Styrking
hverfiskjarna
Stórir kjarnar með fjölbreyttri þjónustu og verslun eru innan borgarhlutans og í jaðri hans, s.s. Kringlan og Skeifan. Á móti kemur að hverfisverslanir eru svo til horfnar úr sumum hverfum eða þjónustan hefur minnkað frá því sem var áður. Í vinnutillögum hverfisskipulagsins eru settar fram hugmyndir um að snúa þessari þróun við og hefja hverfiskjarna í borgarhlutanum til vegs og virðingar, ekki síst til að auka verslun og þjónustu í göngufæri fyrir sem flesta íbúa.

Hugmyndir eru um að hefja hverfiskjarna í borgarhlutanum til vegs og virðingar og auka verslun og þjónustu í göngufæri fyrir sem flesta íbúa
Miðbær við Háaleitisbraut
Miðbær við Háleitisbraut er helsti þjónustukjarninn í Háaleiti og Múlum. Hugmyndir eru um það í vinnutillögum hverfisskipulagsins að efla þá nærþjónustu sem er til staðar í hverfinu og reisa meira af þjónustu- og verslunarhúsnæði við hlið hans, milli Safamýrar og Miklubrautar.
Þessi áform eru í takt við hugmyndir sem settar eru fram i vinnutillögunum um að þétta byggðina meðfram Miklubraut með því að heimila byggingu fjölbýlishúsa á auðum svæðum á þróunarreit við Miklubraut og á horni Miklubrautar og Hááleitisbrautar.
Samfara slíkri þéttingu myndi skapast svigrúm til að hlúa að fjölbreyttari þjónustu, sem yrði í einungis 15-20 mínútna göngufjarlægð við fjölmarga íbúa. Hverfiskjarninn í Miðbæ myndi einnig njóta góðs af þessari þróun með tilheyrandi styrkingu verslunar og annarrar nærþjónustu í göngufæri. Þessar hugmyndir falla einnig vel að áformum um Háaleitisbraut sem borgargötu með grænum svæðum sem eiga að fléttast saman við almenningsrými götunnar.
Samfara þéttingu skapast svigrúm til að hlúa að fjölbreyttari þjónustu sem yrði í einungis 15-20 mínútna göngufjarlægð við fjölmarga íbúa
Austurver við Háaleitisbraut
Fá hverfi eru jafn vel sett með nærþjónustu og Leita- og Gerðahverfi, sem liggur upp að verslunar- og þjónustusvæði Kringlunnar.
Engu að síður er lögð áhersla á það í vinnutillögum hverfisskipulagsins að styrkja nærþjónustu í Austurveri. Hugmyndir eru um að stuðla að frekari uppbyggingu í nærumhverfi verslunarmiðstöðvarinnar, t.d. með fjölgun íbúða meðfram Háleitisbraut. Einnig er vilji til þess að stuðla að frekari styrkingu nærþjónustu við Grensásveg með því að leggja til frekari uppbyggingu á reitnum.
Þá eru hugmyndir um að heimila torg- og götusölu á nokkrum stöðum í hverfinu, þ. á m. í borgargötunni Háleitisbraut.
Í vinnutillögum hverfisskipulagsins er lögð áhersla á að styrkja nærþjónustu í Austurveri
Sogavegur-Réttaholtsvegur
Vonir standa til að hægt verið að auka framboð á verslun og þjónustu í Bústaða- og Smáíbúðahverfinu, s.s. á horni Sogavegar og Réttarholtsvegar.
Mynd: Reykjavíkurborg.
Sogavegur – Réttarholtsvegur
Vegna nálægðar við Skeifu og Kringlu er aðgengi að fjölbreyttri verslun og þjónustu í Bústaða- og Smáíbúðahverfi þokkalegt ef þjónustan er sótt keyrandi. Nálægðin við þessa stóru verslunar- og þjónustukjarna hefur jafnframt haft í för með sér að þjónusta í göngufæri innan hverfisins hefur minnkað umtalsvert frá því sem var fyrir nokkrum áratugum og hverfaverslanir eru svo til horfnar, nema þá helst á horni Sogavegar og Réttarholtsvegar.
Vonir standa til þess að með vinnutillögum hverfisskipulagsins að hægt verði að snúa vörn í sókn og auka framboð á verslun og þjónustu við borgargöturnar fjórar í hverfinu; Sogaveg og Réttarholtsveg innan hverfisins og Bústaðveg og Grensásveg á jöðrum þess.
Tillögur eru líka um að torg- og götusala verður leyfð á nokkrum stöðum innan hverfisins, m.a. til að efla hverfisanda og samfélagsvitund.
Vonir standa til þess að með vinnutillögum hverfisskipulagsins verði framboð aukið á verslun og þjónustu við Sogaveg og Réttarholtsveg
Hverfiskjarninn Grímsbær
Kjarninn er staðsettur sunnan Bústaðavegar og þjónar bæði Fossvogi og Bústaðahverfi.
Mynd: Bragi Þór Jósefsson.
Grímsbær við Bústaðaveg
Í Bústaðahverfi og Fossvogi er auðvelt að sækja þjónustu ef farið er akandi í Skeifu og Kringlu en auk þess er hverfiskjarninn Grímsbær í Fossvogi og þjónar hann sömuleiðis Bústaðahverfi norðan götunnar.
Hugmyndir eru um það í vinnutillögum hverfisskipulagsins að styrkja hverfiskjarnann við Grímsbæ til að auka fjölbreytta þjónustu í göngufæri, samhliða breytingu Bústaðavegar í borgargötu, og gefa honum mun meira vægi með endurbættri umgjörð og umhverfisúrbótum.
Horft er m.a. til þess að búa til skemmtilegt torg í kringum Grímsbæ þar sem hægt væri að standa fyrir ýmsum uppákomum sem efldu hverfisanda og samfélagsvitund, eins og margir komu inn á í samráðsferlinu á fyrri stigum við íbúa og hagsmunaaðila. Þar gætu t.d. verið árstíðabundin markaðstorg og einnig mætti koma fyrir list í almenningsrými, sem gæti skapað ný kennileiti innan hverfisins.
Í hugmyndum að vinnutillögum hverfisskipulagsins er gert ráð fyrir að heimilt verði að byggja viðbyggingu sunnan við Grímsbæ, jafnvel einhverskonar glerhýsi, sem gæti t.d. hýst skemmtilegt gróður- og kaffihús. Það er mat ráðgjafanna að það gæti orðið afar vinsæll viðkomustaður íbúa hverfisins og gesta, enda var sérstaklega kallað eftir kaffihúsi á þessum stað í fyrra samráðsferli með íbúum.
Tillögur eru líka um að í Fossvogshverfi verði götu og torgsala heimil við Skógarveg, einnig í borgargarðinum í Fossvogsdal og við Traðarland/Víkingsheimilið.
