Danshús Reykjavíkur

Dans- og fimleikahús með sölum fyrir dans, fimleika og aðra íþróttastarfsemi verður staðsett í hverfismiðjunni við Austurberg, samkvæmt tillögum að nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt. Danshúsið á að nýtast íbúum í Breiðholti sem og borgarbúum öllum, óháð búsetu eða aldri

Staðsetning dans- og fimleikahússins á lóðinni við Gerðuberg 1 í Efra Breiðholti, sem er í eigu borgarinnar, styrkir menningar-, mennta- og íþróttamiðju hverfisins við borgargötuna Austurberg.

Þar eru fyrir menningarmiðstöðin Gerðuberg, frístundamiðstöðin Miðberg, tónlistarskóli, Fjölbrautarskólinn í Breiðholti og sundlaugin, ásamt fleiri íþróttamannvirkjum, sem og hverfistorgið Markúsartorg, sem á að styrkja enn frekar. Jafnframt er áformað samkvæmt fyrirliggjandi tillögum að Breiðholtsleggur Borgarlínu far þarna um í framtíðinni.

Lagt er til að staðsetja dans- og fimleikahús, þar sem allar tegundir af dansi fái að njóta sín,
í nánum tengslum við hverfiskjarnann við Gerðuberg

Styrkir hverfiskjarnann við Austurberg
Horft er til þess að staðsetja dans- og fimleikahúsið við Gerðuberg 1 (bleiklitaða húsið til hægri á miðri myndinni).
Teikning: Jakob Jakobsson arkitekt.
Mynd: Bragi Þór Jósefsson.

 

Allar tegundir af dansi fái að njóta sín

Upphaflega var horft til þess að finna stað fyrir fimleikahús í Efra Breiðholti, í samræmi við samning borgarinnar og ÍR frá árinu 2017.

Strax þá voru áformin tengd við dansinn og skyldi við þarfagreiningu verkefnisins horfa til starfsemi og þarfa dansskóla. Árið 2020 var svo samþykkt í borgarráði að fela umhverfis- og skipulagssviði að koma með tillögu að staðsetningu fimleika- og danshúss í Efra Breiðholti, sem er nú orðið að tillögu í hverfisskipulaginu, í nánum tengslum við hverfiskjarnann við Gerðuberg. Miðað er við að dans- og fimleikahúsið  verði 2-3 hæðir og 2-3.000 m² með fjölnotasal, fimleika- og karatesal, minni danssal, búningsaðstöðu, geymslurými og anddyri.

Horft er til þess að allar tegundir af dansi fái að njóta sín í dans- og fimleikahúsinu, sem á að þjóna bæði íbúum í Breiðholti og borginni allri. Með áherslu á fjölbreytta dansiðkun getur slíkt hús styrkt enn frekar hið fjölþjóðlega samfélag í borginni og opnað allskyns ný samskipti og samskiptamöguleika.

Með áherslu á fjölbreytta dansiðkun getur slíkt hús styrkt enn frekar hið fjölþjóðlega samfélag í borginni og opnað allskyns ný samskipti og samskiptamöguleika