Styrking
hverfiskjarna

Mikilvægur þáttur í hverfisskipulagi Breiðholts er að styrkja hverfiskjarna og efla nærþjónustu í göngufæri fyrir íbúa. Það hefur jákvæð áhrif á mannlífið og hverfin verða líflegri og eftirsóknarverðari búsetukostur

Hverfin þrjú í Breiðholti eru almennt vel sett hvað varðar aðgengi að fjölbreyttri verslun og þjónustu, m.a. vegna nálægðar við Mjóddina. Þó er talsvert minni nærþjónusta innan Seljahverfis en innan Efra- og Neðra-Breiðholts.

Í Mjódd er stefnt að frekari uppbyggingu með atvinnuhúsnæði og nýjum íbúðum sem mun auka verslun og þjónustu enn frekar. Um er að ræða umfangsmiklar breytingar sem ekki verða útfærðar í hverfisskipulagi heldur er gert sérstakt deiliskipulag fyrir þróunarsvæði í Mjódd.

Breiðholt er almennt vel sett með aðgengi að  verslun og þjónustu vegna nálægðar við Mjódd. Minni nærþjónusta er í Seljahverfi en í Efra- og Neðra-Breiðholti

Í samráðsferli hverfisskipulagsins voru hverfiskjarnarnir í öllum hverfum suðupottur hugmynda og athugasemda frá íbúum. Óskir komu fram um margvíslega verslun og þjónustu sem fólk vill hafa í þægilegu göngufæri. Að sama skapi var víða kallað eftir eftir endurbótum á húsnæði og umhverfi sumra kjarnanna, sem mega muna fífil sinn fegurri.

Arnarbakki
Núverandi staða við Arnarbakka. Tillögur um styurkingu hverfiskjarnans hafa verið samþykktar.
Mynd: Bragi Þór Jósefsson.

Neðra-Breiðholt

Nærþjónusta í Neðra-Breiðholti er í kjarnanum við Arnarbakka. Samþykkt hefur verið að styrkja kjarnann með því að fjarlægja gömlu húsin og reisa nýjar byggingar með verslun og þjónustu á hluta jarðhæða og námsmannaíbúðum á efri hæðum. Allt umhverfi kjarnans verður endurbætt og búið til hverfistorg sem tengist við borgargötu hverfisins. Nýju byggingarnar í hverfiskjarnanum verða alls um 12.000 m².

Nýbyggingar við Arnarbakka og bætt umhverfi og hverfistorg munu styrkja hverfiskjarnann


Arnarbakki – nýtt skipulag svæðisins

Skipulag svæðisins við Arnarbakka tók töluverðum breytingum í hverfisskipulagssamráðinu, m.a. í kjölfar athugasemda sem fram komu í hverfisskipulagskynningunni sumarið 2020.
Mynd: Basalt arkitektar.

Nýbyggingar aðlagaðar að byggðinni

Á kynningartíma hverfisskipulagsins sumarið 2020 bárust allnokkrar athugasemdir við Arnarbakkatillögurnar, sem flestar tengdust hæð fyrirhugaðra húsa og þakformi og áformum um byggingu fjölnotahúss á Bakkatúni. Í samþykktu skipulagi svæðisins hefur verið tekið tillit til þessara athugasemda. Var m.a. fallið frá byggingu fjölnotahúss á Bakkatúni og hugmyndum um matjurtagarða norðan við kjarnann. Jafnframt var bæði hæð bygginganna og þakform  aðlagað betur að byggðinni sem fyrir er.

Arnarbakki – útlit nýju bygginganna
Horft í átt að nýju hverfiskjarnahúsunum til vinstri. Útivistarsvæði og gönguleiðir á svokölluðu Bakkatúni, austan við hverfiskjarnann á mynd til hægri.
Myndir: Basalt arkitektar.

Seljahverfi

Þéttleiki byggðarinnar í Seljahverfi er mun minni en í öðrum hverfum Breiðholtsins og verslun og þjónusta ekki í þægilegu göngufæri fyrir stóran hluta íbúa. Tvær matvöruverslanir eru í austurjaðri hverfisins en enginn eiginlegur hverfiskjarni er miðlægt í Seljahverfi.

Í hverfisskipulaginu er lögð áhersla á að byggja upp sterka hverfismiðju við Rangársel og Hólmasel með áherslu á verslun og þjónustu á jarðhæðum, íbúðir á efri hæðum og góð tengsl við opin svæði í kring.

