Samráð við íbúa

Hugmyndir að vinnutillögum að hverfisskipulagi fyrir Háaleiti-Bústaði byggja á umfangsmiklu samráði á fyrri stigum við íbúa í borgarhlutanum, jafnt unga sem aldna og hugmyndum, ábendingum og áherslum sem þar komu fram

Vinna við hverfisskipulag fyrir einstaka borgarhluta hófst árið 2013 og byggir á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Fyrsta verkefni var að greina stöðu og visthæfi allra hverfa í borginni með aðkomu frá færum skipulagsráðgjöfum sem valdir voru í sérstöku forvali í upphafi vinnunnar. Niðurstöður þessa starfs voru síðan notaðar til að móta fyrstu tillögur um úrbætur í hverfunum til að bera undir íbúa og fá fram skoðanir þeirra á sínu nærumhverfi.

Ýmsum aðferðum hefur verið beitt til að fá fram sjónarmið sem flestra íbúa

Skapandi samráð
Nemendur í grunnskólum borgarhlutans unnu módel af sínu hverfi.
Myndir: Reykjavíkurborg

Skapandi samráð

Ýmsum aðferðum hefur verið beitt til að fá fram sjónarmið sem flestra íbúa. Í samstarfi við alla hverfisskóla í Háaleiti-Bústöðum voru nemendur í 6. bekk fengnir til að smíða módel af sínu hverfi og tóku fleiri hundruð börn þátt í þessari vinnu sem nefnd er Skapandi samráð. Þessi módel voru notuð á opnum íbúafundum til að ræða stöðuna. Á íbúafundunum voru einnig kynnt drög að tillögum um viðkomandi hverfi og íbúum gefinn kostur á að koma með eigin hugmyndir.

Saman mynduðu hugmyndir íbúa, ásamt tillögum skipulagssérfræðinga, drög að framtíðarsýn sem var rædd á sérstökum rýnihópafundum sem Gallup hélt utan um. Til rýnifundanna var boðað með slembiúrtaki íbúa Háleitis-Bústaða sem tryggði jafna dreifingu þátttakenda eftir aldri og kyni. Allar hugmyndir sem fram komu voru skráðar í stafrænan kortagrunn, Miðasjá, og eru þær aðgengilegar öllum á heimasíðu hverfisskipulagsins. Í þessu rýniferli var ýmsum hugmyndum skipulagssérfæðinga um nýtingu ákveðinna svæða hafnað. Þær hugmyndir voru því ekki hafðar með þegar þær hugmyndir að vinnutillögum að nýju hverfisskipulagi voru mótaðar, sem nú eru til kynningar. 

Hér má lesa meira um:

Aðferðarfræðina við samráðsferlið
Borgarhluti 5 Hááleiti-Bústaðir – Íbúaþátttaka og samráð
Miðasjá hverfisskipulags