Grænar og
vistvænar áherslur

Í hverfisskipulaginu er lögð áhersla á græna og vistvæna byggð í Breiðholti, í takt við áherslur Reykjavíkurborgar um sjálfbær og vistvæn hverfi. Reynt er eftir fremsta megni að halda í núverandi græn svæði og efla hverfisanda og samfélagsvitund íbúa

Allmargar athugasemdir bárust um viðhald og umhirðu á opnum svæðum og almenningsrýmum, þegar vinnutillögur hverfisskipulags voru kynntar sumarið 2020. Hefur þeim verið komið áfram til viðeigandi skrifsofa. Einnig lýstu margir áhyggjum af því að gengið væri um of á græn svæði í hverfisskipulagi.

Breiðholt nýtur þess að í jaðri borgarhlutans eru stór opin svæði á borð við Elliðaárdal og Vatnsendahæð auk þess sem innan hverfanna eru mörg góð græn svæði, lítil og stór og hvert með sinn karakter. Ný byggð sem lögð er drög að í hverfisskipulagi er að langmestu leyti innan svæða þar sem þegar hefur verið gert ráð fyrir uppbyggingu í aðalskipulagi eða á svæðum sem illa nýtast til útivistar, s.s. meðfram umferðargötum og á bílastæðum. Það verður því að mjög litlu marki gengið á græn svæði í Breiðholti sem mun eftir sem áður njóta gríðarlegra umhverfisgæða.

Ný byggð er að langmestu leyti innan svæða þar sem þegar hefur verið gert ráð fyrir uppbyggingu í aðalskipulagi eða á svæðum sem illa nýtast til útivistar

Stefnukort um gæði byggðar
Yfirlitskortið sýnir hvar opin svæði, jafnt hverfisgarðar, leiksvæði og kyrrlát svæði, eru í borgarhluta 6. Einnig hverfistorg og hljóðvarnir, til að bæta hljóðvist innan borgarhlutans.
Kort: Reykjavíkurborg

Lýðheilsa og lífríki

Gott aðgengi að opnum svæðum og grænar áherslur í skipulagi stuðla að bættri lýðheilsu borgarbúa og fjölbreyttu dýralífi innan borgarmarkanna. Í hverfisskipulagi eru settir skilmálar sem ætlað er að styrkja opin svæði í sessi, auka gegndræpt yfirborð, vernda gróður fyrir ónauðsynlegu raski og styðja við frekari gróðurrækt á lóðum og borgarlandi. Einnig eru sérstök náttúrusérkenni vernduð í skilmálum, t.d. plöntutegundir á válista og merkilegar jarðmyndanir.

Á skipulagsuppdrætti eru opin svæði skilgreind eftir mismunandi notkun, s.s. hverfisgarðar, dvalar- og leiksvæði og sérstök kyrrlát svæði. Til að bæta hljóðvist er í hverfisskipulagi gert ráð fyrir hljóðvörnum meðfram umferðarþungum götum.

Vilji er til að efla almenningsrými, bæði hverfisgarða, dvalarsvæði og kyrrlát svæði í öllum hverfum borgarhlutans

Borgarbúskapur við Stekki
Myndin sýnir hvernig svæðið norðan við Stekkina gæti litið út með borgarbúskap þar, s.s. matjurtargarða, gróður- og garðhús o.fl.
Teikning: Jakob Jakobsson arkitekt.

Borgarbúskapur

Settir eru skilmálar um borgarbúskap á lóðum og borgarlandi. Matjurtagarðar verða heimilaðir, sem ýta undir útiveru og neyslu á hollu grænmeti og stuðla jafnframt að betri nýtingu á verðmætu landi. Hverfisskipulagstillagan gerir ráð fyrir sérstakri áherslu á græna innviði og borgarbúskap á tveimur svæðum. Annars vegar á opnu svæði sunnan við Stekkjarbakka og norðan við sérbýlishúsabyggðina í Stekkjum og hins vegar á opnu svæði við Jaðarsel, austan við leikskólann Jöklaborg.

Gert er ráð fyrir að heimildir til borgarbúskapar, þ.e. matjurtagarða, verði rýmri á þessum tveimur svæðum en annars staðar á borgarlandi. Leyfð verður tímabundin bygging gróðurhúsa eða garðhúsa, tenging vatns- og rafmagnslagna og afmörkun svæða með gróðri eða girðingum o.fl.

Matjurtagarðar verða heimilaðir sem ýta undir útiveru og neyslu á hollu grænmeti og stuðla jafnframt að betri nýtingu á verðmætu landi

Borgarbúskapur í Breiðholti
Á myndinni  eru svæðin tvö í Breiðholti þar sem má stunda borgarbúskap.
Kort: Reykjavíkurborg
Grænar áherslur
Myndin sýnir hugmyndir um grænar áherslur við Austurberg í Efra Breiðholti, s.s. með margbreytilegum trjágróðri, grænum þökum, matjurtargörðum o.fl.
Mynd: DLD – Dagný Land Design ehf.

Úrgangur og flokkun

Undanfarin ár hefur verið mikil áhersla á aukna sorpflokkun og endurnýtingu. Á næstu árum má gera ráð fyrir að enn frekari kröfur verði gerðar til flokkunar við heimili og vinnustaði til að lágmarka það magn sem fer til urðunar.

Í hverfisskipulagi eru settir skilmálar sem ætlað er að auðvelda flokkun á heimilum og vinnustöðum. Á öllum lóðum verður heimilt að byggja skýli, gerði eða geymslu innan lóðarinnar fyrir úrgang. Við fjölbýlishús og atvinnuhúsnæði verður einnig heimilt að koma fyrir gámum á yfirborði eða djúpgámum. Á íbúðarlóðum verður að sama skapi heimilt að setja upp safnkassa sem tekur við lífrænum úrgangi og skilar næringarríkri gróðurmold til baka í lóðina.

Grenndargámar eru jafnframt festir í sessi á skipulagsuppdrætti og lögð áhersla á að djúpgámum sé komið fyrir á grenndarstöðvum miðlægt í hverfinu í tengslum við endurhönnun á borgargötu hverfisins. Einnig verður heimilt að byggja skýli eða gerði við grenndarstöðvar til söfnunar á nytjahlutum.

Aukin áhersla hefur verið á sorpflokkun og endurnýtingu og á næstu árum má gera ráð fyrir að enn frekari kröfur verði gerðar til flokkunar við heimili og vinnustaði