Áhersla er lögð á að byggja upp sterka hverfismiðju við Rangársel og Hólmasel

Seljahverfi
Núverandi staða við Rangársel og Hólmasel. Samþykkt hefur verið að svæðið verði sérstakt þróunarsvæði, til að auðlvelda uppbyggingu þess sem hverfismiðju Seljahverfisins.
Mynd: Reykjavíkurborg

Rangársel-Hólmasel er þróunarsvæði

Á kynningartíma vinnutillagna hverfrisskipulagsins sumarið 2020 bárust allnokkrar ábendingar við áform um uppbyggingu hverfismiðju við Rangársel. Sneru þær m.a. að aukinni umferð um svæðið, gengið yrði á opin svæði og að fyrirhuguð starfsemi myndi ekki þrífast. 

Allar athugasemdir, sem bárust voru sendar skipulagsráðgjöfum til efnislegrar skoðunar og í framhaldinu var ákveðið að gera umrætt svæði að sérstöku þróunarsvæði. Þetta þýðir að í hverfisskipulagi eru ekki gefnar heimildir fyrir uppbyggingu svæðisins, heldur gert ráð fyrir að tillögur verði þróaðar í sérstöku deiliskipulagi. Þannig gefist meiri tími til að þróa hugmyndirnar í samráði við hagsmunaaðila og íbúa og í takt við áherslur aðalskipulags Reykjavíkur.

Búast má við að í deiliskipulagsvinnu svæðisins verði hugað að eftirfarandi þáttum:

– Borgargötu við Rangársel og Hólmasel með hverfistorgi, grenndarstöð og deilibílum og rafhleðslustöð.

– Landnýting verði bætt með nýjum byggingarheimildum. Þar verði talsverð fjölgun íbúða, aðallega á efri hæðum.

– Atvinnustarfsemi verði í hluta húsnæðis.

– Aðstaða fyrir samfélagsþjónustu verði bætt.

– Horft verði til óska skátanna um húsnæði á svæðinu.

Þróunarsvæðið við Rangársel
Rangársel-Hólmasel er nú skilgreint sem þróunarsvæði og hverfiskjarni í hverfisskipulagi. Svæðið er um 47 þúsund m² að stærð, sjá mynd til vinstri.  Teikning til hægri sýnir hvernig uppbygging gæti mögulega orðið á svæðinu.
Myndir: Reykjavíkurborg og Jakob Jakobsson arkitekt.

Efra-Breiðholt

Í Efra-Breiðholti eru tveir meginkjarnar fyrir nærþjónustu, Fellagarðar við Eddufell og Hólagarður.

Segja má að miðja hverfisins sé hins vegar við Gerðuberg-Hraunberg og Austurberg þar sem tengjast margar af helstu þjónustustofnunum hverfisins: Menningarhúsið Gerðuberg, bókasafn, sundlaug, heilsugæslustöð, frístundamiðstöð, framhaldsskóli o.fl., í bland við verslun og aðra þjónustu.

Við Gerðuberg og Austurberg er miðja Efra-Breiðholts og borgarhlutans í heild sinni

Efra-Breiðholt
Núverandi staða við Austurberg sem styrkt  verður sem hverfiskjarni og miðja Breiðholtsins.
Mynd: Reykjavíkurborg.

Gerðuberg-Austurberg

Í hverfisskipulaginu er stefnt að því að styrkja Gerðuberg-Austurbeg sem miðju Efra-Breiðholts og Breiðholtsins í heild sinni. Það verður gert með auknu framboði á atvinnu- og íbúðarhúsnæði til að auka jafnvægi í fjölda íbúða og atvinnutækifæra.

Í grófum dráttum verður landnýting á svæðinu bætt með því að heimila nýbyggingar og viðbyggingar við eldra húsnæði meðfram borgargötunni Austurbergi og Gerðuberg og Hraunberg. Gert er ráð fyrir að íbúðum geti fjölgað talsvert í nýbyggingum og viðbyggingum á lóðum fjölbýlishúsa við Austurberg og að næst verslunarkjarnanum við Hraunberg og Gerðuberg verði atvinnurými á jarðhæðum en íbúðir á efri hæðum. Almenningsrými og torgsvæði verða hönnuð og endurskilgreind samhliða uppbyggingunni og í tengslum við endurhönnun borgargötunnar við Austurberg.

