Grænar og
vistvænar áherslur
Háaleiti-Bústaðir nýtur þess að á jaðri borgarhlutans eru stór opin svæði á borð við Fossvogsdal, Elliðaárdal og Laugardal. Aðgengi að grænum svæðum er misgott eftir hverfum, þó svo innan þeirra sé að finna græn svæði, bæði lítil sem stór og hvert með sinn karakter. Ný byggð sem lögð eru drög að í hverfisskipulagi er að langmestu leyti innan svæða þar sem þegar hefur verið gert ráð fyrir uppbyggingu í aðalskipulagi eða á svæðum sem illa nýtast til útivistar, s.s. meðfram umferðargötum.
Vilji er til að auka hlutfall almenningsrýma; bæði hverfisgarða, dvalarsvæða og svokallaðra kyrrlátra svæða, í öllum hverfum borgarhlutans.

Ný byggð er að langmestu leyti innan svæða þar sem þegar hefur verið gert ráð fyrir uppbyggingu í aðalskipulagi eða á svæðum sem nýtast illa til útivistar

Almenningsrými
Gott aðgengi að opnum svæðum og grænar áherslur í skipulagi stuðla að bættri lýðheilsu borgarbúa. Í hverfisskipulaginu er stefnt að því að setja skilmála til að skilgreina og styrkja opin svæði í sessi, s.s. hverfisgarða, dvalar- og leiksvæði og sérstök kyrrlát svæði. Einnig á að auka á gegndræpt yfirborð, vernda gróður fyrir ónauðsynlegu raski og styðja við frekari gróðurrækt á lóðum og borgarlandi.
Í vinnutillögunum er einnig lögð áhersla á að efla hverfisanda og samfélagsvitund með hverfistorgum eða -görðum víðs vegar um hverfin. Þessi svæði gætu jafnframt verið vettvangur fyrir ýmsar uppákomur, s.s. árstíðabundin markaðstorg og staðir fyrir list í almenningsrými, sem skapað getur ný kennileiti innan hverfanna.
Hverfisgarðar geta verið vettvangur fyrir ýmsar uppákomur og staði fyrir list í almenningsrými og skapað ný kennileiti innan hverfanna
Hverfisgarður og byggð á Framsvæðinu
Ætlunin er að efna til hugmyndasamkeppni um blandaða íbúðabyggð og hverfisgarð á Framsvæðinu við Safamýri.
Mynd: Reykjavíkurborg
Hverfisgarður á Framsvæði
Háaleitis- og Múlahverfi er í dag langt undir viðmiðunargildum borgarinnar um græn svæði og almenningsrými.
Haldin verður samkeppni um útfærslu Framsvæðisins og verða forsendur hennar m.a. settar með hliðsjón af samráði í hverfisskipulagi. Gert er ráð fyrir blandaðri byggð á svæðinu í samræmi við tillögur í viðauka við aðalskipulag 2010–2040 um íbúðauppbyggingu á svæðinu að hluta. Þar kemur fram að svæðið verði skilgreint sem blönduð byggð; íbúðir, verslun og þjónusta og útivistarsvæði/almenningsgarður.
Grænt belti í Fellsmúla og trefill á Háaleitisbraut
Í hverfisskipulaginu er rík áhersla lögð á að styrkja og efla fjölbreytileika almenningsrýma og sem liður í þeirri framtíðarsýn er „græna beltið“ milli Fellsmúla og Ámúla og „græni trefillinn“ á Háaleitisbraut.
Svæðið milli Fellsmúla og Ármúla
Vinnutillögur hverfisskipulagsins gera ráð fyrir að skipulag svæðisins frá Fellsmúla að Ármúla verði bætt og það gert að hverfisgarði.
Mynd: Bragi Þór Jósefsson.
Græna beltið
Svæðið milli Fellsmúla og Ármúla er skilgreint í vinnutillögum hverfisskipulagsins sem hverfisgarður með viðeigandi grænum innviðum og er ætlunin að styrkja hann sem útivistarsvæði allan ársins hring. Garðurinn yrði þá eins konar hryggjarstykki hverfisins, sem myndi binda það saman og tengja það við önnur hverfi og borgarhluta.
