Grænar og
vistvænar áherslur

Í hverfisskipulaginu er lögð áhersla á græna og vistvæna byggð í Breiðholti, í takt við áherslur Reykjavíkurborgar um sjálfbær og vistvæn hverfi. Reynt er eftir fremsta megni að halda í núverandi græn svæði og efla hverfisanda og samfélagsvitund íbúa

Breiðholt nýtur þess að í jaðri borgarhlutans eru stór opin svæði á borð við Elliðaárdal og Vatnsendahæð sem nýtast vel til útivistar, auk þess sem innan hverfanna eru mörg græn svæði, lítil sem stór og hvert með sitt yfirbragð.

Ný byggð samkvæmt hverfisskipulaginu er að langmestu leyti innan svæða þar sem þegar hefur verið gert ráð fyrir uppbyggingu í aðalskipulagi eða á svæðum sem nýtast illa til útivistar, s.s. meðfram umferðargötum og á bílastæðum. 

Breiðholt nýtur þess að þar eru stór opin svæði á borð við Elliðaárdal og Vatnsendahæð sem nýtast vel til útivistar

Stefnukort um gæði byggðar
Yfirlitskortið sýnir hvar opin svæði, jafnt hverfisgarðar, leiksvæði og kyrrlát svæði, eru í Breiðholti. Einnig hverfistorg og hljóðvarnir, til að bæta hljóðvist innan borgarhlutans.
Kort: Reykjavíkurborg

Lýðheilsa og lífríki

Gott aðgengi að opnum svæðum og grænar áherslur í skipulagi stuðla að bættri lýðheilsu borgarbúa og fjölbreyttu dýralífi innan borgarmarkanna. Í hverfisskipulagi eru settir skilmálar sem ætlað er að styrkja opin svæði í sessi, auka gegndræpt yfirborð, vernda gróður fyrir ónauðsynlegu raski og styðja við frekari gróðurrækt á lóðum og borgarlandi. Einnig eru sérstök náttúrusérkenni vernduð í skilmálum, t.d. plöntutegundir á válista og merkilegar jarðmyndanir.

Á skipulagsuppdrætti eru opin svæði skilgreind eftir mismunandi notkun, s.s. hverfisgarðar, dvalar- og leiksvæði og sérstök kyrrlát svæði. Til að bæta hljóðvist er í hverfisskipulagi gert ráð fyrir hljóðvörnum meðfram umferðarþungum götum.

Vilji er til að efla almenningsrými, bæði hverfisgarða, dvalarsvæði og kyrrlát svæði, í öllum hverfum borgarhlutans

Hugmyndir um vetrargarð efst í Seljahverfi hafa fallið í góðan jarðveg og komst verkefnið á fullan skrið þegar drög að lóðarskipulagi lágu fyrir eftir að ríkið, Reykjavíkurborg og Kópavogur kynntu samkomulag um legu Arnarnesvegar undir lok árs 2020.

Fyrir alla borgarbúa

Ætlunin er að hafa svæðið opið allt árið og verður ýmist notast við náttúrlegan snjó, snjóframleiðslu eða svokallaða þurrskíðun (e. dry slope skying) í fjölbreyttum brekkum og ævintýrabrautum sem verða formaðar sérstaklega á svæðinu. Þar má t.d. nefna gönguskíðabraut sem mun teygja sig til suðurs meðfram Seljahverfinu.

Gert er ráð fyrir útsýnispalli efst í brekkunni með verönd, bekkjum og borðum og veitinga- og þjónustukjarna. Þar er einnig ráðgerð skíða- og snjóbrettaleiga, útleiga á sleðum og hjólum, skíðaskóli með skíða- og brettakennslu, miðasala og veitingasala.

Vetrargarðurinn er hugsaður fyrir alla; leikskóla, grunnskóla, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, skíðafélög, fyrirtæki og stofnanir, félagasamtök, einstaklinga og fjölskyldur. Þar verður hægt að að standa fyrir alls kyns mótum og viðburðum.

