Grænar áherslur

Í hverfisskipulagi er lögð áhersla á að auka trjágróður og fjölga gróðurkerjum á opnum svæðum. Við uppbyggingu þróunarsvæða verður gætt að gróðurþekju, grasflötum og trjágróðri.

Í borgarhlutanum er að finna sum vinsælustu útivistarsvæði Reykjavíkur. Klambratún laðar að sér fólk allt árið, skjólsælt er við Öskjuhlíðina þar sem fjölmargir stígar eru nýttir til göngu, hlaupa og hjólreiða, sjóbaðsaðstaðan í Nauthólsvík nýtur mikilla vinsælda árið um kring og ylströndin á sólardögum á sumrin. Ríkulegt fuglalíf er í Öskjuhlíð og fjöru Fossvogs en Fossvogsbakkar eru friðlýst náttúruvætti síðan 1999.

Vilji er til að auka hlutfall almenningsrýma; bæði hverfisgarða, dvalarsvæða og svokallaðra kyrrlátra svæða, í öllum hverfum borgarhlutans.
Hlúð verður að upprunalegum gróðri á svæðinu og þess gætt að ekki sé dregið úr gegndræpu yfirborði í hverfinu og að notast sé við ofanvatnslausnir sem skila vatni í jarðveginn þar sem við á.

Í hverfisskipulagi er lögð áhersla á að auka trjágróður og fjölga gróðurkerjum á opnum svæðum

Stefnukort um gæði byggðar
Yfirlitskortið sýnir hvar opin svæði, jafnt hverfisgarðar, leiksvæði og kyrrlát svæði, eru í borgarhluta 5. Einnig hverfistorg og hljóðvarnir, til að bæta hljóðvist innan borgarhlutans.
Kort: Reykjavíkurborg

Hljóðvist bætt í öllum hverfum

Gott aðgengi að opnum svæðum og grænar áherslur í skipulagi stuðla að bættri lýðheilsu borgarbúa. Í hverfisskipulaginu er stefnt að því að setja skilmála til að skilgreina og styrkja opin svæði í sessi, s.s. hverfisgarða, dvalar- og leiksvæði og sérstök kyrrlát svæði, auka gegndræpt yfirborð, vernda gróður fyrir ónauðsynlegu raski og styðja við frekari gróðurrækt á lóðum og borgarlandi.

Í vinnutillögunum er einnig lögð áhersla á að efla hverfisanda og samfélagsvitund með hverfistorgum eða -görðum víðs vegar um hverfin. Þessi svæði gætu jafnframt verið vettvangur fyrir ýmsar uppákomur, s.s. árstíðabundin markaðstorg og staðir fyrir list í almenningsrými, sem skapað getur ný kennileiti innan hverfanna.

Úrgangur og flokkun

Undanfarin ár hefur verið mikil áhersla á aukna sorpflokkun og endurnýtingu. Á næstu árum má gera ráð fyrir að enn frekari kröfur verði gerðar til flokkunar við heimili og vinnustaði til að lágmarka það magn sem fer til urðunar.
Fram komu skýrar raddir í samráðinu við íbúa og hagsmunaaðila í upphafi hverfisskipulagsvinnunnar að setja þyrfti upp fleiri grenndarstöðvar fyrir endurvinnslu og stuðla að frekari sorpflokkun hjá bæði almenningi og fyrirtækjum.
Stefnukort um orku og auðlindir
Kortið sýnir meðal annars tillögur að hleðslustæðum fyrir rafbíla, stæði fyrir deilibíla og staðsetningu grenndarstöðva. Þegar smellt er á kortið er hægt að skoða stærri útgáfu af því.

Djúpgámar
Í vinnutillögum hverfisskipulagsins eru kynntir skilmálar sem eiga að auðvelda flokkun á heimilum og vinnustöðum. Þeir fela í sér að á öllum lóðum verður heimilt að byggja skýli, gerði eða geymslu innan lóðarinnar fyrir úrgang.
Við fjölbýlishús og atvinnuhúsnæði verður einnig heimilt að koma fyrir gámum á yfirborði eða djúpgámum. Jafnframt er lögð áhersla á að koma upp djúpgámum á grenndarstöðvum miðlægt í hverfum, í tengslum við endurhönnun á borgargötum hverfanna. 

 

Helstu staðir eru:

Háteigshverfi
Á bílastæði Kjarvalsstaða við Flókagötu.
Við Holtatorg á horni Skipholts og Einholts.
Við Bólstaðarhlíð.

Hlíðahverfi
Á Horni Eskihlíðar og Mjóuhlíðar.
Á bílastæði við austurenda Hamrahlíðar.
Við Suðurhlíð beint á móti Klettaskóla.

Öskjuhlíðarhverfi
Á hverfistorgi við Flugvallarveg.

Grenndarstöð með djúpgámum
Mynd: Dagný Bjarnadóttir
Grenndarstöð með  flokkunargámum ofanjarðar. Um 85 prósenrt íbúa í Reykjavík hafa aðgengi að grenndarstöðvum í 500 metra fjarlægð frá heimili sínu eða minna.
Mynd: Dagný Bjarnadóttir

Borgarbúskapur
Búið er í haginn fyrir borgarbúskap og matjurtarækt íbúa á borgarlandi og á eigin lóðum í takt við áherslur um sjálfbærni og vistvænni hverfi. Óskað er eftir hugmyndum íbúa um borgarbúskap á borgarlandi.
https://skjol.hvsk.is/leidbeiningar/Leidb-Hvsk-Borgarbuskapur.pdf

Óskað er eftir hugmyndum íbúa um borgarbúskap á borgarlandi

Hleðslustöðvar fyrir rafbíla
Aðstæður til notkunar vistvænna orkugjafa verða bættar með hleðslustöðvum fyrir rafbíla á borgarlandi.

Gróðurbrú eða svokallað vistlok yfir Kringlumýrarbraut við Veðurstofuhæð myndi tengja Hlíðar og Leitin með grænu útivistarsvæði. Bílaumferðin væri með óbreyttu sniði þar fyrir neðan.
Mynd: Rán Flygenring

Vistlok við Veðurstofuhæð

Sýnd er hugmynd að svokölluðu vistloki yfir Kringlumýrarbraut við Veðurstofuhæð. Vistlok er græn brú, klædd gróðri með göngustígum. Þetta myndi gjörbreyta ásýnd svæðisins og tengingu Hlíða við Leitin.
Vistlok, sem einnig má kalla náttúrubrýr, búa til græna tengingu milli hverfa og borgarhluta og bæta þannig til muna göngu- og hjólatengingar, auka við græn svæði og draga úr loft- og hljóðmengun frá þungri umferð.
Fyrirmyndir að vistlokum má finna víða erlendis, meðal annars á Norðurlöndunum þar sem þau hafa verið notuð til að tengja borgarhluta sem áður voru klofnir af hraðbrautum.

Vistlok búa til græna tengingu milli hverfa og borgarhluta, auka við græn svæði og draga úr loft- og hljóðmengun frá þungri umferð

Svona gæti mögulegt vistlok yfir Kringlumýrarbraut við Veðurstofuhæð litið út. Vistlok er græn brú, klædd gróðri með göngustígum. Þetta myndi gjörbreyta ásýnd svæðisins og tengingu Hlíða við Leitin.
Mynd: Hverfisskipulag