Vistvænni
samgöngur

Helstu samgöngutengingar milli hverfa í Háaleiti-Bústöðum verða skilgreindar í hverfisskipulaginu ásamt tengingum við aðliggjandi borgarhluta

Samgöngur eru mál málanna í Háaleiti-Bústöðum. Miklar umferðargötur, með tilheyrandi umferðarþunga, liggja bæði umhverfis borgarhlutann og í gegnum hann. Fram hefur komið í samráðsferli með íbúum og hagsmunaaðilum að bættar tengingar hverfishluta væru lykilatriði fyrir samfélagið. Markmið hverfisskipulagsins er að finna lausnir sem auka öryggi og lífsgæði íbúanna og draga úr umferðarmengun og hávaða.

Þessar áherslur eru í takt við stefnu Reykjavíkurborgar og samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að styrkja almenningssamgöngur og göngu- og hjólainnviði til að gera íbúum kleift að nota vistvæna samgöngumáta. Styrking nærþjónustu í hverfum borgarinnar, í þægilegu göngufæri fyrir flesta íbúa, getur einnig minnkað álag á gatnakerfið og stuðlað samhliða að heilsueflingu.

Markmið hverfisskipulagsins er að finna lausnir sem auka öryggi og lífsgæði íbúanna og draga úr umferðarmengun og hávaða

Stefnukort um samgöngur
Yfirlitskort yfir helstu samgönguleiðir í borgarhluta 5, Háaleiti-Bústöðum, og lykilstöðvar og leiðir almenningssamgangna.
Kort: Reykjavíkurborg.

Almenningssamgöngur

Áhersla er lögð á gott almenningssamgöngukerfi. Lykilstöðvar og leiðir almenningssamgangna eru sýndar á stefnukorti hverfisskipulags um samgöngur fyrir borgarhlutann. Jafnframt skal áréttað að útfærsla leiðarkerfis Strætó fellur ekki undir verkefni hverfisskipulagsins.

Til framtíðar munu Strætó og Borgarlínan mynda heildstætt leiðanet almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Sjá nánar hér.

 

Til framtíðar munu Strætó og Borgarlínan mynda heildstætt leiðanet almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu

Borgarlína við Miklubraut 2029
Uppbygging Borgarlínunnar er langtímaverkefni. Borgarlínuleiðum á að fjölga jafnt og þétt á tímabili samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og gera þær áætlanir ráð fyrir að árið 2029 verði tenging um Miklubraut orðin að veruleika.
Kort: borgarlinan.is

Borgargötur eru lykilgötur

Hugmyndir um borgargötur og fegrun göturýma, s.s. Fellsmúla, Háaleitisbrautar og Bústaðavegar, féllu í góðan jarðveg hjá íbúum og hagsmunaaðilum í samráðsferlinu í upphafi hverfisskipulagsvinnunnar. Samkvæmt þeim hugmyndum sem er verið að skoða í  vinnutillögunum verða borgargötur lykilgötur innan hvers hverfis, með  tengingar við helstu verslunar- og þjónustusvæði innan hverfis og tengingar við önnur hverfi.

Orðið borgargata í hverfisskipulagi vísar til göturýmis þar sem hús, gata og opin rými mynda órofa heild en aðstæður geta þó verið mjög ólíkar á milli hverfa. Borgargötur skulu njóta forgangs þegar kemur að endurhönnun og fegrun hverfa. Áhersla er lögð á að gera vistvænum ferðamátum hátt undir höfði við borgargötur og að aðgengi allra sé tryggt, óháð hreyfigetu. Við þær eru oft hverfiskjarnar með fjölbreyttri nærþjónustu og hverfistorg og almenningsrými eru jafnan hönnuð í tengslum við borgargötur. Tímabundin starfsemi, líkt og matarvagnar og/eða torgsala, verður heimiluð við borgargötur.

Áhersla er lögð á að gera vistvænum ferðamátum hátt undir höfði við borgargötur og að aðgengi allra sé tryggt óháð hreyfigetu

Borgargötur
Við borgargötur er iðandi mannlíf og fólk ferðast gangandi, hjólandi, í bílum og með almenningssamgöngum.
Mynd: DLD – Dagný Land Design ehf.

Háaleiti-Múlar: Gert er ráð fyrir borgargötu við Háaleitisbraut en hlutverk Háaleitisbrautarinnar er sérstaklega mikilvægt vegna miðlægrar legu hennar og mikils göturýmis. Þar verður lagt upp úr því að skapa græna og vistvæna umgjörð. Sjá nánar í kaflanum Grænar áherslur.

Leiti-Gerði: Háaleitisbraut og Listabraut verða borgargötur hverfisins, jafnframt því sem hverfið liggur að tveimur öðrum borgargötum; Bústaðavegi og Grensásvegi.

