Þróunarsvæði

Í Háaleiti-Bústöðum hafa nokkur svæði verið afmörkuð sem þróunarsvæði þar sem þó nokkur uppbygging er fyrirhuguð. Slík svæði er betra að þróa og skilgreina í hefðbundnu deiliskipulagi sem síðar má sameina hverfisskipulagi viðkomandi hverfis

Allmargir stærri uppbyggingareitir eða þróunarsvæði í Háaleiti-Bústöðum falla samkvæmt skilgreiningu utan verksviðs hverfisskipulagsins. Hér eru stuttlega kynntir þeir reitir sem lengst eru komnir í þróun og einnig ný áhugaverð þróunarsvæði sem eru afrakstur af vinnu ráðgjafa hverfisskipulagsins.

Allmargir stærri þróunarreitir eru samkvæmt skilgreiningu utan verksviðs hverfisskipulagsins

Bústaðavegur við Grímsbæ
Það er hugmynd ráðgjafa hverfisskipulagsins að gera svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi að sérstöku þróunarsvæði þar sem þjónusta og íbúðabyggð verði efld, samtímis því sem götunni verði breytt í borgargötu.
Mynd: Bragi Þór Jósefsson.

Bústaðavegur

Til að tryggja betur öruggar tengingar milli hverfa og gera um leið austurhluta Bústaðavegar meira aðlaðandi er það hugmynd ráðgjafa hverfisskipulagsins að gera svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi að sérstöku þróunarsvæði þar sem þjónusta og íbúðabyggð verði efld, samtímis því sem götunni verði breytt í borgargötu. Þetta er liður í samráði við íbúa um framtíðarhlutverk og fyrirkomulag þessarar miklu samgönguæðar í borgarhlutanum, sem er þannig tekin út fyrir ramma hverfisskipulagsins.

Þegar hefur verið ákveðið að lækka hámarkshraða á Bústaðavegi í 40 km/klst. og með því að gera hann að borgargötu skapast líka tækifæri til að fjölga þar íbúðum að mati ráðgjafa hverfisskipulagsins og búa til heildstæða götumynd með auknu umferðaröryggi, íbúum, vegfarendum og umhverfinu til heilla.

Aukið mannlíf og betri landnýting

Verði þessi áform að veruleika hefur það í för með sér aukið mannlíf á svæðinu og betri nýtingu lands sem er nú lagt undir veghelgunarsvæði og ónýtt jaðarsvæði. Stefnt er að því að fjölga búsetutækifærum og auka fjölbreytni íbúðagerða á svæðinu og vera með verslunar- og þjónusturými á jarðhæðum í bland við íbúðarhúsnæði. Hugmyndir eru um að reist verði viðbygging sunnan við Grímsbæ, þar sem t.d. mætti koma fyrir kaffihúsi, en margir íbúar kölluðu eftir slíkri þjónustu í fyrra samráðsferli hverfisskipulagsins.

Tillaga ráðgjafa hverfisskipulagsins er að svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi verði þróunarsvæði þar sem bæði þjónusta og íbúðabyggð verði efld

Bústaðavegur við Grímsbæ
Hugmynd ráðgjafa hverfisskipulagsins að breyttu skipulagi við Grímsbæ.
Myndir: Jakob Jakobsson arkitekt og Trípólí arkitektar.

Ný hús tækju mið af núverandi byggð

Verði þær heimildir nýttar sem lagðar eru til í vinnutillögum hverfisskipulagsins getur nýjum íbúðum fjölgað umtalsvert innan þéttingarreitanna meðfram Bústaðaveginum. Horft er til þess að nýju byggingarnar tækju mið af núverandi byggð, fléttuðust inn í byggðarmynstrið, jafnframt því sem skjólgóð garð- og útisvæði yrðu til. Þannig gætu tveggja til þriggja hæða fjölbýlishús raðast sitt hvoru megin við borgargötuna Bústaðaveg og myndað heildsteypta götumynd. Stuðst yrði við blágrænar ofanvatnslausnir og landhalli til suðurs opnar möguleika á að vera með bílskýli og þakgarða í nýju byggingunum. Íbúðir yrðu fjölbreyttar að stærð og gerð og gætu hentað öllum hópum, s.s. námsfólki, ungu fólki og fyrstu kaupendum, sem gætu nálgast mest af daglegum nauðsynjavörum innan hverfisins.