Stuðlar að útivist og hreyfingu

Kostir vetrargarðsins eru margir. Hann styður við uppbyggingu skíðasvæðanna í Bláfjöllum og Skálafelli og stuðlar að aukinni útivist og hreyfingu og er því lýðheilsumál. Starfsemi verður tryggð allt árið og staðsetningin er góð. Svæðið liggur vel við samgöngum, veðurfar er almennt hagstætt efst í Seljahverfinu og útsýnið yfir borgina frábært.

Skíðasvæðið liggur vel við samgöngum, veðurfar er almennt hagstætt efst í Seljahverfinu og útsýnið yfir borgina frábært

Fyrirhugaður vetrargarður í Seljahverfi
Vinna hefur staðið yfir frá haustinu 2020 við gerð skipulagsskilmála fyrir Vetrargarðinn, sem verða hluti af skipulagsskilmálum hverfisskipulags í Seljahverfi. Forvinna við hönnun svæðisins er einnig hafin.
Teikning: Landmótun ehf.
Borgarbúskapur við Stekki
Myndin sýnir hvernig svæðið norðan við Stekkina gæti litið út með borgarbúskap þar, s.s. matjurtagarða, gróður- og garðhús o.fl.
Teikning: Jakob Jakobsson arkitekt.

Borgarbúskapur

Skilmálar eru um borgarbúskap á lóðum og borgarlandi í hverfisskipulaginu. Matjurtagarðar, sem ýta undir útiveru og neyslu á hollu grænmeti og stuðla jafnframt að betri nýtingu á verðmætu landi, eru heimilaðir.

Sérstök áhersla er á græna innviði og borgarbúskap á tveimur svæðum í borgarhlutanum. Annars vegar á opnu svæði sunnan við Stekkjarbakka, norðan við sérbýlishúsabyggðina í Stekkjum og hins vegar á opnu svæði við Jaðarsel, austan við leikskólann Jöklaborg.

Heimildir til borgarbúskapar, þ.e. matjurtagarða, eru rýmri á þessum tveimur svæðum en annars staðar á borgarlandi. Leyfð er tímabundin bygging gróðurhúsa eða garðhúsa, tenging vatns- og rafmagnslagna og afmörkun svæða með gróðri eða girðingum o.fl.

Matjurtagarðar, sem ýta undir útiveru og neyslu á hollu grænmeti og stuðla jafnframt að betri nýtingu á verðmætu landi, eru heimilaðir

Borgarbúskapur í Breiðholti
Kortið fyrir ofan sýnir svæðið þar sem má stunda borgarbúskap í Seljahverfi og kortið til hægri sýnir svæðið í Neðra-Breiðholti.
Kort: Reykjavíkurborg
Grænar áherslur
Myndin sýnir mögulegar grænar áherslur við Austurberg í Efra-Breiðholti, s.s. með margbreytilegum trjágróðri, grænum þökum, matjurtagörðum o.fl.
Mynd: DLD – Dagný Land Design ehf.

Úrgangur og flokkun

Mikil áhersla er á aukna sorpflokkun og endurnýtingu. Á næstu árum má gera ráð fyrir að enn frekari kröfur verði gerðar til flokkunar við heimili og vinnustaði til að lágmarka það magn sem fer til urðunar.

Í hverfisskipulaginu eru settir skilmálar sem auðvelda flokkun á heimilum og vinnustöðum. Á öllum lóðum er heimilt að byggja skýli, gerði eða geymslu innan lóðarinnar fyrir úrgang. Við fjölbýlishús og atvinnuhúsnæði er einnig heimilt að koma fyrir gámum á yfirborði eða djúpgámum. Á íbúðarlóðum er að sama skapi heimilt að setja upp safnkassa sem taka við lífrænum úrgangi og skila næringarríkri gróðurmold til baka í lóðina.

Grenndargámar eru jafnframt festir í sessi á skipulagsuppdrætti og lögð áhersla á að koma djúpgámum fyrir á grenndarstöðvum miðlægt í hverfinu í tengslum við endurhönnun á borgargötum hverfa. Einnig er heimilt að byggja skýli eða gerði við grenndarstöðvar til söfnunar á nytjahlutum.

Aukin áhersla er á sorpflokkun og endurnýtingu og gera má ráð fyrir að enn frekari kröfur verði gerðar til flokkunar við heimili og vinnustaði á næstu árum