Bústaða- og Smáíbúðahverfi: Fjórar borgargötur eru skilgreindar í hverfinu. Sogavegur og Réttarholtsvegur eru innan hverfisins en Bústaðavegur og Grensásvegur í jaðri þess.

Fossvogshverfi-Grófir: Bústaðavegurinn verður eina borgargata hverfisins og verður mikið lagt upp úr að skapa þar bæði vistvæna umgjörð og öryggi fyrir alla sem verða þar á ferðinni.

Væntingar eru um að þessar borgargötur en sérstaklega þó Bústaðavegur, milli Bústaðakirkju og Grímsbæjar, verði sem vítamínsprauta fyrir hverfin og borgarhlutann í heild.

Borgargatan Bústaðavegur

Bústaðavegurinn var íbúum sérstaklega hugleikinn í samráðsferlinu í upphafi hverfisskipulagsvinnunnar, ekki síst vegna þeirra fjölmörgu barna sem þvera hann daglega vegna skóla-, íþrótta- og tómstundastarfs. Ýmsar tillögur voru viðraðar, s.s. setja veginn að hluta til í stokk, gera undirgöng eða brýr eða draga verulega úr umferð á þessari mikilvægu samgönguæð sem heilu hverfin nota til að komast í og úr vinnu!

Þær hugmyndir sem ráðgjafar hverfisskipulagsins leggja fram hér um Bústaðaveg eru liður í áframhaldandi samráði við íbúa. Þær miða að því að færa götuna í hlutverk borgargötu sem verði umferðaræð fyrir alla ferðamáta. Þar á að flétta íbúðabyggð, verslun, þjónustu og atvinnustarfsemi saman við sterkan hverfiskjarna í Grímsbæ. Jafnframt á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá götunni, bæta lýsingu, lækka umferðarhraða í 40 km á klukkustund og auka umferðaröryggi almennt, m.a. með stórbættum tengingum milli hverfa og öruggum samgöngum bæði gangandi og hjólandi. Þar verður sérstaklega tekið tillit til barna, ekki síst vegna skóla- og frístundastarfs, sem og eldri borgara, sjónskertra og hreyfihamlaðra.

Götutré og bílastæðavasar eiga að gefa götunni fallegan heildarblæ og sérstök áhersla er lögð á að bæta loftgæði og hljóðvist til að efla almenna lýðheilsu og auka lífsgæði íbúanna. Aukinn gróður mun veita meira skjól, afmarka rými og ýta undir fjölbreytileika vistkerfa, ásamt því að fegra umhverfið. Sjá nánar um uppbyggingu við Bústaðaveg undir Þróunarsvæði.

Bústaðavegur við Grímsbæ
Tillaga ráðgjafa hverfisskipulags að betri tengingu hverfanna og fjölgun íbúða á svæðinu í kjölfar þess að Bústaðavegur verði borgargata.
Teikning: Jakob Jakobsson arkitekt.

Hleðslustæði, deilibílar og grenndarstöðvar

Við borgargötur á að byggja upp ýmsa innviði sem styrkt geta vistvæna ferðamáta. Grenndarstöðvum með djúpgámum verður komið fyrir við borgargötur, nærri hverfiskjörnum, svo þær séu í þægilegri göngufjarlægð og á svæðum sem margir eiga erindi um reglulega. Einnig verður lögð áhersla á að koma fyrir hleðslustöðvum og stæðum fyrir deilibíla við borgargöturnar.

Stefnukort um orku og auðlindir
Hverfisskipulagið gerir ráð fyrir stöðvum deilibíla í öllum hverfum borgarhlutans, ásamt hleðslustöðvum á lykilstöðum innan hverfanna til að stuðla að vistvænni ferðamáta íbúa.
Kort: Reykjavíkurborg

Tengingar milli hverfa

Áhersla er lögð á það í vinnutillögunum að koma á tengingum yfir þær stofnbrautir og umferðargötur sem umlykja borgarhlutann, annars vegar í heild sinni og hins vegar hverfahlutana fjóra, sem er í takt við ábendingar úr samráði við íbúa og hagsmunaaðila. Öryggi vegfarenda er í fyrirrúmi og mikilvægt að koma fyrir greiðum og öruggum tengingum yfir þessar brautir fyrir bæði gangandi og hjólandi umferð, s.s. með göngu- og hjólabrúm, undirgöngum og ljósastýrðum gangbrautum og gatnamótum.

