Stórfundur með börnum um framtíð  skóla- og frístundastarfs í Laugardal

Þann 31. mars stóð skóla- og frístundasvið fyrir fundi með yfir 100 börnum og unglingum úr Laugalækjarskóla, Laugarnesskóla og Langholtsskóla. Umræðuefnið voru hugmyndir um breytingar á skóla- og frístundastarfi í hverfunum í kringum Laugardalinn vegna fjölgun barna og unglinga.

 


Þrjár sviðsmyndir
Hópurinn skoðaði saman og ræddi þrjár sviðsmyndir starfshóps sem var skipaður í janúar 2021 og lagði fram skýrslu síðastliðið haust. Sviðsmyndirnar eru þessar:

1) Skólarnir þrír haldi sér í núverandi mynd og byggt verði við þá alla til að mæta auknum nemendafjölda á næsta áratug í skólahverfunum.
2) Tveir elstu árganga Laugarnesskóla færist yfir í Laugalækjarskóla og byggt verði við hann. Byggt verði við Langholtsskóla.
3) Opnaður verði nýr unglingaskóli í Laugardal fyrir alla unglinga úr skólunum þremur. Hinir skólarnir þrír yrðu þá allir yngri barna skólar fyrir nemendur í 1.–7. bekk. Einn kostur fyrir þennan nýja unglingaskóla er lóðin fyrir vestan Laugardalshöll, við horn Suðurlandsbrautar og Reykjavegar.

 

Gleði og spenna
Þátttekendur á fundinum voru annars vegar boðið úr slembiúrtaki meðal nemenda skólanna og hins vegar komu fulltrúar í nemendaráðum og öðrum ráðum á vegum skólanna þriggja.

Að sögn Soffíu Pálsdóttur, skrifstofustjóra frístundamála, einkenndust fundarstörf af gleði og spennu fyrir verkefninu og voru börnin og unglingarnir ótrúlega duglegir að segja sína skoðun á því hvernig best væri að skipuleggja skóla- og frístundastarf hverfisins til lengri tíma. Afrakstur dagsins verður svo hluti af umsögnum hagaðila að verkefninu þegar teknar verða ákvarðanir um hvernig breytingum verður háttað.

Foreldrafélög, starfsmannahópar, íbúaráð og ungmennaráð hafa einnig sent inn sínar umsagnir og því mikilvægt að raddir barnanna og unglinganna í hverfinu fái að heyrast líka.
Í skilmálum hverfisskipulags verða settar inn byggingarheimildir þannig að hægt verður að stækka og þróa alla grunnskóla borgarhlutans.  Stefna borgarinnar er að vera ekki með fleiri en 650 nemendur í heildstæðum skóla (skóli sem nær yfir alla bekki grunnskólans) nema fjölga sérgreinastofum eða vera með smiðjur á móti.
Frá fundarstörfum barna og unglinga í hverfunum við Laugardal þann 31. mars.