Útivistarmöguleikar myndu aukast með þessum breytingum, m.a. með skiptingu svæðisins upp í misstór garðrými sem hvert um sig fengi sitt yfirbragð og hlutverk. Þarna myndu þá m.a. verða vel búin dvalar- og leiksvæði, svæði til matjurtaræktunar og kyrrlát svæði til íhugunar og hvíldar, í bland við stærri náttúruleg rými.
Gætt yrði að náttúruminjum, s.s. klettabeltinu sem þarna er og mikilvægar jarðmyndanir dregnar fram sem kennileiti hverfisgarðsins. Gróður þarf að velja af kostgæfni og áhersla yrði lögð á upprunalegan gróður, fjölbreytt vistkerfi og lífríki sem og blágrænar ofanvatnslausnir.
Horft yrði jafnframt til þess að bæta tengingar milli hverfa með góðum, öruggum og vel upplýstum göngu- og hjólastígum. Bekkir og önnur útigögn yrðu staðsett á sérhönnuðum áningarstöðum og setja mætti upp upplýsingskilti um náttúrufar, sögu og lífríki svæðisins.
Á mótum Ármúla, Síðumúla og Vegmúla er hugmyndir um að gera hverfistorg sem mætti nota fyrir ýmiss konar uppákomur, sem aftur ættu að geta styrkt staðaranda og eflt hverfisvitund, bæði íbúa og annarra sem sækja garðinn heim.
Svæðið milli Fellsmúla og Ármúla er skilgreint í vinnutillögum hverfisskipulagsins sem hverfisgarður með viðeigandi grænum innviðum
Borgargata og grænn trefill
Háaleitisbrautin í dag. Miðlæg lega hennar og breidd göturýmisins skapar mikla möguleika í endurhönnun hennar sem borgargötu og grænnar lífæðar innan borgarhlutans.
Mynd: Reykjavíkurborg.
Græni trefillinn
Háaleitisbrautin skipar einnig veglegan sess í vinnutillögum hverfisskipulagsins varðandi græn svæði. Horft til þess að tré og gróður fléttist eins og „trefill“ saman við spennandi og fjölbreytt almenningsrými borgargötunnar þar sem jafnframt verði hægt að bjóða upp á götulist, þjónustu, verslun og vistvæna ferðamáta – íbúum, vegfarendum og umhverfinu öllu til heilla.
Kyrrlát svæði, hverfistorg og fleira
Grundargerðisgarður
Helsta almenningsrýmið í Bústaða- og Smáíbúðahverfinu.
Myndir: Bragi Þór Jósefsson.

Græn svæði í borgarhlutanum hafa mörg hver þegar verið styrkt og þeim skapað markvisst hlutverk, s.s. leiksvæði, dvalarsvæði, kyrrlát svæði, hverfisgarðar, matjurtagarðar o.fl. Í vinnutillögunum er lögð áhersla á aukna borgarskógrækt, bæði innan borgarhlutans og í jöðrum hans. Fjölga á trjám og planta runnagróðri til skjólmyndunar, fegrunar, rýmismyndunar og sem mótvægisaðgerð gegn sjónrænum áhrifum stórra umferðaræða.
Í Leitum og Gerðum er hverfistorgið framan við Grensáskirkju nokkuð vel staðsett. Í nýju rammaskipulagi fyrir Kringluna er einnig gert ráð fyrir torgum, sem íbúar í hverfinu munu einnig hafa aðgang að.
Grundargerðisgarðurinn er helsta almenningsrýmið í Bústaða- og Smáíbúðahverfinu. Lagt er til í vinnutillögunum að á grænum ás, sem teygir sig frá Fossvogsdalnum upp að hitaveitustokknum, verði útbúið fjölbreytt almenningsrými fyrir alla aldurshópa sem geti bæði eflt staðaranda og aukið lífsgæði íbúa. Einnig eru settar fram hugmyndir um að gera hitaveitustokkinn, sem liggur frá gömlu hitaveitutönkunum í Öskjuhlíð upp í gegnum Bústaðahverfi yfir í Elliðaárdal, að útivistarsvæði og nýju kennileiti borgarhlutans. Sjá sérfumjöllun: Hitaveitustokkurinn.
Fossvogsdalur er eini borgargarðurinn sem tengist Háaleiti-Bústöðum beint. Í hugmyndum að hverfisskipulagi eru m.a. settar fram tillögur um að framlengja garðinn áfram til vesturs og bæta jafnframt tengingar við útivistarsvæðið við Öskjuhlíðina. Einnig er settar fram hugmyndir um gerð hverfistorga á tveimur stöðum við Bústaðaveg, annars vegar hjá Grímsbæ og hins vegar hjá Póló-sjoppunni, til móts við Bústaðakirkju.