Bústaða- og Smáíbúðahverfi: Samhliða breytingum á Bústaðavegi í borgargötu er stefnt að bættum tengingum við Grímsbæ milli Fossvogshverfis og Bústaða- og Smáíbúðahverfisins þar sem öruggar samgöngur gangandi og hjólandi eiga að vera í öndvegi. Sérstaklega á að taka tillit til barna, m.a. vegna skóla- og frístundastarfs, sem og eldri borgara, sjónskertra og hreyfihamlaðra. Þar er ætlunin að búa til stórt torg framan við hverfiskjarnann Grímsbæ, sem á að teygja sig yfir Bústaðaveginn og mynda sólríka setpalla og garðrými norðan megin götunnar. Enn fremur eru í hverfisskipulaginu hugmyndir um tengingar yfir í Kringlu, Leiti og Gerði, ásamt tengingum yfir í Elliðaárdal, til að auka umferðaröryggi.

Háaleiti-Múlar: Hverfið afmarkast af Suðurlandsbraut að norðan, Grensásvegi að austan, Miklubraut að sunnan og Kringlumýrarbraut að vestan og er talið mikilvægt að koma fyrir greiðum og öruggum tengingum yfir þessar brautir fyrir bæði gangandi og hjólandi. Það má gera með ýmsu móti, s.s. göngu- og hjólabrúm og ljósastýrðum gangbrautum.

Leiti-Gerði: Byggðin í Leitum og Gerðum afmarkast einnig af stofnbrautum á alla vegu; Miklubraut að norðan, Grensásvegi að austan, Bústaðavegi að sunnan og Kringlumýrarbraut að vestan. Yfir þessar brautir þarf líka að koma fyrir greiðum og öruggum tengingum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur með bæði göngu- og hjólabrúm og ljósastýrðum gangbrautum segir í vinnutillögum hverfisskipulagsins og er áréttað sérstaklega að þar sem slíkar tengingar fari yfir borgargötu skuli gera ráð fyrir vistvænni umgjörð.

Fossvogshverfi: Lögð er áhersla á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum þeirra stóru umferðaræða sem slíta borgarhlutann í sundur. Þetta eru tengingar yfir í Bústaða- og Smáíbúðahverfi, yfir í Öskjuhlíð, austur í Elliðaárdal og suður í Kópavog. Jafnframt er lögð áhersla á að tengja hverfið betur öðrum hverfum borgarhlutans með bættu göngu- og hjólastígakerfi, ekki síst vegna skóla- og frístundastarfs. Þá eru áform um að tengja aðkomu að nýrri sundlaug í dalnum við göngu- og hjólastígakerfi hverfisins og þar með við borgarhlutann í heild.

Göngu- og hjólastígar

Á undanförnum árum hefur hlutur hjólreiða farið mjög vaxandi í Reykjavík samhliða markvissri uppbyggingu innviða. Lega megingöngu- og hjólastíga Háaleitis-Bústaða kemur fram á Stefnukorti um samgöngur. Byggt er að mestu á Hjólareiðaáætlun Reykjavíkurborgar 2021–2025 og horft til þess að stígarnir tengist stígum aðliggjandi borgarhluta.

Í vinnutillögunum er áhersla lögð á að stuðla að auknu öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda með því að bæta göngu- og hjólaleiðir, bæði innan og milli hverfa, eins og kallað var eftir í samráðsferlinu með íbúum og hagsmunaaðilum. Einnig er horft til þess að bæta hjóla- og gönguleiðir milli nærliggjandi borgarhluta þar sem eru þjónustusvæði sem íbúar sækja, s.s. Kringlan og Skeifan, sem og grænna svæða eins og Laugardalsins, Elliðaárdalsins og Öskjuhlíðar. Þessum markmiðum verður m.a. náð fram með:

  • Göngu- og hjólatengingum frá Vegmúla yfir Suðurlandsbraut að Laugardal.
  • Göngustíg frá græna svæðinu milli Háaleitis og Síðumúla um Selmúla að Suðurlandsbraut þar sem er gert ráð fyrir göngu- og hjólastíg yfir í Laugardal.
  • Göngu- og hjólabrú yfir Kringlumýrarbraut að verslunar- og þjónustukjarna við Skipholt.
  • Göngu- og hjólatengingu frá Múlahverfi yfir í Skeifu.
  • Göngu- og hjólastígum milli Háaleitis og Múla og Leita og Gerða, annars vegar um undirgöng og hins vegar um brú.
  • Jafnframt verði göngu- og hjólaleiðir í alla aðliggjandi borgarhluta um ljósastýrð gatnamót.

Í tillögum að skilmálum hverfisskipulagsins kemur einnig fram að við skóla, verslun, þjónustu og annað atvinnuhúsnæði skuli fjöldi og fyrirkomulag hjólastæða vera samkvæmt gildandi bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkur.

Áhersla er lögð á að gera vistvænum ferðamátum hátt undir höfði við borgargötur og að aðgengi allra sé tryggt óháð hreyfigetu