Aukaopnun hugmyndaleitar sunnudaginn 3. apríl

Frá sýningarstað undir stúkunni við Laugardalsvöll
Hugmyndaleitinni í hverfunum kringum Laugardalinn verður haldið áfram á sunnudaginn 3. apríl með sérstakri aukaopnun frá 11 til 16  á sýningu á módelum nemenda hverfisskólanna undir stúkunni við Laugardalsvöll. Starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs verður á staðnum til að spjalla við gesti og taka á móti hugmyndum sem verða notaðar við að móta fyrstu tillögur að hverfisskipulagi fyrir Laugarnes-, Langholts- og Vogahverfi.
Fyrir utan forsendur aðalskipulags Reykjavíkur 2040 hefst þessi vinna hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar með auðu blaði og er því leitað til íbúa hverfanna og hagsmunaðila eftir hugmyndum strax í upphafi verkefnisins. Þannig á að verða til hverfisskipulag sem byggir eins og kostur er á óskum íbúa.
Þær pælingar sem berast verða unnar áfram með sérfræðingum borgarinnar og lagðar fram sem vinnutillögur í næstu umferð samráðsins.
Við hjá umhverfis- og skipulagssviðinu vonumst eftir að sjá ykkur sem flest! Raddir íbúa leika lykilhlutverk í þessari vinnu.
Hér má lesa sér til um hvernig samráðsferlinu er háttað.