Samráð við gerð hverfisskipulags í Laugardal

Í þessum fyrsta fasa samráðsins viljum við fá ábendingar og hugmyndir frá ykkur kæru íbúar til að vinna áfram með þeim arkitektum og skipulagsfræðingum sem leggja fram vinnutillögur fyrir næstu umferð samráðsins.

Í vinnu við hverfisskipulag er samráð við íbúa í forgrunni. Mikill tími og orka fer í samráðið. Um það vitnar fjöldi viðburða á vegum hverfisskipulagsins. 

Í orðabók segir að samráð sé það að taka sameiginlegar ákvarðanir og samræma aðgerðir. Í því felist einnig að kynna og fræða um tiltekið málefni og fá fram umræðu um það. Sömuleiðis að skiptast á skoðunum, rökræða og taka mið af skoðanaskiptum til að þróa verkefni.

Samráð hverfisskipulags er skilgreint vinnuferli þar sem leitað er álits íbúa, hagsmunaaðila og opinberra umsagnaraðila. Í vinnu við hverfisskipulag (deiliskipulag) er haft samráð við íbúa, hagsmunaaðila og opinbera umsagnaraðila á öllum stigum ferlisins. Þau gögn sem verða til í samráðsferlinu eru notuð til að bæta og þróa hverfisskipulag (deiliskipulag).

Öllum sem vinna við borgarskipulag er ætlað að eiga samráð samkvæmt skipulagslögum frá 2010. Þar eru lágmarkskröfurnar skilgreindar sem þrjú atriði, sem eru: 

A) Að kynna áform í upphafi verks. 

B) Að leita álits hagsmunaaðila á hugmyndum meðan á vinnunni stendur.

C) Að kynna tillögur fyrir sömu aðilum og gefa þeim tækifæri til að gera athugasemdir áður en skipulagsáætlun tekur gildi.  

Í samráði hverfisskipulags er öllum þessum skilyrðum fullnægt og margt fleira gert til þess að ná til sem flestra borgarbúa. 

Samráð hverfisskipulags er byggt á Lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar, sem miðar að því að fá íbúa og hagsmunaaðila til að taka þátt í að móta borgarumhverfið.  

Lykilinn í þeirri vinnu er ákveðin hringrás sem byggist á fjórum stoðum:

Við hlustum.

Við rýnum.

Við breytum.

Og við miðlum.

Þessi hringrás er síðan margendurtekin í gegnum skipulagsferlið. 

Við viljum fá ábendingar og hugmyndir frá ykkur kæru íbúar til að vinna áfram með þeim arkitektum og skipulagsfræðingum sem leggja fram vinnutillögur fyrir annan fasa samráðs

Markhópar samráðs – hagsmunaaðilar
Samráð við gerð hverfisskipulags miðar að því að draga fram sjónarmið sem flestra sem búa og starfa í ákveðnu hverfi. Mikilvægt er að fá fram sjónarmið og skoðanir allra aldurshópa til að mótun framtíðarskipulags í viðkomandi hverfi byggi á samráði við sem flesta.
Hafa þarf samráð við fjölda opinberra stofnana og fyrirtækja við gerð hverfisskipulags. Fyrsta skref í samráði er að vinna hagsmunaaðilagreiningu þar sem það er skilgreint til hvaða aðila/hópa samráðinu er ætlað að ná. 

Samráðshringurinn verður farinn oftar en einu sinni í vinnu við hverfisskipulag fyrir borgarhlutann.