 

Gerðuberg-Austurberg
Hér er sýnt hvernig auka má framboð á bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði til að styrkja þessa miðju Efra-Breiðholtsins og hverfiskjarnann þar. Byggingar sem eru þegar á svæðinu eru hvítar en mögulegar viðbyggingar og nýjar byggingar eru í ljósrauðum lit.
Teikning: Jakob Jakobsson arkitekt

Dans- og fimleikahús

Gert er ráð fyrir að við Gerðuberg verði dans- og fimleikahús, sem verði miðstöð fyrir dans og aðrar tengdar greinar í Reykjavík og styrki menningar-, mennta- og íþróttamiðju hverfisins við borgargötuna Austurberg.

Á svæðinu er þegar til staðar menningarmiðstöðin Gerðuberg, frístundamiðstöðin Miðberg, tónlistarskóli, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og sundlaug, ásamt fleiri íþróttamannvirkjum. Þar er einnig hverfistorgið Markúsartorg sem áformað er að styrkja enn frekar. Jafnframt á Breiðholtsleggur Borgarlínunnar að fara þarna um í framtíðinni.

Horft er til þess að allar tegundir af dansi fái að njóta sín í dans- og fimleikahúsinu, sem á að þjóna bæði íbúum í Breiðholti og borginni allri. Með áherslu á fjölbreytta dansiðkun á slíkt hús að styrkja enn frekar hið fjölþjóðlega samfélag í borginni.

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti

Í kjölfar viðræðna við menntamálaráðuneyti, skólayfirvöld FB og Framkvæmdasýslu ríkisins í tengslum við vinnu hverfisskipulagsins var því slegið föstu að uppbygging á aðstöðu fyrir skólann verði samkvæmt samþykktum  skipulagsheimildum við Hraunberg 8. Auk þess fær skólinn auknar heimildir til að byggja á núverandi bílastæði á lóð sinni við Austurberg. Í staðinn verður bílastæðum komið fyrir í kjallara nýbyggingarinnar.

Lóð Fjölbrautaskólans í Breiðholti
Myndin sýnir tillögur sem voru samþykktar vorið 2021 og heimila m.a. að reisa tvær skemmur neðan við skemmuna efst til hægri á myndinni.
Myndir: Jakob Jakobsson arkitekt.

Eddufell-Völvufell

Við Eddufell og Völvufell verður farið í umfangsmikla endurnýjun. Eldri byggingar munu víkja að hluta og nýtt húsnæði verða reist, m.a. fyrir sameinaðan leikskóla Fellahverfis, stúdentagarða og íbúðir í raðhúsum syðst á svæðinu. Áfram verður verslun og þjónusta við Fellagarða og heimildir eru fyrir íbúðum á efri hæðum verslana.

Umfangsmikil endurnýjun er fyrirhuguð við Eddufell og Völvufell 

Eddufell-Völvufell
Teikningin sýnir samþykktar tillögur fyrir endurnýjun Eddufells-Völvufells, með breytingum sem gerðar voru í kjölfar samráðs við íbúa.
Teikning: Krads arkitektar.
Eddufell-Völvufell
Myndin til vinstri sýnir fyrirhugað leikskólasvæði og myndin til hægri sýnir fyrirhugaðar byggingar við Drafnarfell.
Myndir: Krads arkitektar.

Hólagarður

Hólagarður, ásamt aðliggjandi leikskólalóðum og óbyggðu svæði þar austur af, er skilgreindur sem þróunarsvæði í hverfisskipulagi Efra-Breiðholts. Það þýðir að ekki eru að svo stöddu gefnar heimildir fyrir uppbyggingu svæðisins. Í staðinn er gert ráð fyrir að þar verði þróað sérstakt deiliskipulag á næstu misserum. Með þessu fyrirkomulagi gefst betra tækifæri til að þróa hugmyndir fyrir svæðið í samráði við hagsmunaaðila og íbúa og í takt við áherslur í aðalskipulagi Reykjavíkur.

Hólagarður
Núverandi staða við Hólagarð í Efra-Breiðholti.
Mynd: Reykjavíkurborg.

Búast má við að í deiliskipulagsvinnu svæðisins verði hugað að eftirfarandi þáttum:

– Verslun og þjónusta verði áfram á jarðhæðum við Hólagarð en íbúðir og atvinnuhúsnæði heimilað í ofaná- eða nýbyggingum.

– Hæðafjöldi bygginga við verslunarkjarnann verði 3-5 hæðir.

– Bílageymslu verði komið fyrir neðanjarðar og nýtt hverfistorg í tengslum við verslunarkjarna hannað á þaki geymslunnar.

Hólagarður ásamt aðliggjandi svæðum er skilgreindur sem þróunarsvæði í hverfisskipulaginu