Í vinnutillögunum er lögð áhersla á aukna borgarskógrækt, bæði innan borgarhlutans og í jöðrum hans

Kyrrlát svæði
Margs konar ávinningur er af kyrrlátum svæðum í þéttbýli sem eru alla jafnan innan opinna og grænna svæða. Þau mega ekki vera útsett fyrir hávaða yfir tilskildum mörkum (50 dB) og geta einnig stutt við líffræðilega fjölbreytni innan borgarmarkanna.
Mynd: DLD – Dagný Land Design ehf.
Hljóðvist bætt í öllum hverfum
Meðfram Miklubraut austan til eru hljóðmanir sem draga úr umferðahávaða og eru hugmyndir um að bæta hljóðvist þar enn frekar með vegg fram með íbúðabyggðinni við Kringlumýrarbraut, Miklubraut og Reykjanesbraut. Einnig á að leggja áherslu á aukna borgarskógrækt, bæði innan borgarhlutans, en ekki síður á jöðrum hans, sem gæti þá verið hluti mótvægisaðgerða til að draga úr umhverfisáhrifum stórra umferðaræða.
Vistlok – Náttúrubrú
Í vinnu við hverfisskipulag hafa komið fram hugmyndir um að búa til svokölluð vistlok yfir umferðarþungar götur, þar sem aðstæður leyfa. Vistlok, sem einnig má kalla náttúrubrýr, búa til græna tengingu milli hverfa og borgarhluta og bæta þannig til muna göngu- og hjólatengingar, auka við græn svæði og draga úr loft- og hljóðmengun frá þungri umferð.
Fyrirmyndir að vistlokum má finna víða erlendis, m.a. á Norðurlöndunum þar sem þau hafa verið notuð til að tengja borgarhluta sem áður voru klofnir af hraðbrautum. Hér er sýnd hugmynd að vistloki yfir Kringlumýrarbraut við Veðurstofuhæð.
Vistlok búa til græna tengingu milli hverfa og borgarhluta, auka við græn svæði og draga úr loft- og hljóðmengun frá þungri umferð
Vistlok við Kringlumýrarbraut
Til vinstri er loftmynd af svæðinu eins og það er í dag. Til hægri má sjá hvernig hægt væri að útfæra vistlok við Kringlumýrarbraut.
Myndir: Hverfisskipulag, unnar skv. tillögum skipulagsráðgjafa.
Úrgangur og flokkun
Undanfarin ár hefur verið mikil áhersla á aukna sorpflokkun og endurnýtingu. Á næstu árum má gera ráð fyrir að enn frekari kröfur verði gerðar til flokkunar við heimili og vinnustaði til að lágmarka það magn sem fer til urðunar.
Fram komu skýrar raddir í samráðinu við íbúa og hagsmunaaðila í upphafi hverfisskipulagsvinnunnar að setja þyrfti upp fleiri grenndarstöðvar fyrir endurvinnslu og stuðla að frekari sorpflokkun hjá bæði almenningi og fyrirtækjum
Grenndarstöðvar í borgarhlutanum
Nýjar grenndarstöðvar í Háaleiti-Bústöðum og aðrar stöðvar en stöðin við Grímsbæ verða með gámum á yfirborði og skjólgirðingar byggðar í kringum stöðvararnar á hverjum stað.
Teikning: Reykjavíkurborg.
Aukin áhersla hefur verið á sorpflokkun og endurnýtingu og á næstu árum má gera ráð fyrir að enn frekari kröfur verði gerðar til flokkunar við heimili og vinnustaði
Djúpgámar
Í vinnutillögum hverfisskipulagsins eru kynntir skilmálar sem eiga að auðvelda flokkun á heimilum og vinnustöðum. Þeir fela í sér að á öllum lóðum verður heimilt að byggja skýli, gerði eða geymslu innan lóðarinnar fyrir úrgang.
Við fjölbýlishús og atvinnuhúsnæði verður einnig heimilt að koma fyrir gámum á yfirborði eða djúpgámum. Jafnframt er lögð áhersla á að koma upp djúpgámum á grenndarstöðvum miðlægt í hverfum, í tengslum við endurhönnun á borgargötum hverfanna.