Eldhugar í Laugardal
Við hverfisskipulagsvinnu í borgarhlutanum Laugardal er stefnt að því að koma á laggirnar hóp íbúa sem hafa brennandi áhuga á sínu umhverfi og vilja hafa áhrif á þróun hverfanna. Þessum eldhugahópi er ætlað að vera ráðgefandi við þróun hverfisskipulags á vinnutímanum, svo sem með því að rýna hugmyndir og vinnutillögur á ólíkum stigum skipulagsferlisins og koma á framfæri áhersluatriðum sem brenna á íbúum. Auk þess er markmiðið að eldhugahópur hvetji aðra íbúa til þátttöku í samráðsferli hverfisskipulagsins.
Allir íbúar borgarhlutans geta óskað eftir sæti í hópnum en miðað er við að hópurinn verði ekki stærri en um það bil 30 manns. Æskilegt er að í hópinn veljist fólk úr öllum hverfum borgarhlutans og að kynja- og aldursdreifing endurspegli fjölbreytt mannlíf hverfanna.

Ekki er gert ráð fyrir að í eldhugahópinn verði fulltrúar félagasamtaka eða fyrirtæka heldur fyrst og fremst áhugasamir íbúar.

Þeir íbúar sem hafa áhuga á að starfa í eldhugahópnum geta sent póst netfangið eldhugar.hverfisskipulag@reykjavik.is eða á netfang Íbúasamtaka Laugardals ibuarlaugardals@gmail.com.   Nafn, heimilisfang, tölvupóstur og áhugasvið þarf að koma fram. Íbúasamtök Laugardals mun koma að starfi eldhugahópsins.

Aðferðir og tímaáætlun
Tengja þarf samráð við verkáfanga skipulagsverkefnisins. Miðað er við að það sé þrepaskipt. Í upphafi er það opið en þrengist eftir því sem á líður. 

Þriggja fasa samráðsferli í Laugardal 
Samráði við gerð hverfisskipulag er fasaskipt, sjá umfjöllun fyrir neðan.

Fyrsti fasi

Kynnt er framtíðarsýn fyrir borgarhlutann skv. aðalskipulagi. Þá eru kynntar almennar áherslur í ýmsum málaflokkum, dregin fram sérstök áherslusvæði innan einstakra hverfa og veittar upplýsingar um þróunarsvæði og/eða uppbyggingarsvæði sem eru utan við hverfisskipulag en skipta íbúa og hagsmunaaðila í borgarhlutanum miklu máli. Íbúum og hagsmunaaðilum er gefinn kostur á að bregðast við þeim áhersluatriðum sem eru kynnt og koma á framfæri skoðunum og ábendingum.

Samráðsaðferðum sem beitt er í fyrsta fasa eru helstar:

Eldhugar í Laugardal
Eldhugahópur íbúa tekur til starfa. Miðað er við að í honum verði um 30 fulltrúar úr öllum aldurshópum í hverfinu eldri en 18 ára. Hugmyndin er að hópurinn starfi með þeim sem eru að vinna hverfisskipulagið í borgarhlutanum allt vinnsluferlið þangað til fullmótaðar tillögur hafa verið kynntar. 

Viðvera í hverfinu
Starfsfólk hverfisskipulags og/eða skipulagsráðgjafar taka á móti íbúum/hagsmunaaðilum á auglýstum tíma til að taka á móti ábendingum og ræða málefni hverfisins.

Skapandi samráð í grunnskólum
Í samstarfi við alla grunnskóla í borgarhlutanum byggja grunnskólabörn módel af sínu skólahverfi. Grunnskólabörnin taka svo þátt í samtali og samráði um framtíðarsýn fyrir þeirra hverfi. Þau leggja meðal annars miða með ábendingum og athugasemdum á módel sem þau hafa gert. Allar athugasemdir eru skráðar í gagnagrunn og aðgengilegar í miðasjá hverfisskipulags.

Íbúafundir með Skapandi samráði
Íbúum og hagsmunaaðilum verður boðið að taka þátt í vinnu við að móta framtíðarsýn síns hverfis. Fundargestir leggja miða með ábendingum og athugasemdum á módel sem grunnskólabörn hafa búið til. Allar athugasemdir eru skráðar í gagnagrunn og aðgengilegar í miðasjá hverfisskipulags.