Miklabraut yfir Háaleiti

Möguleg uppbygging við Miklubraut og Háaleitisbraut
Hugmyndir ráðgjafa hverfisskipulagsins um frekari uppbyggingu við borgargötuna Háaleitisbraut og Miklubraut sem breiðstræti með Borgarlínu.
Teikning: Jakob Jakobsson arkitekt.

Þegar hverfisskipulagsvinnunni var hleypt af stokkunum voru kynntar hugmyndir um að þétta byggðina meðfram Miklubraut með því að heimila byggingu fjölbýlishúsa á auðum svæðum á þróunarreit við Miklubraut og á horni Miklubrautar og Háaleitisbrautar. Samfara slíkri byggðarþéttingu myndi skapast svigrúm til að hlúa enn frekar að þjónustu og starfsemi sem er á svæðinu núna, þannig að sem flestir íbúar geti verið í 15–20 mínútna göngufjarlægð frá sem fjölbreyttastri þjónustu og verslun.

Þessar hugmyndir fengu almennt góðar undirtektir meðal íbúa í Háaleiti-Múlum á rýnifundum og því hafa ráðgjafar hverfisskipulagsins unnið áfram með þessa hugmynd, sem tengist einnig áformum um og breyta Háaleitisbraut í borgargötu með grænum svæðum sem fléttist eins og „trefill“ saman við almenningsrými götunnar. Þar er svo hugmyndin að hægt yrði að bjóða upp á götulist, þjónustu, verslun og vistvæna ferðamáta, bæði íbúum, vegfarendum og umhverfinu öllu til heilla.

Hljóðvist í íbúðum næst Miklubraut er ekki góð

Staðan er sú í dag að bílaumferð um Miklubraut er gífurleg. Hún er verulegur farartálmi fyrir umferð gangandi og hjólandi vegfarenda en á sama tíma nauðsynleg meginflutningsæð bílaumferðar, sem sést etv. best á því að á þeim kafla sem hér er til umfjöllunar fara um 46.000 til 52.000 ökutæki á sólarhring.

Áréttað skal einnig að samkvæmt samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á að setja Miklubraut í stokk frá Snorrabraut austur fyrir Kringlu en Miklabrautin er umferðarþyngsta gata landsins. Ofanjarðar verður götunni breytt í borgargötu og skapað rými fyrir borgarlínu í sérrými, akstursleiðir fyrir bíla og góða göngu- og hjólastíga beggja vegna götunnar.

Með því að byggja á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar, eins og vinnutillögur ráðgjafa hverfisskipulags sýna, má bæta hljóðvist verulega fyrir íbúa á svæðinu. Nýju byggingarnar gætu verið hávaðaskermar, byggðar með afbragðs hljóðvörnum sem hæfa staðsetningunni, samtímis sem þær gætu myndað skjólsæla og sólríka inngarða í skjóli fyrir norðanáttinni. Í nýju byggingunum gæti verið blanda af íbúða- og atvinnuhúsnæði  með mikilvæga þjónustukjarna eins og Austurver og Miðbæ í næsta nágrenni. Stutt er í Kringluna og Skeifan er einnig í göngufæri með mikla þjónustu. Þá gæti hluti af mögulegri uppbyggingu orðið á veghelgunarsvæðum, á svæðum sem ekki verður þörf fyrir eftir að meginumferð bíla er komin í stokk eða jarðgöng.

Miklabraut við Háaleiti
Sniðmyndirnar sýna núverandi aðstæður og breytinguna.
Mynd: Trípólí arkitektar.

500 nýjar íbúðir

Lausleg samantekt sýnir að á svæðinu í kringum gatnamót Háaleitisbrautar og Miklubrautar mætti koma fyrir um 80.000 m² í þriggja til fimm hæða byggingum. Ef helmingur húsnæðisins yrði nýttur fyrir íbúðir mætti koma þar fyrir um 500 nýjum íbúðum. Afganginn af nýbyggingunum, eða um 40.000 m², mætti nýta í atvinnuhúsnæði, verslanir og hótel.

