Samráð við íbúa

Hverfisskipulag Breiðholts er afrakstur ítarlegasta kynningar- og samþykktarferlis sem ráðist hefur verið í vegna borgarskipulags á Íslandi

Vinna við hverfisskipulag Breiðholts hófst árið 2013 og byggir á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040.

Fyrsta verkefni var að greina stöðu og visthæfi hverfa borgarhlutans  með aðstoð færustu skipulagsráðgjafa, sem valdir voru í sérstöku forvali í upphafi vinnunnar.

Niðurstöður þessa starfs voru síðan notaðar til að móta fyrstu tillögur um úrbætur í hverfunum til að bera undir íbúa og fá fram skoðanir þeirra á sínu nærumhverfi.

 

Ýmsum aðferðum hefur verið beitt til að fá fram sjónarmið sem flestra íbúa

Samráð frá öllum hliðum – kynningarmyndband

Skapandi samráð

Ýmsum aðferðum hefur verið beitt til að fá fram sjónarmið sem flestra íbúa í Breiðholti í vinnu sem nefnd er Skapandi samráð.

Í fyrsta fasa samráðsins var komið á samstarfi við alla hverfisskólana. Voru nemendur í 6. bekk fengnir til að smíða módel af sínu hverfi og tóku fleiri hundruð börn þátt í þeirri vinnu. Þessi módel voru síðan notuð á opnum íbúafundum í Breiðholti til að ræða stöðuna. Á íbúafundunum voru kynnt drög að tillögum um skipulag hverfisins og íbúum gefinn kostur á að koma með eigin hugmyndir. Saman mynduðu hugmyndir íbúa, ásamt tillögum skipulagssérfræðinga, drög að framtíðarsýn sem var rædd á rýnihópafundum sem Gallup hélt utan um. Til rýnifundanna var boðað með slembiúrtaki íbúa Breiðholts, sem tryggði jafna dreifingu þátttakenda eftir aldri og kyni.

Niðurstöður rýnihópanna voru notaðar til að móta vinnutillögur að nýju hverfisskipulagi. Í þessum hluta samráðsferlisins var strax ýmsum hugmyndum skipulagssérfæðinga um nýtingu ákveðinna svæða hafnað, þannig að þær voru ekki teknar með í áframhaldandi tillögugerð. Allar hugmyndir sem fram komu voru skráðar í stafrænan kortagrunn, Miðasjá, og eru þær aðgengilegar öllum á heimasíðu hverfisskipulagsins.

Kynning á vinnutillögum og lokatillögum

Annar fasi samráðsins við íbúa hófst í ágúst 2020 þegar var efnt til kynningar á vinnutillögum á hverfisskipulagi Breiðholts á vef hverfisskipulags og kallað eftir athugasemdum og ábendingum íbúa og almennings. Jafnframt var sett upp kynning á tillögunum, bæði í Gerðubergi og Mjódd, þar sem starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs var til staðar til að ræða hugmyndirnar og taka á móti athugasemdum íbúa. Enn fremur var efnt til gönguferða um Breiðholtið með íbúum þar sem einnig var tekið á móti ábendingum og tillögur ræddar. Þessum kafla samráðsferlisins lauk með opnum íbúafundi sem var streymt á netinu.

Ýmsar athugasemdir sem komu fram í þessu viðamikla og opna samráðsferli leiddu til umtalsverðra breytinga á hverfisskipulagstillögunum, áður en þriðji og síðasti fasi samráðsins fór fram sumarið 2021. Þá voru lokatillögur hverfisskipulags fyrir Breiðholt kynntar á sýningu í Mjódd með viðveru starfsfólks og ráðgjafa umhverfis- og skipulagssviðs. Einnig var haldinn kynningarfundur í Gerðubergi sem sendur var út í streymi og kynningarsíða hverfisskipulagsins uppfærð í takt við lokatillögurnar. Öllum gafst tækifæri til að koma með ábendingar við skipulagstillögurnar til og með 31. ágúst 2021.

Þær ábendingar voru hafðar til hliðsjónar þegar gengið var frá endanlegum tillögum hverfisskipulagsins í kynningar- og samþykktarferli hjá borgaryfirvöldum. Þegar samþykkt borgaryfirvalda lá fyrir var hverfisskipulagið, ásamt fygiskjölum, sent Skipulagsstofnun til yfirferðar. Hverfisskipulag fyrir Breiðholt hefur nú tekið formlega gildi, enda hefur það verið samþykkt af borgaryfirvöldum og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, eins og mælt er fyrir um í skipulagslögum.

Lesa má meira um aðferðafræðina við samráðsferlið hér.