Mín eign

Þegar hverfisskipulag hefur verið samþykkt verða til mögulegar nýjar heimildir fyrir fasteignaeigendur, svo sem til að byggja kvisti, svalir og viðbyggingar eða fjölga, fækka eða sameina íbúðir í þegar byggðum húsum. Með hverfisskipulagi verða tímafrekar og kostnaðarsamar grenndarkynningar að mestu óþarfar og allt umsóknar- og afgreiðsluferli einfaldara og skilvirkara.

Hvað má ég gera við mína eign?

Hverfisskipulagi er meðal annars ætlað að gera íbúum hægara um vik að hefja hvers kyns framkvæmdir á eignum sínum. Þetta er gert með því að einfalda skipulags- og byggingarheimildir og bæta aðgengi að upplýsingum um gildandi skipulagsheimildir.
Þannig opnast ýmsir möguleikar fyrir húseigendur til að breyta eða byggja við eignir sínar. Heimildirnar geta til dæmis falist í að innrétta aukaíbúðir í húsum, annaðhvort með því að byggja við, skipta upp eldra rými eða breyta bílskúr í litla íbúð, þar sem skilmálar leyfa, og víða munu eigendur lyftulausra fjölbýlishúsa fá heimild til að byggja ofan á þau með því skilyrði að um leið verði komið fyrir lyftu. Breytingar á til dæmis svölum eða bygging kvista munu ekki þurfa að fara í gegnum grenndarkynningu, eins og verið hefur.
Leiðbeiningar um útfærslur á þessum heimildum eru ekki tengdar einstökum hverfum eða skilmálaeiningum heldur eru þær algildar fyrir öll hverfi borgarinnar sem fengið hafa hverfisskipulag. Hér má skoða gagnlegt yfirlit yfir einstaka þætti og upplýsingar um hvernig á að sækja um og fá leyfi fyrir framkvæmdum.

Hverfisskipulagi er meðal annars ætlað að gera íbúum hægara um vik að hefja hvers kyns framkvæmdir á eignum sínum

Allir skilmálar og reglur í Hverfasjá
Þegar hverfisskipulagið hefur tekið gildi geta fasteignaeigendur slegið götuheiti og húsnúmer fasteignar sinnar inn í svonefnda Hverfasjá á netinu. Birtast þá gildandi skipulagsskilmálar fyrir viðkomandi eign, ásamt leiðbeiningum, um hvernig skuli bera sig að við að sækja um leyfi til breytinga og/eða úrbóta.

Fjölgun íbúða í sérbýli
Heimilt verður að fjölga íbúðum í sérbýli og hafa tvær íbúðir í stórum sérbýlishúsum þar sem aðstæður leyfa, en slíkt leiðir til betri landnýtingar og getur glætt mannlíf í hverfinu.
Mynd: Ydda arkitektar.
.
Mögulegar breytingar á sérbýli
Myndin sýnir hvernig byggja má við sérbýlishús. Nýir skilmálar eiga að einfalda málsmeðferð við breytingar.
Mynd: Trípólí arkitektar.
Aukaíbúð í sérbýlishúsum

Flestir eigendur sérbýlishúsa, einbýlis-, rað- og parhúsa fá í hverfisskipulagi heimildir til viðbygginga og hóflegra breytinga á fasteignum sínum. Einnig verða veittar heimildir til byggingar sorpskýla og annarra smáhýsa á lóð, allt að 10 til 15 m², auk þess sem kveðið verður á um ýmiss konar frágang á lóð og lóðamörkum.
Heimilt verður að útbúa eina aukaíbúð í flestum sérbýlishúsum sem má að hámarki vera þriðjungur af heildarstærð húss. Aukaíbúð má koma fyrir innan núverandi húss, í viðbyggingu og í sumum tilfellum í bílageymslu eða smáhúsi á lóð.
Heimild um aukaíbúð í sérbýlishúsi getur gert mörgum kleift að aðlaga húsnæðið betur að þörfum sínum og fjölskyldu sinnar þó að fjölskyldustærð og aðstæður taki breytingum. Þannig gætu einhverjir búið lengur í eignum sínum þótt herbergjaþörfin minnki eftir að börnin fara að heiman. Aukaíbúð í foreldrahúsum getur einnig verið fyrsta skref ungs fólks til sjálfstæðrar búsetu.
Það skal áréttað að aukaíbúðir eru hugsaðar fyrir fjölskyldumeðlimi eða til útleigu. Ekki má selja þær frá aðalíbúð og hægt verður að sameina íbúðirnar aftur ef eigendur óska þess.

Einbýlishús
Svalir og útlitsbreytingar
Þakbreytingar

Skipulagsskilmálar og leiðbeiningar eru aðgengilegar á netinu

Lyftulaus fjölbýlishús

Í Reykjavík eru þúsundir íbúða á efri hæðum í lyftulausum fjölbýlishúsum. Aðgengi að þessum íbúðum er takmarkaðra en gengur og gerist og þær henta því oft illa fólki með skerta hreyfigetu eða sem komið er á efri ár. Af þessum sökum neyðast margir til að flytja úr íbúðum sínum þegar aldurinn færist yfir eða aðstæður breytast, með tilheyrandi kostnaði og raski. Á Íslandi er mjög sjaldgæft að gerðar hafi verið breytingar á þessum húsum til að koma fyrir lyftu, þótt slíkt sé vel þekkt í löndunum í kringum okkur. Kostnaðurinn við byggingu og rekstur lyftu er í flestum tilfellum ein helsta hindrun þess.
Í hverfisskipulagi er farin sú leið að heimila húsfélögum að byggja eina aukahæð ofan á mörg lyftulaus fjölbýlishús, gegn því skilyrði að um leið verði komið fyrir lyftu við húsið. Til að freista þess að staðla vinnubrögð og verkferla við slíkar framkvæmdir hafa borgaryfirvöld samþykkt að efna til hönnunarsamkeppni um ofanábyggingar og bætt aðgengi, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og Félagsbústaði, og er horft til þess að niðurstaða hönnunarsamkeppninnar geti nýst í öllum grónum hverfum borgarinnar, óháð borgarhlutum.
Nýr byggingarréttur er verðmætur og getur húsfélagið ráðstafað honum og nýtt hagnaðinn til að fjármagna lyftu við húsið og jafnvel til að sinna öðru viðhaldi á húsi eða lóð. Bætt aðgengi að íbúðum á efri hæðum getur einnig aukið verðgildi íbúðanna og gert mörgum kleift að búa lengur í íbúðum sínum. Síðast en ekki síst er lykilatriði að heimild til ofanábyggingar er verðmæti sem lóðarhafar einir eiga og ekki er hægt að ráðstafa nema um það sé samstaða.

Teikningin sýnir viðbyggingu ofan á með nýjum íbúðum ásamt lyftum sem tengdar eru við allar hæðir til að bæta aðgengi.
Mynd:Trípolí arkitektar