustu í hverfinu.

Heimildir eru alfarið í höndum eigenda viðkomandi fasteigna

Skólar í og við Laugardal
Í borgarhluta 4 eru grunnskólar, framhaldsskólar og fjöldi leikskóla. Í skilmálum hverfisskipulags verða settar inn byggingarheimildir þannig að hægt verður að stækka og þróa alla grunnskóla borgarhlutans. Einnig verða byggðir nýir grunnskólar.
Við Bríetartún er að opna fjögurra deilda ungbarnaleikskóli fyrir 60 börn á aldrinum 12 mánaða til þriggja ára og nýr leikskóli er í byggingu við Kleppsveg 150–152. Hann heyrir undir leikskólann Brákarborg sem er við Skipasund. Eftir stækkun mun Brákarborg rúma 160 til 170 börn í þessum tveimur húsum.

Stefna borgarinnar er að vera ekki með fleiri en 650 nemendur í heildstæðum skóla (skóli sem nær yfir alla bekki grunnskólans) nema fjölga sérgreinastofum eða vera með smiðjur á móti.

Í janúar 2021 var skipaður starfshópur til að rýna stöðuna og leggja í framhaldinu fram tillögur um mögulega framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugarnes- og Langholtshverfi. Í skýrslu hópsins er bent á að framtíðarskipulag íþróttamannvirkja í Laugardal er enn óráðið og markar það tillögur hópsins.
Settar eru fram þrjár sviðsmyndir til að bregðast við viðvarandi fjölgun nemenda i Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla:

Skólarnir þrír haldi sér í núverandi mynd og byggt verði við þá alla til að mæta auknum nemendafjölda á næsta áratug í skólahverfunum í takt við forsagnir (fylgiskjöl 2 og 3).
Færa tvo elstu árganga Laugarnesskóla yfir í Laugalækjarskóla og því byggt við hann. Byggt verði við Langholtsskóla eins og fram kemur í forsögn.
Opnaður verði nýr unglingaskóli í Laugardal fyrir alla unglinga úr skólunum þremur. Skólarnir þrír yrðu þá allir yngri barna skólar fyrir nemendur í 1.–7. bekk. Mögulegar staðsetningar eru nú í skoðun. Einn kostur er lóðin fyrir vestan Laugardalshöll, við horn Suðurlandsbrautar og Reykjavegar.

Í greinargerð vinnuhópsins er sagt að mikilvægt sé að rýna vel samgöngur milli hverfa innan borgarhlutans áður en ákveðið er hvaða útfærslur verða fyrir valinu. Bent er á að í Græna plani Reykjavíkurborgar er lögð áhersla á að þjónusta í hverfum verði í göngu- eða hjólafæri. Því þarf að yfirfara göngu- og hjólaleiðir barna með tilliti til þess. Sérstaklega skal hugað að þverun Sundlaugarvegar. Rýna þarf samgönguæðar, hvernig ferðir Strætó falla að þjónustu við nemendur sem koma úr þessum hverfum og kanna möguleika á þörf fyrir annars konar samgöngubætur. Hlekkur á skýrslu vinnuhópsins er hér til hliðar ásamt hlekkjum á fylgiskjöl fyrir þau sem vilja kynna sér þessa vinnu ítarlega.

Atvinnustarfsemi í íbúðabyggð

Í hverfisskipulagi eru rýmkaðar heimildir fyrir léttri atvinnustarfsemi í íbúðabyggð. Er það talið stuðla að hagkvæmari nýtingu innviða og sjálfbærari hverfum með fjölbreyttri þjónustu í göngufæri. Slík starfsemi er líka talin efla mannlíf, fjölga gangandi og hjólandi vegfarendum, fjölga atvinnutækifærum og hvetja til nýsköpunar.
Innan íbúðabyggðar er þó ekki heimiluð mengandi starfsemi sem krefst starfsleyfis frá Umhverfisstofnun eða heilbrigðiseftirliti. Gildir það jafnt um starfsemi í atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði. Á skilgreindum verslunar- og þjónustusvæðum og miðsvæðum innan hverfanna eru rýmri heimildir til atvinnustarfsemi.
Hér má lesa leiðbeiningar um starfsemi í íbúðabyggð.

Hér má lesa leiðbeiningar um starfsemi í íbúðabyggð

Í hverfisskipulagi eru rýmkaðar heimildir fyrir léttri atvinnustarfsemi í íbúðabyggð

Mynd: Mats Wibe Lund
Mynd: Mats Wibe Lund
Mynd: Ragnar Th
Mynd: Ragnar Th
Fyrsta eiginlega byggð í borgarhlutanum hófst um aldamótin 1900. Saltfiskverkun var á Kirkjusandi og risu nokkur mannvirki í tengslum við hana. Heitið Laugardalur kemur fyrst fram í fundargerð Jarðræktarfélags Reykjavíkur þann 30. apríl 1910 en á þeim fundi var rætt um ræktun útjarða kaupstaðarins eða bæjarlandsins og hænsnarækt. Fyrsta skipulagða úthverfið fjarri miðju Reykjavíkur reis í austanverðu Kleppsholti um og eftir 1942, við Langholtsveg, Kambsveg, Efstasund og nálægar götur. Nálægðin við Kleppsspítala var ein helsta skýring þess að byggð tók að myndast á þessum slóðum. Lagning ræsis í tengslum við gerð nýrrar vatnsæðar fyrir spítalann eftir Langholtsvegi skapaði skilyrði til uppbyggingar á þessu svæði.
(Heimild: Byggðakönnun borgarhluti 4 – Laugardalur, Minjasafn Reykjavíkur)

Hverfiskjarnar

Í hugmyndafræði hverfisskipulagsins er lögð áhersla á að hlúa að hverfis- og nærþjónustukjörnum í borgarhlutanum, ekki síst til að auka verslun og þjónustu í göngufæri fyrir sem flesta íbúa. Þar geta verið minni matvöruverslanir, bakarí, fiskbúðir og annað til daglegra þarfa innan hverfa. Íbúðir eru heimilar í þessum byggingum, einkum á efri hæðum. Tiltekna gerð veitingastaða og gististaða má heimila. Opnunartími allra veitingastaða er til allt að 01.00 um helgar/frídaga. Ekki er heimilt að breyta eldra verslunar- og þjónustuhúsnæði á jarðhæð í gististað.

Þessar staðsetningar eru tilgreindar í aðalskipulagi:

Gullteigur
við Laugateig, Kirkjuteig og Sundlaugarveg

Laugalækur
við Laugarnesveg

Dalbraut
við Kleppsveg

Laugarásvegur
við Brúnaveg

Norðurbrún
við Austurbrún

Langholtsvegur
við Hólsveg, Holtaveg, Álfheima, Drekavog og Skeiðarvog

Skipasund
við Holtaveg

Holtavegur-Hólmasund

Álfheimar 49 (Olís)

Hverfisvernd

Innan hverfisskipulags verða skilgreind svæði og reitir sem njóta svokallaðar hverfisverndar vegna byggðamynsturs, menningarverðmæta, landslags eða náttúrufars. Með hverfisvernd er ekki verið að friða byggingarnar heldur merkir hún vernd á sérkennum eldri byggðar, sem skilmálar hverfisskipulags um ýmsar breytingar og/eða viðbætur munu taka mið af.

Heimilt er að setja í skipulagsáætlun ákvæði um hverfisvernd ef talin er þörf á að vernda sérkenni eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja