1.330 börn skoðuðu sýninguna af módelunum

1.330 börn skoðuðu sýninguna af módelunum

Dagana 28. mars. til 1. apríl heimsóttu 1.330 börn úr hverfisskólunum við Laugardal sýninguna undir stúkunni á Laugardalsvelli. Annars vegar til að skoða módel sem samnemendur þeirra höfðu gert af hverfunum umhverfis dalinn og hinsvegar til að leggja í púkkið sínar hugmyndir um hvernig hægt er að gera hverfin enn betri.

Aukaopnun hugmyndaleitar sunnudaginn 3. apríl

Aukaopnun hugmyndaleitar sunnudaginn 3. apríl

Hugmyndaleitinni í hverfunum kringum Laugardalinn verður haldið áfram á sunnudaginn 3. apríl með sérstakri aukaopnun frá 11 til 16 á sýningu á módelum nemenda hverfisskólanna undir stúkunni við Laugardalsvöll.

Hverfisskipulag fyrir Laugarneshverfi, Langholtshverfi og Vogahverfi

Þessi kynningarsíða er byrjunin á viðamiklu samráði við íbúa um gerð hverfisskipulags fyrir borgarhluta 4, sem teygir sig til allra höfuðátta frá Laugardalnum, hjarta Reykjavíkur. Við vonum að sem flest leggi sitt af mörkum til að gera hverfin innan hans enn betri en þau eru nú.

 Sumt ákveðið annað bara pælingar
Efnið sem er hér lagt fram er statt á ýmsum stigum. Sumar hugmyndir eru komnar í farveg, einhverjar eru í skoðun og enn aðrar eru nefndar sem hugsanlegir möguleikar, ekki síst til þess að skapa um þær umræður og fá viðbrögð frá borgarbúum og hagsmunaaðilum. 
Það er sem sagt mikilvægt að hafa í huga að hér eru nefnd verkefni sem eru ýmist á frumhugmyndastigi eða á teikniborðinu.
Ein af meginstoðum hverfisskipulags snýst um heimildir fólks um breytinga á sinni eign (sjá kafla með því nafni). Sama mun gilda þar og í þeim hverfum þar sem hverfisskipulag hefur verið samþykkt nú þegar. Þar hafa margir íbúar fengið nýjar heimildir til viðbygginga og breytinga á fasteignum sínum, svo sem til að byggja kvisti, svalir og viðbyggingar eða fjölga íbúðum í þegar byggðum húsum. Með hverfisskipulagi verða tímafrekar og kostnaðarsamar grenndarkynningar að mestu óþarfar og allt umsóknar- og afgreiðsluferli einfaldara og skilvirkara.

Gömul og ný byggð
Innan borgarhluta 4 eru bæði gamalgróin hverfi og önnur sem eru annað hvort nýrisin eða verið er að reisa. Svæðið markast til vesturs af línu sem dregin er eftir miðri Snorrabraut og til austurs af Elliðaám. Í suður markast borgarhlutinn af línu sem dregin er um eftirtaldar götur en miðað er við miðju þeirra: Hverfisgata, Laugavegur, Suðurlandsbraut, Grensásvegur og Miklabraut. Í norður markast borgarhlutinn af sjó.
Borgarhlutinn skiptist í marga minni hverfishluta sem fela mestmegnis í sér blandaða íbúðabyggð ásamt nokkrum af helstu atvinnusvæði borgarinnar áafmörkuðum svæðum.
Hér eru gróin íbúðarhverfi, Tún, Teigar, Lækir, Laugarás, Sund, Langholt, Heimar og Voga og einnig nýju hverfin á Krikjusandi og í Vogabyggð sem eru risin að hluta.
Fjölmargir uppbyggingarreitir eru svo innan borgarhlutans. Um þá helstu má lesa í kafla sem heitir þróunarsvæði.
Íbúðarhverfin skiptast í þrjú skólahverfi umhverfis Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla, Langholtsskóla og Vogaskóla.

Deildarstjóri Hverfisskipulags segir frá vinnunni við skipulagið
Ævar Harðason
Deildarstjóri Hverfisskipulags
Reykjavíkur.

Íbúafundur með borgarstjóra

Borgarstjóri bauð til opins íbúafundar miðvikudaginn 2. mars kl. 20.00 fyrir íbúa í Laugardal. Á fundinum kynnti borgarstjóri það sem efst er á baugi í hverfinu og átti samtal við íbúa um framtíð hverfisins.
Streymt var frá íbúafundinum  og er allt efni frá honum aðgengilegt á vef borgarinnar:

https://reykjavik.is/ibuafundir/laugardalur

Hugmyndir frá íbúum
Þær hugmyndir sem munu koma fram frá ykkur íbúunum í þessum fasa samráðsins verða unnar áfram af sérfræðingum borgarinnar. Við hverjum ykkur eindregið til að leggja ykkar af mörkum með því að  taka þátt í samráðinu. Saman munu verða til vinnutillögur sem leggja fyrstu drög að framtíðarsýn sem verður síðan unnin áfram á næsta stigi samráðsins.
Á næstu vikum og mánuðum verður kallað eftir tillögum á íbúafundum, í rýnihópum og í vinnu með börnum og ungmennum í skólum hverfanna. Lesa má ítarlegra yfirlit yfir samráðsferlið í kafla hér sem heitir Samráð.

Miðasjá
Sett verður upp sérstök Miðasjá hverfisskipulags fyrir borgarhlutann. Hún heldur utan um alla þá miða sem íbúar hafa sett fram á íbúafundum til að tjá hugmyndir eða skoðanir og verður öllum opin og aðgengileg á vefsvæði hverfisskipulagsins.

Netsamráð
Á meðan á vinnu hverfisskipulagsins stendur veriður íbúum boðið að taka þátt í netsamráði um ýmis mál. Slík netsamráð er þegar hafið um ferðaleiðir og notkun á almenningsrýmum. . 

Hverfisskipulagsráðgjafar
Ráðgjafateymi við gerð hverfisskipulags í Laugardal eru Hjördís Sigurgísladóttir og Dennis Davíð Jóhannesson hjá ARKHD-Arkitektar Hjördís & Dennis og Oddur Hermannsson og Svanhildur Gunnlaugsdóttir landslagsarkitektar hjá Landform.