Laugardalur

Laugardalur er eitt helsta íþrótta- og útivistarsvæði höfuðborgarinnar. Þar eru meðal annars stærsta sundlaug landsins, stærsta líkamsræktarstöð landsins, þjóðarleikvangur fótboltalandsliða okkar, skautahöll, fjölskyldu- og húsdýragarður, grasagarður og stór græn almenningssvæði.

Hugmyndir um Laugardal sem íþrótta- og útivistarsvæði eiga sér djúpar rætur. Í úttekt Minjasafns Reykjavíkur fyrir borgarhluta 4 kemur fram að fyrstu uppdrættirnir að íþróttasvæði í Laugardal eru frá því um 1870 þegar Sigurður Guðmundsson málari (1833–1874) gerði tillögu að íþróttaleikvangi og görðum. Árið 1943 var svo samþykkt í bæjarstjórn að gera allan Laugardalinn að íþrótta- og útivistarsvæði. Ári síðar var Gísli Halldórsson arkitekt (1914–2012) ráðinn af íþróttanefnd ríkisins til þess að gera heildarskipulag svæðisins en samkvæmt því áttu að vera í dalnum leikvangur, sundlaugar, íþróttahallir, tennisvöllur, æfingasvæði fyrir frjálsar íþróttir, knattspyrnuvellir, handboltavöllur og skeiðvöllur auk ýmissar annarrar starfsemi. Um þetta og meira er hægt að lesa i Byggðakönnun Minjasafns sem er aðgengileg hér neðst á síðunni í heild.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur, sem gildir til 2040, mun Suðurlandsbraut taka miklum breytingum á næstu árum með tilkomu Borgarlínu. Um Suðurlandsbraut fara nokkrar af meginleiðum Borgarlínu og tvær Borgarlínustöðvar verða við götuna, annars vegar við Laugardalshöll og hins vegar til móts við Suðurlandsbraut 34 eða Glæsibæ.  Í tengslum við þessar breytingar er gert ráð fyrir lágreistri grænni byggð á miðsvæði við  við gatnamót Engjavegar og Suðurlandsbrautar  auk þess sem gert er ráð fyrir mögulegri lágreistri uppbyggingu á miðsvæði  meðfram Suðurlandsbraut Laugardalsmegin að gefnum ákveðnum skilyrðum sem skulu miða að því að ekki verði gengið á græn útivistar- og íþróttasvæði í Laugardalnum.

Laugardalslaug er stærsta sundlaug landsins og eitt þekktasta kennileiti Laugardals.
Mynd: Laugardalslaug

Uppdráttur úr skýrslu starfshóps um skipulags- og mannvirkjamál í Laugardal.

Skipulags- og mannvirkjamál í Laugardal
Í skýrslu starfshóps sem var skipaður í febrúar 2021 um skipulags- og mannvirkjamál í Laugardal koma fram ýmsar hugmyndir og vangaveltur um mannvirki í dalnum og almannarýmin sem þar eru. Sumar hugmyndir eru komnar í farveg, einhverjar eru í skoðun og enn aðrar eru nefndar sem hugsanlegir möguleikar, ekki síst til þess að skapa um þær umræður og viðbrögð frá borgarbúum og hagsmunaaðilum. 

Það er sem sagt mikilvægt að hafa í huga að hér eru nefnd verkefni sem eru ýmist á frumhugmyndastigi eða á teikniborðinu. Hér fyrir neðan er farið yfir nokkur af þeim málum sem starfshópurinn skoðar í skýrslu sinni.

Bíllaust íþrótta- og útivistarsvæði?
Í skýrslu starfshópsins er til dæmis nefnt að Engjavegur var annars vegar hugsaður sem hægakstursgata í dalnum og hins vegar til að flýta fyrir rýmingu þegar stórviðburðir eru í dalnum. Raunin hefur þó orðið sú að margir nota veginn til að „stytta“ sér leið og aka greitt í gegn sem fer illa saman við mikla umferð ungmenna, gangandi og hjólandi. Í skýrslunni er því nefnt hvort skoða eigi þá framtíðarsýn að Laugardalur verði bíllaust íþrótta- og útivistarsvæði. Bent er á að þetta gæti gerst í skrefum þar sem fyrst yrði lokað á gegnumakstur um Engjaveg og svo skoðað hvort einhver hluti lítið notaðra bílastæða gæti umbreyst í græn almenningsrými.

Nýir gervigrasvellir fyrir Þrótt
Nýlega var samþykkt skipulagsbreyting um æfingasvæði með tveimur gervigrasvöllum fyrir Þrótt á gamla Valbjarnarvellinum. Jafnframt eru hugmyndir uppi um að núverandi kastæfingasvæði norðan nýrra gervigrasvalla verði einnig grasæfingasvæði fyrir Þrótt, en það tengist hugmyndum um að koma þjóðarleikvangi frjálsra íþrótta á núverandi æfingasvæði Þróttar við Suðurlandsbraut.

