Grænar áherslur


Vilji er til að auka hlutfall almenningsrýma; bæði hverfisgarða, dvalarsvæða og svokallaðra kyrrlátra svæða, í öllum hverfum borgarhlutans.
Hlúð verður að upprunalegum gróðri á svæðinu og þess gætt að ekki sé dregið úr gegndræpu yfirborði í hverfinu og að notast sé við ofanvatnslausnir sem skila vatni í jarðveginn þar sem við á.
Í hverfisskipulagi er lögð áhersla á að auka trjágróður og fjölga gróðurkerjum á opnum svæðum

Hljóðvist bætt í öllum hverfum
Gott aðgengi að opnum svæðum og grænar áherslur í skipulagi stuðla að bættri lýðheilsu borgarbúa. Í hverfisskipulaginu er stefnt að því að setja skilmála til að skilgreina og styrkja opin svæði í sessi, s.s. hverfisgarða, dvalar- og leiksvæði og sérstök kyrrlát svæði, auka gegndræpt yfirborð, vernda gróður fyrir ónauðsynlegu raski og styðja við frekari gróðurrækt á lóðum og borgarlandi.
Í vinnutillögunum er einnig lögð áhersla á að efla hverfisanda og samfélagsvitund með hverfistorgum eða -görðum víðs vegar um hverfin. Þessi svæði gætu jafnframt verið vettvangur fyrir ýmsar uppákomur, svo sem árstíðabundin markaðstorg og staðir fyrir list í almenningsrými, sem skapað getur ný kennileiti innan hverfanna.
Úrgangur og flokkun
Fram komu skýrar raddir í samráðinu við íbúa og hagsmunaaðila í upphafi hverfisskipulagsvinnunnar að setja þyrfti upp fleiri grenndarstöðvar fyrir endurvinnslu og stuðla að frekari sorpflokkun hjá bæði almenningi og fyrirtækjum.
Djúpgámar
Í vinnutillögum hverfisskipulagsins verða kynntir skilmálar sem eiga að auðvelda flokkun á heimilum og vinnustöðum. Þeir fela í sér að á öllum lóðum verður heimilt að byggja skýli, gerði eða geymslu innan lóðarinnar fyrir úrgang.
Við fjölbýlishús og atvinnuhúsnæði verður einnig heimilt að koma fyrir gámum á yfirborði eða djúpgámum.
Staðsetning og umgjörð grenndarstöðva verður tekin til skoðunar í samráði við íbúa við gerð hverfisskipulagsins. Meðal annars hvort fjölga eigi djúpgámum og hvar þá.
Ný grenndarstöð var opnuð á dögunum við horn Sigtúns og Gullteigs. Grenndarstöðin við Laugalæk/Hrísateig er eina grenndarstöðin í borgarhlutanum sem er komin með djúpgáma.
Borgarbúskapur
Búið er í haginn fyrir borgarbúskap og matjurtarækt íbúa á borgarlandi og á eigin lóðum í takt við áherslur um sjálfbærni og vistvænni hverfi. Óskað er eftir hugmyndum íbúa um borgarbúskap á borgarlandi.
https://skjol.hvsk.is/leidbeiningar/Leidb-Hvsk-Borgarbuskapur.pdf
Óskað er eftir hugmyndum íbúa um borgarbúskap á borgarlandi
Hleðslustöðvar fyrir rafbíla
Aðstæður til notkunar vistvænna orkugjafa verða bættar með hleðslustöðvum fyrir rafbíla á borgarlandi.
Uppbygging í og við Sæbrautarstokk
Hugmyndaleit um uppbyggingu í og við fyrirhugaðan Sæbrautarstokk sem er hluti af framkvæmd við Borgarlínu hefur verið til umfjöllunar í ráðum borgarinnar. Samþykkt hefur verið að vinna áfram með tillögu Arkís, Landslags og Mannvits. Í tillögunni er m.a. gert ráð fyrir svokölluðu Vogatorgi við eina af megin skiptistöðvum Borgarlínu. Vogatorg er nýtt og fjölbreytt miðsvæði sem býður upp á verlsun, þjónustu og atvinnuhúsnæði í bland við íbúðauppbyggingur. Byggðamynstur er nokkuð fjölbreytt, en lögð er áhersla á að ný byggð falli vel að fyrirliggjandi byggð. Vesturjaðar svæðisins einkennist af stakstæðum, smágerðum byggingum sem vísa til byggðamynsturs Vogahverfis. Til austurs er gert ráð fyrir stærri byggingum og er meiri áhersla á randbyggð á þeim hluta svæðisins, rétt eins og í skipulagi Vogabyggðar.
Sjá nánar hér: 01 | Skipulag Reykjavíkur (reykjavik.is)