Börn í Hvassaleitisskóla við módel sem þau höfðu byggt af sínu hverfi í skapandi samráði árið 2016

Netsamráð – Maptionnaire
Útbúnir eru spurningalistar sem hægt er að svara á netinu. Með Maptionnaire gefst kostur á að ná til enn fleiri íbúa og hagsmunaaðila og safna enn fleiri ábendingum og athugasemdum. Netsamráð komi í kjölfar annarra samráðsaðferða í fyrsta fasa.

Rýnihópar Gallup
Framtíðarsýn og áherslur hverfisskipulags kynntar í rýnihópum sem Gallup stýrir. Nokkrir aldursskiptir hópar eru úr hverju hverfi borgarhlutans.

Annar fasi

Kynntar eru vinnutillögur hverfisskipulags í viðkomandi borgarhluta/hverfi. Þá hafa verið unnar nákvæmari skipulagstillögur, til dæmis um heimildir til breytinga á fasteignum, viðbygginga, ofanábygginga og aukaíbúða. Sömuleiðis eru kynntar hugmyndir sem snúa að samgöngum, borgargötum, vistvænum áherslum og svo framvegis. Einnig eru kynntar tillögur að uppbyggingu og/eða öðrum breytingum á sérstökum áherslusvæðum innan hverfanna.

Samráðsaðferðum sem beitt er í öðrum fasa eru helstar:

Kynningarsíða
Kynnt er sérstök uppfærð útgáfa af þessari vefsíðu sem er helguð helstu vinnutillögum hverfisskipulags fyrir borgarhlutann, svo sem um heimildir til breytinga á fasteignum, fjölgun íbúða, borgargötur, vistvænar áherslur og fleira.

Viðvera í borgarhlutanum
Starfsfólk hverfisskipulags og/eða skipulagsráðgjafar taka á móti íbúum/hagsmunaaðilum á auglýstum tíma til að kynna vinnutillögur og taka á móti ábendingum og athugasemdum.

Hverfisgöngur
Stuttar gönguferðir um hvert hverfi til að kynna og ræða ýmsar vinnutillögur hverfisskipulags úti í hverfunum. Gönguferðir fara fram á sama tíma eða í kjölfar viðveru starfsfólks í borgarhlutanum.

Kynningarfundur 
Kynningarfundur úti í hverfinu og/eða í netstreymi þar sem starfsfólk hverfisskipulags og annarra skrifstofa fara yfir vinnutillögurnar og tekið er á móti spurningum úr sal eða á streymi.

Börn í Ártúnsskóla í skapandi samráði 2015
Börn í Álftamýrarskóla í skapandi samráði 2016

Netsamráð – Maptionnaire
Útbúnir eru spurningalistar sem hægt er að svara á netinu. Tækifæri til að spyrja nánar um einstök atriði vinnutillagnanna, s.s. um einstök áherslusvæði, tilteknar heimildir til breytinga á fasteignum eða útfærslu á borgargötum eða öðrum almenningsrýmum.

Viðhorfskönnun – netkönnun
Ef verulega umdeild mál eru til umfjöllunar er hægt að framkvæma viðhorfskönnun. Hún er þá famkvæmd af viðurkenndu könnunarfyrirtæki sem velur þátttakendur úr borgarhlutanum með slembiúrtaki.

Þriðji fasi

Kynntar eru fullmótaðar tillögur að hverfisskipulagi í viðkomandi borgarhluta/hverfi. Þá hefur verið unnið úr samráði í öðrum fasa. Settar eru fram tillögur að stefnu og áherslu og skilmálar um breytingar á fasteignum, viðbyggingar, ofanábyggingar og aukaíbúðir. Einnig tillögur um samgöngur, borgargötur, vistvæna skilmála og þróunarsvæði þar sem fyrirhuguð er meiri uppbygging/umbreyting.

Samráðsaðferðir sem notaðar eru í þriðja fasa eru helstar:
Kynningarsíða á tilbúnum tillögum.
Viðvera í borgarhlutanum með sýningu.
Kynningarfundur.