Hverfissundlaug
í Fossvogsdal

Humgyndir að vinnutillögum hverfisskipulags fyrir Háaleiti-Bústaði gera ráð fyrir hverfissundlaug  miðsvæðis í Fossvogsdal, nálægt Fossvogsskóla og Snælandsskóla. Það er í samræmi við fyrirliggjandi viljayfirlýsingu Reykjavíkur og Kópavogs sem samþykkt var í báðum sveitarfélögunum í mars 2021

Eindregnar óskir komu fram um sundlaug í Háaleiti-Bústöðum í samráðsferlinu með íbúum þegar vinna við hverfisskipulagið hófst. Sundlaug verður bæði kennileiti í borgarhlutanum og mun líka styrkja staðaranda og hverfisvitund íbúa. Þó skiptar skoðanir hafi verið um heppilega staðsetningu töldu flestir Fossvogsdalinn ákjósanlegastan fyrir sundlaug, tiltölulega miðsvæðis og með góðri samgöngutengingu fyrir jafnt hjólandi, gangandi og akandi.

Fossvogslaug verður góð viðbót við flóru þeirra almenningssundlauga sem eru þegar starfræktar á höfuðborgarsvæðinu en endanleg staðsetning sundlaugarinnar er sameiginlegt verkefni Reykjavíkur og Kópavogs.

Efnt verður til hönnunar- og skipulagssamkeppni um Fossvogslaug með áherslu á umhverfisvæna hönnun jafnframt því sem vistvænar áherslur og útfærslur, þar með talið græn fjármögnun, verði hafðar að leiðarljósi við þróun verkefnisins og framkvæmdir.

Fossvoglaug verður góð viðbót við flóru þeirra almenningssundlauga sem eru þegar starfræktar á höfuðborgarsvæðinu

Grænar áherslur

Áætlað er að aðgengi að Fossvogslaug verði einkum fyrir gangandi og hjólandi, sem er í takt við græna hugmyndafræði verkefnisins, en þó þannig að nýta megi bílastæði í nágrenninu, s.s. við skólabyggingar. Aðstæður í dag styðja vel við þessa grænu hugmyndfræði því hjólreiðar hafa aukist verulega og unnið er að betri almenningssamgöngum.

Samkvæmt niðurstöðum sameiginlegs starfshóps sveitarfélaganna á sundlaugin að vera að lágmarki 25 metra löng og 12,5 metra breið. Þar á að kenna skólasund á vegum bæði Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar, jafnframt því sem hún nýtist sem hverfissundlaug fyrir íbúa beggja vegna við Fossvogsdal.

Framkvæmdin hefur ekki verið tímasett en það verður gert þegar hönnun og endanleg kostnaðaráætlun liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að kostnaður skiptist til helminga á milli sveitarfélaganna, óháð endanlegri staðsetningu.

Hönnunarsamkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands

Til að kalla fram bestu lausnir fyrir Fossvogslaug ætla sveitarfélögin að efna sameiginlega til hönnunarsamkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Skipa á undirbúningshóp sveitarfélaganna til að leggja grunn að keppnislýsingu. Þá verður gengið frá breytingum á skipulagi beggja sveitarfélaga þegar niðurstaða hönnunarsamkeppni Fossvogslaugar liggur fyrir en sveitarfélögin hafa í sameiningu undirbúið heildarskipulagningu dalsins.

Hverfissundlaugin
Fossvogsdalur er talinn ákjósanlegasti staðurinn fyrir sameiginlega sundlaug Reykjavíkur og Kópavogs en endanleg staðsetning hennar hefur ekki verið ákveðin.
Mynd: Reykjavíkurborg
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson.
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson.