1.330 börn skoðuðu sýninguna af módelunum

Dagana 28. mars. til 1. apríl heimsóttu 1.330 börn úr hverfisskólunum við Laugardal sýninguna undir stúkunni á Laugardalsvelli. Annars vegar til að skoða módel sem samnemendur þeirra höfðu gert af hverfunum umhverfis dalinn og hinsvegar til að leggja í púkkið sínar hugmyndir um hvernig hægt er að gera hverfin enn betri. Verkefnið er þáttur af samráði Reykjavíkurborgar við íbúa fyrir hverfisskipulag umhverfis Laugardalinn.

Nemendur úr Vogaskóla, Langholtsskóla, Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla smíðuðu módelin og lögðu fram hugmyndir fyrir hverfisskipulagið sem krakkarnir fengu tækifæri til að bæta við í heimsóknum sínum.

Ýmis mál brunnu á krökkunum sem snúa að öryggi þeirra, til dæmis vegna bílaumferðar og hraðaksturs við Sæbraut og Suðurlandsbraut en einnig við Reykjaveg, Langholtsveg og aðrar götur innan hverfanna. Einnig sögðust þau finna til óöryggis á svæðum sem eru fáfarin og illa upplýst á kvöldin eða varhugaverð að öðru leiti að þeirra mati. Þá fannst þeim mikilvægt að tryggja betri lýsingu og snjómokstur á göngustígum, en flest sögðust þau ganga eða hjóla í skóla og frístundastarf.

Hugmyndir nemendanna um bætt hverfi tengjast flestar nærþjónustu. Krakkarnir vilja fá fjölbreyttari og ódýrari verslanir í hverfin. Þau væru til í stærri, flottari og skemmtilegri leikvelli. Ærslabelgur er efstur á óskalistanum, en mörg vilja sjá einn slíkan í sínu næsta nærumhverfi. Börnin lýstu þó almennt yfir ánægju með leiksvæðin í Laugardalnum. Þá sérstaklega Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, sem þau sögðu að að mætti vera opinn lengur og  þeim að kostnaðarlausu. Krakkarnir vilja fá íþróttahús hjá skólunum sínum og bætt íþróttahús hjá Þrótti og Ármanni.

Auk barnanna komu á þriðja hundrað gestir að skoða sýninguna og skildu flestir þeirra eftir tillögur sem verða líka notaðar við að móta fyrstu tillögur að hverfisskipulagi fyrir hverfin þrjú í kringum Laugardalinn.

Frá sýningarstað undir stúkunni við Laugardalsvöll.
Ljósmynd/Bragi Þór Jósefsson.