Nýtt íþróttahús
Hugmyndir hafa verið uppi um nýtt íþróttahús Þróttar og Ármanns á núverandi bílastæðum. Húsið myndi nýtast fyrir boltaíþróttir og skólaíþróttir. Þetta tengist þó hugmyndum um nýja Þjóðarhöll og hvort núverandi Laugardalshöll myndi taka við þessu hlutverki.

Illa nýtt bílastæði verði almenningsrými
Mjög mörg bílastæði eru á þessu svæði sem nýtast Laugardalslaug, World Class Laugum, Laugardalsvelli og stórum viðburðum í Dalnum. Það verður þó að teljast þversagnarkennt að þessum stæðum er þó stundum lokað að hluta á stærstu viðburðum og áhorfendur hvattir til að nota almenningssamgöngur og virka samgöngumáta. Það er gert til að koma í veg fyrir umferðarteppur í borgarhlutanum og stuðla að vistvænni samgöngum. Bent er þó á þann möguleika að umbreyta stæðum að hluta til í almenningsrými til að auka hlutdeild slíkra svæða til móts við afgirt íþróttasvæði. Þar kemur til dæmis til greina syðsti hluti þessara stæða, það er að segja ef ekki verður byggt íþróttahús á núverandi stæðum fyrir Ármann og Þrótt.

Mynd: Landslag
Teikning: Halldór Baldursson

Samkeppni um Laugardalslaug
Hönnunarsamkeppni er fram undan um endurgerð Laugardalslaugar og tengdra mannvirkja. Gert er ráð fyrir að viðhalda í meginatriðum útliti eldri mannvirkja, þó einnig verði kallað eftir þróun og aukinni notkun stúkumannvirkis og annarra vannýttra hluta bygginganna svo sem eldri afgreiðslu og búningaaðstöðu, svo dæmi sé tekið.

Almenningur getur lagt sitt af mörkum og sent inn sínar tillögur hér. Yfir 100 manns sendu inn hugmyndir fyrstu vikuna eftir að óskað var eftir tillögum.

Hefur þú tillögu um hvernig skal nýta stúkuna við Laugardalslaug?
Mynd: Laugardalslaug

TBR svæðið
Búið er að setja inn hugmynd um stækkun bygginga á núverandi lóð TBR. Hugmyndir eru um að færa útivelli fyrir tennis sem eru í miðju dalsins á svæðið þar sem nú eru grasæfingavellir fyrir Þrótt norðan TBR-húss. Viðræður eru í gangi við Þrótt um að þeir afsali sér þessu svæði með nýjum gervigrasvöllum á gamla Valbjarnarvelli

Fjölskyldu- og húsdýragarður
Fyrirliggjandi eru í deiliskipulagi byggingarreitir fyrir fræðslu- og náttúruhús sem og starfsmannaaðstöðu innan húsdýragarðsins. Unnið er að hönnun bygginganna auk stækkunar selalaugar.
Mynd: Landslag
Mynd: Landslag

Græn almenningsrými
Mikilvægt er að horfa til þess að almenningur eigi greiðan aðgang að dalnum og sem flestar leiðir verði færar milli svæða fyrir gangandi og hjólandi. Í tengslum við hrókeringar á svæðum innan dalsins er horft til þess að þríhyrnda grasflötin sunnan Þvottalauga verði aftur að almenningsrými og tengist brekkunni ofan hans og trjágöngunum sem eru hryggjarstykki dalsins. Jafnframt verði skoðað hvort umbreyta megi einhverjum lítið notuðum bílastæðum fyrir græn almenningsrými.
Mynd: Landslag

Skautahöll
Hugmyndir eru uppi um stækkun fyrir Skautahöllina, á grassvæði norðan byggingar; fjölnota hús fyrir skautatengdar æfingar og afþreyingu. Einnig eru uppbyggingarmöguleikar til suðurs. Fyrirliggjandi eru drög að bættu skipulagi fyrir aðkomu fyrir rútur og stæði hreyfihamlaðra við aðkomutorg við trjágöngin og inngang í Húsdýragarðinn.

Tjaldsvæði og farfuglaheimili
Finna þarf langtímastæði fyrir húsbíla á öðrum stað í borginni en í Laugardalnum blandast þeir illa við hinn almenna ferðamann. Lagt til að halda svæðinu óbreyttu miðað við gildandi skipulag. Í deiliskipulagi er gert ráð fyrir mögulegri stækkun farfuglaheimilis.