Áréttað skal jafnframt að blanda af íbúðum og atvinnustarfsemi stuðlar að vistvænni byggð þar sem fleiri geta búið í næsta nágrenni við vinnustaði. Nýja byggðin hefði mjög gott aðgengi að samgöngum og væri í göngufæri við mikilvæga þjónustu. Gert er ráð fyrir að bílastæðum fyrir byggingarnar yrði komið fyrir í bílakjöllurum, eins og sýnt er að sniðmyndinni. Fleiri kostir gætu líka fylgt slíkri þéttingu byggðar. Þar má t.d. nefna samfélagslegar framfarir og jákvæð áhrif á vistkerfið, aukna samnýtingu innviða, s.s. vega- og veitukerfa, skóla og almenningssamgangna og þar með betri nýtingu fjármuna fyrir alla. Loks má geta þess að í samráðsferli með íbúum og hagsmunaaðilum í upphafi hverfisskipulagsvinnunnar komu fram hugmyndir um að nýta mætti svæði meðfram Miklubraut til bygginga, m.a. til að bæta hljóðvist.

Öruggari tengingar milli hverfa og borgarhluta

Tillaga ráðgjafa hverfisskipulagsins um Háaleitisbraut sem græna borgargötu yfir Miklubraut er einnig liður í öruggari tengingum, bæði á milli hverfa og borgarhluta. Tillagan gerir líka ráð fyrir því að Miklubraut verði breytt í vistlegt breiðstræti á þessum kafla með Borgarlínu og minni umferðarþunga en nú er, sem væri jákvætt fyrir bæði uppbyggingu þjónustu við nærumhverfið og fjölgun íbúða á svæðinu.

Hugmyndir eru um að heimila byggingu fjölbýlishúsa á auðum svæðum á þróunarreit við Miklubraut og á horni Miklubrautar og Háaleitisbrautar

Hugmyndir um Miklubraut í stokk
Ekki hefur verið unnið áfram í hverfisskipulagsvinnunni með hugmyndir um að leggja Miklubraut í stokk upp fyrir Grensásveg, eins og hugmyndir voru sýndar um í fyrsta samráðsferlinu. Þau áform eru skipulagslega utan við verksvið hverfisskipulagsins og merkt sem þróunarsvæði á stefnukorti um samfélag fyrir Háaleiti-Bústaði.
Að lokum skal áréttað að Miklabraut, milli Snorrabrautar og Háaleitisbrautar, liggur í gegnum hverfi með um 17 þúsund íbúum og ef þessi hluti götunnar yrði settur í stokk í framtíðinni yrði mögulegt að tengja umrædd hverfi mun betur saman en nú er.
Mynd: Reykjavíkurborg.

Kringlureitur

Kringlusvæðið er þróunareitur utan hverfisskipulags. Þar vinna Reitir í samstarfi við Reykjavíkurborg að þróun borgarkjarna með blöndu íbúða, verslana, þjónustu og afþreyingar á grundvelli rammaskipulags sem var samþykkt árið 2018.

Rammaskipulag Kringlusvæðisins
Rammaskipulagið gerir ráð fyrir reitaskiptingu sem fellur vel að hefðbundnu byggðamynstri borgarinnar og skapar sterka heild.
Mynd: Kanon arkitektar.

Reiknað er með að uppbygging geti hafist innan fárra ára og gera áætlanir ráð fyrir að allt svæðið byggist upp á 10–15 árum. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir um 350–400 íbúðum og rúmlega 50.000 m² af nýbyggingum. Borgarlínustöðvar verða staðsettar við Kringlumýrarbraut og Miklubraut og þjóna Kringlusvæðinu og nálægri byggð í framtíðinni.

Múlar-Orkureitur

Reitir og Reykjavíkurborg hafa í samstarfi lýst yfir vilja um uppbyggingu á svokölluðum Orkureit, á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar og upp að Ármúla. Reiturinn er utan verksviðs hverfisskipulags en áætlanir gera ráð fyrir að uppbygging geti hafist á árinu 2022.

Orkureiturinn
Verðlaunatillaga ALARK arkitekta í skipulagssamkeppni um reitinn árið 2019 gerir ráð fyrir um 450 íbúðum ásamt um 6.000 m² af atvinnuhúsnæði.
Mynd: ALARK arkitektar

Lóðin er um 26.000 m² og gert er ráð fyrir að lágreist bakhús á miðri lóð víki fyrir 4–8 hæða nýbyggingum í borgarmiðuðu skipulagi en gamla Rafmagnsveituhúsið fær virðingarsess á lóðinni. Uppbyggingin verður í anda húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar og er svæðið vel staðsett með tilliti til fyrirhugaðrar Borgarlínu.